Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Það er margt skrýtið í kýrhausnum

Eftir að hafa haldið innblásna ræðu yfir einum af prófessorunum mínum í dag, sem ég er nóta bene að reyna að tæla til að vera leiðbeinandi minn með mastersritgerðina mína, um hvað ég er heilluð af öllu hér og einnig á muninum á austrinu og vestrinu fór ég að velta fyrir mér ýmsu sem hefur verið undarlegt að upplifa hérna. Eins og að kaupa gúrkur sem eru með göddum á svo maður verður að passa sig að stinga sig ekki. Öllum þessum fjölda sem er hérna svo maður þarf að vera í baráttu á hverjum degi um speisið sitt, hvort sem það er út á götu eða í strætó. Dálæti þeirra hér á einkennisbúningum, allir uppstrílaðir í fullum skrúða hvort sem þeir eru á vegum ríkisins svo sem lögreglu- eða hermenn eða bara verðir sem gæta bílastæða eða bygginga. Það er nefnilega ekki bara margt í grundvallarhugsuninni hvernig á að stjórna ríki og þjóð og í stefnumörkun stjórnvalda sem er ólíkt austan megin í heiminum miðað við vesturhlutann heldur líka svo ótal margir litlir hlutir sem gera menninguna mjög ólíka.

En svo er líka önnur fyndin upplifun sem ég hef orðið fyrir hérna en það er að vera í bekk með krökkum sem eru flest rúmlega 10 árum yngri en ég. Þótt að aldur sé afstæður og fólk mismunandi þroskað burtséð frá aldri þá geta komið upp fyndnar aðstæður. Sem dæmi má nefna að ég hef aldrei upplifað það áður að bekkjarsystir mín segi við mig í fullri alvöru og með aðdáunaraugum að hún ætli sko að verða eins og ég þegar hún er orðin stór............Ehemm var ekki laust við að mér fyndist ég orðin nokkuð öldruð......


Styttist í heimferð

Já það má segja það að það sé ljósið í vinnutörninni sem á hug minn allan um þessar stundir. Þrátt fyrir að góð vinkona mín geri grín að mér á síðum dagblaðanna fyrir að vera ekki nógu ævintýragjörn og halda jólin hér hátíðleg. Það bara virkar ekki sjarmerandi þótt það yrði ábyggilega mjög fyndið eins og að sjá jólatré skreytt með rauðri Maóstjörnu á toppnum. En nei mig langar bara að koma heim og eiga almennileg íslensk jól með fjölskyldu og vinum. Já síðustu jólin í Beykihlíðinni þar sem foreldrarnir eru að færa sig um set strax eftir áramót. Ekki laust við að það sé komin fiðringur í mig og einhver plön séu farin að myndast. Að minnsta kosti er ég ekki í neinum vafa að það verður þess virði að ferðast um hálfan hnöttinn :-)
Ég ætla líka áður en ég kem heim að fá smá útrás fyrir sköpunargáfuna sem átti að nýtast þegar ég yrði fatahönnuður samkvæmt draumum lítillar stelpu fyrir löngu. Í þetta skiptið þó með aðstoð kínverskra skraddara. Það verður spennandi að sjá hvort vel til takist og ég geti skartað eh konar Kolluhönnun um jólin......

Útskriftarboð

Fór í útskriftarboð hjá Guðnýju, konunni hans Axels sem vinnur hjá íslenska sendiráðinu, í gærkvöldi. Hún var að útskrifast með MBA gráðu hér í Peking. Þetta var mjög glæsilegt boð á allan hátt. Við mættum nokkrir Íslendingar og svo var hluti af útskriftarhópnum hennar líka. Það var óskaplega gott að hitta Íslendingana og spjalla um daginn og veginn, ég þurfti á því að halda eftir að hafa verið í frekar pirruðu skapi undanfarið. Það er ekkert gamanmál að ætla sér að finna heimildir á bókasafni Pekingháskóla þar sem allt er eingöngu merkt á kínversku, leitarkerfið er á kínversku og starfsmennirnir tala bara kínversku og ég tala ekki né les kínversku. Þetta er þraut eins og hetjurnar í ævintýrunum þurfa að leysa. En já boðið var mjög skemmtilegt og ekki skemmdi fyrir að það var kirfilega passað að þú værir aldrei með tómt rauðvínsglasið. Ekki laust við að ég þjáist af smá þynnku í dag. Þurfti að mæta í morgun á fund hjá prófessorunum sem eru að skipuleggja prógrammið okkar hjá LSE og segja þeim skoðun mína á hvernig hlutirnir hafa verið hér hingað til. Þeir fengu smá ræðu um bókasafnsmálin og annað smálegt. En jæja nú er ég að klára þynnkumatsskammtinn og ætla að vinda mér í ritgerðavinnu um áhrif búddisma á pólitíkina í Burma/Myanmar. Góðar stundir :-)

Þakkargjörðarhátíð

Við héldum uppá þakkargjörðarhátíðina hina amerísku í gær. Það var nú fyrst og fremst til að fagna með amerísku vinunum okkar hérna, Ryan, Ariele og Sandy. Þetta var mjög skemmtileg upplifun, fórum á veitingastað sem heitir Grandma's Kitchen og sérhæfir sig í amerískum mat. Ryan sem er vanur að elda þakkargjörðarmáltíðina fyrir fjölskylduna sína sagði mér að þau byrja almennt að borða kl. 14 og eru að fram eftir degi. Þetta er sem sagt matarhátíðin mikla. Þau amerísku voru mjög ánægð með matinn sem við fengu og sögðu að þetta væri eiginlega bara eins og heima. Og þetta var engin smá veisla, 5 réttir takk fyrir. Fyrst voru bornir fram smáréttir, salat og súpa. Síðan tók við aðalrétturinn, kalkúninn sjálfur með öllu tilheyrandi og að lokum var svo hægt að velja um nokkur pæ. Með þessu var svo drukkið rauðvín. Það þurfti náttúrulega að skála fyrir öllu sem var þakkarvert og það vantaði alls ekki hugmyndirnar, hehehehehe. Virkilega gaman og sérstaklega að fylgjast með þeim amerísku en þau brostu eiginlega hringinn allan tímann.

Mér finnst svakalega leiðinlegt að missa af þessu!!

Ný tónleikasería fer af stað í Hafnarhúsinu: Kökukonsertar

Um þessar mundir fer af stað ný tónleikasería sem ber heitið Kökukonsertar en fyrstu tónleikarnir í röðinni verða haldnir í Hafnarhúsinu næstkomandi föstudagskvöld klukkan átta. Á Kökukonsertunum er fléttað saman tónlist og kökugerðarlist þar sem ýmsir tónlistarmenn koma saman ásamt Hafliða Ragnarsyni, súkkulaðigerðarmeistara, og sjóða saman viðburði þar sem hið hefðbundna tónleikaform er brotið upp. Tónleikaröðinni er ætlað að koma á framfæri flytjendum af yngri kynslóðinni en á þessum fyrstu tónleikum stíga á svið söngkonurnar Hallveig Rúnarsdóttir og Margrét Sigurðardóttir, hörpuleikarinn Katie Buckley, sellóleikarinn Sigurgeir Agnarsson, raftónlistarmaðurinn Guðmundur Vignir Karlsson, einnig þekktur sem Kippi Kanínus og slagverksleikarinn Frank Aarnink , en öll eru þau komin í fremstu röð tónlistarmanna af yngri kynslóðinni á Íslandi. Á tónleikunum í Hafnarhúsinu verður boðið upp á nýja og nýlega íslenska tónlist, þótt fimmundir fornalda hljómi undir niðri. Frank og Guðmundur Vignir munu spinna saman slagverks- og raftónlist, Hallveig og Sigurgeir munu flytja flokkinn ,,Lysting er sæt að söng" eftir Snorra Sigfús Birgisson og Margrét, Katie og Sigurgeir munu flytja frumsamið efni Margrétar og nýjar þjóðlagaútsetningar hennar sem hafa ekki verið áður fluttar hér á landi.

Tónlistin verður svo bragðbætt með óvæntum glaðningi frá Hafliða en hann er einhver mesti súkkulaðisérfræðingur landsins og má búast við að þar verði enginn ekki fyrir vonbrigðum.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00, miðaverð er 1800 kr. Frekari upplýsingar fást hjá Margréti Sigurðardóttur í síma 695 3314 og Hallveigu Rúnarsdóttur í síma 898 4978.


Smá menning

Við fórum nokkur á tónleika í gærkvöldi þrátt fyrir að fyrir lægi skiladagur á verkefni í dag. Við sáum ekki eftir því. Ljúfir tónleikar haldnir í tónlistarhúsinu í Forboðnu borginni. Það var leikin tónlist eftir Brahms, hljómsveitin var frá Suður Kóreu og fyrir hlé lék 19 ára gamall einleikari á píanó. Hann stóð sig mjög vel og var öruggur á sviði þrátt fyrir ungan aldur.  Allt í allt var þetta mjög fín kvöldstund sem braut upp annars líf sem er á kafi í bókum og lestri.

P1000713 P1000716P1000717


Stórhættuleg sjálfri mér

Ég er um þessar mundir svoldið upptekin af því að vera í hlutverki aðstoðarutanríkisráðherra Kína og klára að skrifa minnisblaðið fyrir utanríkisráðherrann sem ég á að skila á miðvikudaginn. Ég var í þungum þönkum um afstöðu Kínverja gagnvart Norður-Kóreu þegar ég ákvað að fá mér heitt engifersoð vegna kvefsins sem ég virðist hafa nælt mér í. Nú ég skellti vatni í pott, skar engifer út í og kveikti á gasinu. Síðan fór ég inn í svefnherbergi að prenta út greinar og annað efni sem ég hafði hugsað mér að nota við minnisblaðagerðina. Allt í einu fann ég matarlykt og velti því fyrir mér hvort að nágranninn minn væri að elda sér steik í hádegismatinn. þegar ég var búin að prenta allt út, lagðist ég upp í rúm og ætlaði að skanna papírana til að sjá hvað ég gæti notað af þeim. Eftir eh stund lagðist syfja yfir mig og þegar ég var að renna yfir í draumalandið skaut skyndilega upp sú hugsun um að nágranninn minn væri ekki að elda sér brennda steik heldur væri ég að kveikja í eldhúsinu. Það er langt síðan að ég var jafn fljót að hlaupa inn í eldhús þar sem ég bjóst við að allt stæði í ljósum logum. Sem betur fer var það ekki svo slæmt en það leit út fyrir að ég væri búin að stofna litla málmsteypu í eldhúsinu. Amk verður potturinn ekki framar notaður í eldamennsku.......

Róleg helgi

Það fylgir lærdómstörnum að það hægist á öðru hjá manni. Til þess að brjóta þetta mynstur upp fór ég með krökkunum út að borða í gærkvöldi. Fyrir valinu var indverskur staður sem er ekki svo langt frá okkur. Mjög fínn staður og enn betri félagsskapur. Eftir kvöldmatinn fórum við heim að horfa á videó. Það er náttúrulega engin bíóstemming hérna þar sem það dettur engum í hug að fara í bíó og borga slatta pening fyrir þegar hægt er að kaupa allar myndir og jafnvel þær sem er verið að sýna í bíó fyrir smá pening. Ég sakna þess reyndar að fara aldrei í bíó hérna þar sem ég er svoldill bíófíkill en það venst ágætlega að vera bara með heimabíó og úrval eins og gerist í meðal stórri vídeóleigu til að velja úr. Dagskráin í dag er svo að gera aðra tilraun til þess að borga blessaðan símareikninginn. Frekar brjálæðislegt að þurfa að berjast við kerfið til þess að fá að borga peninga.......

Það er nú svo

Eftir að hafa verið nokkuð dugleg í að nota mér leigubílaþjónustu hér í borg hef ég komist að einu. Kvenbílstjórar eru miklu betri leigubílstjórar en karlarnir. Því miður er ekki mikið af þeim svo í hvert skipti þegar maður sest inn í bíl hjá konu er eins og maður hafi fundið gull. Þær eru bara miklu betri að keyra, miklu almennilegri og mun snyrtilegri á allan hátt en ætla ekkert að lýsa því neitt nánar, ehemm. Og það er ekki eins og umferðin sé eitthvað sérstaklega auðveld hérna svo að ég held að þetta sé sönnun á hinu gagnstæða en á því sem hefur verið haldið lengi fram, almennt af karlmönnum, að þeir séu betri bílstjórar.

Lífið og tilveran

Snýst að mestu um vinnu í verkefnum fyrir skólann þessa dagana. Var að klára fyrirlestur um innflytjendur í Suðaustur Asíu sem eru af kínversku bergi brotnir. Næst á dagskrá er að bregða sér í líki aðstoðarutanríkisráðherra Kína, Wu Da Wei og skrifa minnisblað fyrir utanríkisráðherrann fyrir næsta fund hinna sex ríkja sem fjalla um kjarnorkumál Norður-Kóreu. Þá er ég að fara í rannsóknarferð í íslenska sendiráðið til að kynna mér samningaviðræður Íslands og Kína um fríverslunarsamning. Það verður gaman því það er sérstaklega vel valið fólkið sem ræður ríkjum í sendiráðinu. Annars bara lítið að frétta, lífið gengur sinn vanagang hér í Kína, tíminn fljótur að líða og mér finnst alltaf vera að koma helgi.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband