30.9.2007 | 03:48
Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 29. september 2007
Gullfiskur í búri
Mér finnst afskaplega spennandi að kynnast alveg nýjum menningarheimi, heimi sem ég hafði áður aðeins upplifað í gegnum bækur eða kvikmyndir.
Ég var ekki búin að dvelja í Kína lengi þegar ég áttaði mig á því að ég var Kínverjunum jafnvel enn meira framandi en þeir voru mér. Hér í Kína eru vesturlandabúar vægast sagt öðruvísi og heimamenn eru ekkert að fela að þeim finnist það. Í hverfinu sem ég bý í er lítið um hvítt fólk og þar er stöðugt glápt á mig. Í lyftunni, í verslununum, á götunum, hvert sem ég fer mæti ég fólki með störu. Það bætir ekki úr skák að ég er alveg sérstaklega hvít á hörund (Það þykir þó frekar smart hér á bæ en er umræða í annan pistil). Ég held að það sé óhætt að segja það að ég hef aldrei áður fengið aðra eins athygli. Ég er farin að skilja fullkomlega hvernig gullfiski í búri líður eða frægu fólki. En auðvitað er það ekkert skrýtið, því fyrstu dagana sem ég dvaldi hérna krossbrá mér sjálfri ef ég sá aðra hvíta manneskju svo sjaldgæft var það. Þá verður maður einnig fyrir ótrúlegri athygli þegar maður fer að versla.
Fyrst ber að nefna Silkimarkaðinn, sem er frægur fyrir að selja eftirlíkingar af þekktum merkjavörum. Þar kalla sölumenn og konur til manns á mjög frambærilegri ensku og hvetja mann til að koma og skoða í básinn þeirra og ef það dugar ekki til þá grípa þeir í handlegginn á manni og leiða mann svo í viðkomandi bás. Þetta er allt partur af stemningunni því á markaðnum er prútt í hávegum haft. Hins vegar þurfti ég að fara í nokkur skipti í verslanir sem selja tölvur, myndavélar, síma og aðrar tæknivörur. Þar kom mér á óvart hversu aðgangsharðir sölumennirnir eru.
Þetta eru ekkert öðruvísi verslanir en BT, Sony eða Apple eru heima. Ég gekk þarna um eina hæðina þar sem voru yfir hundrað básar og hver einasti sölumaður hrópaði á mig og jafnvel togaði í mig til að reyna að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél eða GSM-síma. Ég tók eftir því að ég var eina manneskjan þarna inni sem fékk þessa meðferð, væntanlega vegna þess að ég leit öðruvísi út. Mig langaði mest til þess að hrópa á móti hvernig þeim dytti eiginlega í hug að það væri nóg að æpa á mig og toga í mig til að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél eða GSM-síma. Ég væri eins og annað fólk og keypti slíkt aðeins ef ég þyrfti þess með. En það er verulega holl reynsla að átta sig á því að hinn vestræni maður er ekki nafli alheimsins og til er fullt af fólki í heiminum sem finnst maður stórfurðulegt fyrirbæri.
Athugasemdir
Hæ Kolla mín, flottur pistill. Ég man að mér leið líka svona í Kína og maður fékk svo sannarlega að finna fyrir þvi hvernig er að vera frægur. Æðislega gaman fyrst en svo kárnaði gamanið og manni langaði að vera ósýnilegur. Meira að segja gripið í rassinn á manni ef því var að skipta og komið við hárið!
Kristbjörg Þórisdóttir, 30.9.2007 kl. 13:07
Hæ hæ, já þetta er svoldið spes upplifun þetta stöðuga gláp! En með matinn þá þarf ég bara að minna mig reglulega á að við borðum nú flesta líkamsparta af rollum en eh veginn langaði mig ekki í andalappir með sinnepsósu..... Smakkaði nú flest annað :-)
kolbrún Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 14:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.