12.9.2007 | 13:37
Það sem leynist bak við dyr í Kína
Síðustu daga hef ég verið að komast að því að látlausar dyr segja ekki alltaf alla söguna. Í dag fórum við í eina af bóksölum háskólans. Við fórum í fylgd kínverskra félaga okkar. Annars held ég að við hefðum aldrei fundið bóksöluna því að áður en við komum að dyrunum þurftum við að labba upp brattan stiga en hvergi voru merkingar um að þarna væri stór bókabúð.
Þegar ég flutti í íbúðina mína var mér sagt að næsta stóra matvöruverslunin væri í öðru hverfi og væru ca 10 mínútur í leigubíl þangað. Ég hef farið þangað samviskusamlega og verslað í matinn. Hérna í húsinu er lítil matvöruverslun sem opin er allan sólarhringinn en hún er frekar lítil og dýr svona miðað við hvað gerist hérna. Í dag þegar ég kom heim úr skólanum fór ég í litlu búðina til að versla nokkra hluti. Í búðinni hitti ég bekkjarfélaga minn sem einnig býr hér en hann sagði mér að það væri önnur búð handan við hornið sem væri miklu betri. Ég ákvað að rölta í hana og ekki hefði mig grunað að þarna væri verslun, fátt sem benti til þess, en almáttugur hvað þá að þarna væri Hagkaup bara mætt. Ég var frekar hamingjusöm með þessa uppgvötun, munur að skokka í 2 mínútur í Hagkaup heldur en að þurfa að taka leigubíl í 10 mínútur til að versla í matinn!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.