Leita í fréttum mbl.is

Fyrstu dagarnir í Peking

Jæja þá er dagur að kveldi kominn og nú hef ég verið hérna í 2 daga. Mér fannst það merkilegt þegar ég var á leiðinni frá flugvellinum hversu mikið er af stórhýsum hérna, endalausar risastórar blokkir og himinháar byggingar, samt kannski ekkert skrýtið miðað við mannfjöldann sem býr hér en ansi ólíkt gömlu kínversku byggingunum sem maður sá fyrir sér. Ég dvel á hóteli þessa dagana sem er nálægt skólanum, en á morgun hefst leitin að íbúð. Vona að það gangi vel hjá okkur Mindy Li, leigumiðlara. Annars er ég búin að komast að því að það talar eiginlega enginn ensku hérna, enginn á hótelinu, ekki í verslununum né leigubílstjórar. Ég er orðin mjög fær í táknmáli á þessum stutta tíma, fjárfesti reyndar í orðabók sem kennir manni algengustu setningarnar og nú verð ég bara að læra þær svo ég komist af hérna. Leigubílstjórarnir kunna margir ekki að lesa og ég hef lent í því 2var af ca 4 skiptum að láta þá fá heimilisfang á kínversku en þeir geta ekki lesið svo það hefur lítið gagnast. Ég hef því þurft að benda þeim á að hringja á áfangastaðinn og fá lýsingu á hvernig þeir eigi að komast á leiðarenda.

Svo er ég aðeins búin að kynnast bankaþjónustunni hérna, úff. Þegar ég kom á hótelið og ætlaði að borga með kreditkorti héldu þau nú ekki, í peningum skyldi það nú vera, ég bent þeim nú á útprentun af heimasíðu þeirra þar sem kom fram að þeir tækju öll helstu kreditkortin en nei. Ég var sem sagt send í Bank of China í fylgd dyravarðarins á hótelinu sem náttúrulega talaði enga ensku. Kannski ekki alveg sem mig langaði til eftir ferðalagið!! Þegar við komum í bankann virkaði ekki hraðbankinn svo ég varð að fara til gjaldkera til að taka út peninga. Það var nú SKRIFFINSKA sem fylgdi því og ég sat ábyggilega hjá honum í góðan hálftíma, Gjaldkerinn var að hringja og tékka hvort að vísakortið mitt væri í lagi, en kom svo með þau skilaboð sem voru þýdd af enskumælandi starfsmanni hjá þeim, að visakortið mitt væri debetkort. Nú sagði ég og hver sagði það, það var bankinn þinn, nei sagði ég það getur ekki verið, það er hánótt heima á Íslandi og bankarnir lokaðir. Það var sko Citibank sem sagði það, jæja en áhugavert svo ég lét þá fá eurokortið mitt sem virkaði. Ekki dugði það til, því ég þurfti ásamt því að þurfa undirrita loforð þess efnis að ég myndi borga fyrir þetta þá þurfti ég að gefa upp heimilisfang, símanúmer og herbergisnúmerið á hótelinu. Ég var náttúrulega ekki með neitt herbergisnúmer svo að dyravörðurinn á hótelinu bjargaði mér með því að lofa að láta hótelið hringja um leið og ég væri komin með herbergisnúmer. Nú að lokum fékk ég peningana afhenta, ég held ég hafi aldrei þurft að hafa jafn mikið fyrir peningum eins og í þetta skipti. Svo benti enskumælandi starfsmaðurinn mér á að Citibank væri við hliðana á Bank of China svo ég labbaði yfir þangað og tók út peninga í hraðbankanum á visakortið sem þeir höfðu stuttu áður sagt að væri bara debetkort sem ekki væri hægt að nota!!

Í dag miðvikudag er ég svo búin að skoða nánasta umhverfi og kíkti á skólann. Ég fékk mjög góða tilfinningu fyrir honum. Ég reyndar labbaði bara um garðana sem eru yndislegir, með fullt af trjám, blómum og tjörnum. Byggingarnar eru allar í gömlum kínverskum stíl. Mér fannst ég komin í einhvern ævintýraheim. Veðrið var líka svo frábært, sól og hiti, þægileg gola og ekki spillti blár himininn fyrir.

Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili og langar að nota tækifærið að lokum til að þakka fyrir allar kveðjurnar sem ég hef fengið í dag. Það er voða gott að heyra í ykkur :-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband