Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ljúfasta helgi

Búin að eiga alveg indæla helgi í félagsskap Helgu og Heiðu. Erum búnar að hafa það svakalega gott og dekra við okkur á alla kanta. Höfum rölt í skemmtilegum búðum, farið út að borða og fengið meðal annars japanskan, tælenskan og persneskan mat. Drukkið kokteila á besta kokteilbar borgarinnar, látið dekra við okkur í marga klukkutíma í spa-inu Bodhi. Sem sagt hin fullkomna helgi í alla staði. Skelltum okkur einnig á markaði borgarinnar og eftir að stelpurnar höfðu eiginlega verið í baklás frá því að þær komu út af ágangi sölumannanna hrukku þær aldeilis i gang í gær og voru svo öflugar að sölufólkið átti sko engan sjens í þær. Einnig vildi svo heppilega til að ég fjárfesti í stærstu ferðatöskunni sem ég fann því eins og þeir sem mig þekkja vita að ég er ótrúlega dugleg að sanka að mér dóti, ehemm og einhvern veginn verð ég að koma því heim í ágúst. Nú jæja þessa forlátu tösku var náttúrlega hægt að nota til að geyma allan varninginn og drógu við hana um alla borg. Ég ekkert að ýkja þegar ég segi að það leit út fyrir að við værum með lík í eftirdragi. Enda kom það á daginn þegar við komum heim að fullorðin manneskja kemst léttilega í hana en hláturskast helgarinnar var þegar Helga gerði sér lítið fyrir og skellti sér í töskuna. Í dag fóru dömurnar svo eldsnemma á Kínamúrinn en ég sat heima í þetta skiptið og ætla að dunda mér í bókum í dag. Að lokum vil ég svo benda á grein eftir mig í ferðablaði Fréttablaðsins sem kom út í gær, um Kambódíu, svona fyrir þá sem hafa áhuga ;-)

Síðustu dagar

Ég er búin að vera að mestu að njóta lífsins með Helgu og Heiðu síðan föstudaginn síðasta svona fyrir utan það að skila eins og einni ritgerð af mér. Við erum búnar að hafa það ljómandi gott. Fara á rúntinn í SanLiTun hverfinu, rölta um, kíkja á hina svakalegu markaði, fara í nudd og fengið okkur gott að borða. Skelltum okkur út á lífið á laugardagskvöldið, fórum að borða á veitingastaðnum SALT og svo kom Ásta og hitti okkar á bar á eftir. Við eyddum sunnudagskvöldinu í að panta indverskan heim og horfa á hina geggjuðu mynd Sex and the City í hinum frábæru kínversku gæðum......Stelpurnar hafa reyndar yfirgefið mig um stund en þær skelltu sér til Yangshuo í Suður Kína og koma aftur á föstudaginn. Í millitíðinni sit ég við skriftir og er loks að byrja á lokaritgerðinni, veitir víst ekki af þar sem tíminn hreint flýgur áfram. Svo maður tali aðeins um veðrið eins og Islendingi sæmir þá hefur það verið svolítið skrýtið undanfarið, almennt mjög heitt, svo kólnar skyndilega seinni partinn og svo skella á þrumur og eldingar með úrhellis rigningu. Það er nauðsynlegt að vera við öllu undirbúin þessa dagana, vera léttklæddur með auka föt ef kólnar og svo auðvitað regnhlífina góðu þegar úrhellið kemur........hljómar kunnuglega eða hvað??

Í tilefni heimsóknar

Helga vinkona og Heiða systir hennar lenda hérna í Peking eftir ca klukkutíma. það verður nú gaman að fá þær í heimsókn og er ég ekki í neinum vafa að við munum skemmta okkur vel. Í tilefni heimsóknarinnar er nú nauðsynlegt að skella einu Duran lagi á síðan að ég og Helga vorum AÐDÁENDUR NR.1.......


17. júní fagnaður

Haldið var upp á þjóðhátíðardaginn í fyrra fallinu í ár en Íslendingafélagið í Peking sló upp veislu í gær. Það var óskaplega hugguleg grillveisla í garðinum hjá Axel og Guðnýju. Boðið var upp á dásamlega góðan grillmat (fyrsta grillið hjá mér í ár) og í eftirrétt voru íslenskar pönnukökur með sykri eða sultu og rjóma. Ægilega þjóðlegt og gott. Það var gaman að hitta alla og spjalla. Ekki var það nú verra þegar tekið var við það að syngja saman svo sem Ísland ögrum skorið og öxar við ánna, þetta var sko alveg tekið alla leið. Svo var auðvitað verið að spá og spekulera í Ólympíuleikunum og ýmsar skemmtilegar hugmyndir reifaðar hvernig við gætum sem best stutt við okkar fólk. Sem sagt í alla staði mjög svo skemmtileg 17. júní hátíð.

Freistandi

Ohhhh já það er nú ansi freistandi að taka hann vin minn Dr. David, sem hringdi í mig í vikunni, á orðinu, pakka niður í tösku og heimsækja hann og fjölskyldu á Koh Chang eyju á Tælandi. Ég meina hverjum langar ekki að eyða tíma á þessum stað.....

P1020296P1020281P1020302P1020315P1020319P1020268


Víetnamstríðið

Víetnamstríðið hefur verið mér hugleikið síðan að ég heimsótti landið í janúar. Á ferðalaginu mínu las ég einmitt bók sem skrifuð er af víetnamskri konu sem var lítil sveitastelpa í litlu þorpi í Mið-Víetnam þegar stríðið hófst. Hún lýsir því hvaða áhrif stríðið hafði á hana frá því að hún er lítil stelpa í upphafi stríðsins þar til hún er orðin ung kona þegar stríðinu líkur. Ég er líka búin að vera að horfa á nokkrar bíómyndir sem fjalla um stríðið og er allt öðruvísi að horfa á þær eftir að hafa verið þarna í eigin persónu þótt auðvitað sé allt breytt í dag. Ég fór um svæðið sem kallað er “Demilitarized Zone” og er í Mið-Víetnam. En það var í samningunum eftir Seinni Heimstyrjöldina nánar tiltekið 1954 að Víetnam var skipt í tvennt eftir ánni Ben Hai, í miðju landsins, 5 km löng landamæri eftir ánni báðum megin. Kommúnistarnir voru norðan megin en lýðræðissinnar sunnan megin. Þetta voru landamærin milli landshlutanna allt til 1975 þegar landið var sameinað að nýju. Þetta svæði fór mjög illa út úr stríðinu en svo mikið var sprengt á þessu svæði að í nokkur ár eftir stríðið óx ekkert á svæðinu en vegna uppgræðsluátaks eru nú fjöll og hlíðar skógi vaxið.

P1010219P1010222

Talið er um 30 % af öllum sprengjum sem varpað var á þetta svæði hafi ekki sprungið og frá lokum stríðsins 1975 hafa orðið yfir 10.000 dauðsföll og slys vegna ósprunginna sprengja. Á þessu mikilvæga svæði við landamæri norðursins og suðursins fór stór hluti stríðsins fram og eru miklar minjar um stríðið þarna.

P1010263P1010266P1010242

Eitt af því sem mér fannst áhugaverðast á þessu svæði eru Vinh Moc neðanjarðargöngin en þau voru byggð til þess að tryggja þorpsbúum í nágrenninu skjól gegn stríðsógninni. Það var 1966 þegar Ameríkanar juku við sprengjuárásir sínar á þessu svæði sem þeir hófu að byggja göngin.

 P1010290P1010296P1010300

Þau voru á 3 hæðum og meðal annars var inni í þeim skóli, læknastofur og fæðingarstofa. Að jafnaði bjuggu þar hátt í 600 manns. Hver fjölskylda fékk sinn klefa sem var ekki stærri en venjulegt rúm. Mig minnir að sagt hafi verið að það hafi 17 börn fæðst á þessum tímabili í þessum neðanjarðar hýbýlum.

P1010305P1010307

Það var svo árið 1972 sem þorpsbúar gátu fyrst yfirgefið göngin og byggt upp heimili sín ofanjarðar. Mér finnast stríðsminjar alveg ágætis áminning um stríðsrekstur yfirleitt í heiminum. Bæði þær ömurlegu aðstæður sem fólk býr við og það sem það þarf að ganga í gegnum á tímum stríðs. Jafnframt allar þær hörmungar sem þær leiða af sér fyrir land og þjóð og það sorglega er að oft er ávinningurinn harla lítill.


Helgin í hnotskurn

Þá er enn ein helgin liðin, að mestu í rólegheitum við lærdóm en reyndi að gera mér eitthvað til skemmtunar svona inni á milli. Föstudagskvöldinu eyddum við Tanya í félagsskap Indiana Jones. Það var nú aldeilis ekki leiðinlegt, mér fannst myndin skemmtileg og alltaf jafn gaman að detta inn í einhvern ævintýraheim um stund. Ég skil alveg að Rússarnir hafi ekki verið neitt of kátir með þessa Rússatýpur sem voru í myndinni, þvílíkir lúðar..... Laugardagskvöldinu var hins vegar eytt með bekkjarfélögunum en Nam bekkjarsystir okkar bauð til tælenskrar veislu. Vá hvað maturinn var góður en hún og Paul báðar frá Tælandi elduðu ótrúlega magnaða rétti, alveg eitursterka svo að þá lá við að maður svitnaði. Mjög skemmtilegt kvöld í alla staði.

Hið daglega amstur

Jæja þá eru gestirnir flognir á braut og lífið dettur í sinn vanagang hjá mér. Nú er það lærdómurinn sem hefur tekið öll völd og býst ég við að ég sitji við skriftir stóran hluta af sumarinu og er megin stúdían svæðahyggja í Austur Asíu. Mjög ánægð með rannsóknarefnið enda langar mig virkilega til að kafa dýpra í fræði sem tengjast þessum heimshluta, finnst hann mjög svo hrífandi. Annars er nú lítið að frétta enda býst ég við að dunda mér mest við lestur og skriftir þar til Helga vinkona og Heiða systir hennar koma eftir miðjan júní en það verður nú gaman að fá þær systur hingað. Það er líka farið að þynnast í hópi bekkjarélagana en sumir eru bara á lokametrunum hérna og ætla heim til sín í sumar. Svolítið skrýtið að vera farin að kveðja fólk sem maður hefur upplifað súrt og sætt með hérna síðan við komum og á ekki eftir að sjá aftur fyrr en í haust. En auðvitað eru hér nokkrir sem ætla að vera á Ólympíuleikunum svo maður verður ekkert of einmanna. En jæja best að drífa sig í lesturinn ;-)

Land lita og ilms-Grein birt í ferðablaði Fréttablaðsins 1. júní 2008

Einhvern veginn virðast litirnir vera skærari í Víetnam, ilmurinn meiri og orkan áþreifanlegri en við eigum að venjast. Þetta fallega og spennandi land sem maður þekkti áður mest af sögum og bíómyndum af stríðinu sem háð var milli Norður-Víetnams (kommúnista) annars vegar og Suður-Víetnams (lýðræðissinna) og Bandaríkjanna hins vegar. Í dag er Víetnam á hraðri leið með að breytast úr lokuðu kommúnistaríki í þjóð þar sem efnahagurinn blómstrar og allt er á uppleið þótt stjórnarfarið hafi ekki breyst svo mikið. Í Víetnam búa 84 milljónir manna. Víetnamar eru glaðlyndir og stoltir enda hafa þeir þurft að verja sitt í gegnum tíðina og í þeirri baráttu hafa þeir sigrast á stórþjóðum eins og Kínverjum og Bandaríkjamönnum. Það er eins gott að vera vakandi í umferðinni í Víetnam, mannmergðin er mikil, stærsti hluti fólksins í borgunum ferðast um á mótorhjólum eða vespum, jafnvel heilu fjölskyldurnar á einu hjóli. Hraðinn er mikill þar sem allir þeysast áfram og nota flautuna óspart. Það er eftirtektarvert að flestir í umferðinni eru með andlitsgrímur til að verjast menguninni sem óneitanlega fylgir svona mikilli umferð. Konurnar hafa greinilega gert þetta að tískufyrirbæri því grímurnar er hægt að fá í öllum litum með mismunandi mynstri og ekki var óalgengt að sjá konur með þær í stíl við klæðnað dagsins. Flestir Víetnamar eru búddatrúar og eru því stór og smá bænarskríni úti um allt, hvort sem er á heimilum, hótelum eða verslunum. Í skrínin er lagður matur og blóm og kveikt er á ilmandi reykelsi fyrir látin ættmenni og því ilmar allt dásamlega.
 
Ódýrt og þægilegt
 
Auðvelt er að ferðast um Víetnam þar sem flugsamgöngur eru góðar. Flugfélagið Vietnam Airlines er til fyrirmyndar og svo er einnig mjög ódýrt að ferðast með rútum en hægt er að taka næturrútur, sem er mjög þægilegt. Í flestum borgum og bæjum er auðvelt að skella sér upp í svokallaðan "Tuk tuk" en það eru kerrur annað hvort aftan á hjólum eða mótorhjólum og fá sér góða skoðunarferð, kíkja í búðir eða skella sér í nudd.
P1010073
Fyrir ferðamenn frá Íslandi er afar hagstætt að ferðast um Víetnam, hvort sem um er að ræða gistingu, samgöngur, mat eða skemmtanir. Allt þetta kostar aðeins brot af því sem venjan er heima. Það er líka hagkvæmt að kaupa víetnamskar vörur en vestrænar vörur eru ekki jafn hagstæðar. Mikið úrval er af vörum úr silki svo sem fötum eða heimilisbúnaði, en einnig er að finna ýmsa hluti skorna út í tré og listaverk eftir víetnamska listamenn. Þá eru ónefndir hlutir sem eru einkennandi fyrir Víetnam eins og lampar í mörgum litum og hattarnir sem margir Víetnamar virðast nota dagsdaglega en ekki aðeins á hrísgrjónaökrunum.
 
Veisla fyrir bragðlaukana
 
Matargerð Víetnama er fáguð og fersk. Það fer auðvitað mikið fyrir alls kyns réttum úr núðlum og hrísgrjónum og fiskur er einnig mikið notaður. Ávextirnir og grænmetið er hreint dásamlegt og manni finnst að þau séu stútfull af vítamínum og hollustu. Úrvalið af nýkreistum ávaxtasöfum og ávaxta- og grænmetissalötum er næstum óendanlegt. Úr hollustunni í dásamlegar syndir því það er urmullinn allur af bakaríum og kaffihúsum sem selja nýbökuð brauð og ótrúlega fallegar kökur af öllum stærðum og gerðum. Bragðgæðin eru mikil enda greinilega bakað eftir frönskum uppskriftum þar sem smjörið er í hávegum haft. Kaffi er einnig í miklum metum en Víetnamar drekka kaffið sitt vel sterkt, eru með trekt fyrir hvert glas og bæta svo út í bleksterkt kaffið sykri og niðursoðinni mjólk. Í öllum þeim borgum og bæjum sem ég heimsótti var mikið úrval af veitingastöðum og kaffihúsum sem buðu upp á mjög góðan mat. Hægt er að velja á milli staða sem bjóða upp á mat heimamanna eða frá mismunandi heimshornum. Vert er einnig að veita athygli veitingastöðum og kaffihúsum sem rekin eru með það að markmiði að veita krökkum sem bjuggu áður á götunni atvinnu. Góð leið til að styrkja gott málefni. Ekki er hægt að tala um mat í Víetnam nema að minnast á alla réttina sem fást á götum úti. Það er mjög ódýr og góður matur og fer þjóðarrétturinn núðlusúpan Pho þar fremst í flokki.

Íslenska landsliðið í handbolta á leiðinni til Peking

Held ég hafi ekkert fleiri orð en jibbý jeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeee....................

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband