7.10.2007 | 05:07
Þjóðhátíðardagur á torgi hins himneska friðar
Pistill birtur í Fréttablaðinu 6. október 2007
Það er ekki vaninn að fara á fætur klukkan þrjú um nótt í Kína, en mánudaginn 1. október var þjóðhátíðardagur og mikil hátíðarhöld framundan. Ég og bekkjarfélagar mínir ákváðum því að taka þátt í stemningunni og drífa okkur af stað til Torgs hins himneska friðar þrátt fyrir hellidembu af himnum ofan. Kínverjar hafa haldið upp á þennan dag síðan Maó lýsti yfir stofnun Alþýðuveldisins Kína á þessu sama torgi árið 1949. Ég lagði af stað rúmlega fjögur og tók leigubíl niður í bæ í niðamyrkri. Það voru fáir á ferli og ferðin tók ekki langan tíma. Þegar ég kom á áfangastað var fólk að byrja að streyma að og menn voru ýmist að fá sér morgunmat eða kaupa sér regnhlífar eða regnstakka af sölufólkinu. Ég fylgdi mannfjöldanum að torginu í grenjandi rigningu. Á leiðinni mættum við lögreglumönnum sem voru með vopnaleitartæki og ég var auðvitað tékkuð, kannski grunsamleg sem útlendingur. Ég rakst líka á gamlan mann sem var að selja litla kínverska fána og mér fannst ég verða að kaupa fána í tilefni dagsins. Fólkið safnaðist saman á torginu undir regnhlífunum sínum og þegar ég leit í kringum mig sá ég hafsjó regnhlífa eins langt og augað eygði. Þarna var mest af ungu fólki, lítið var af börnum og ég sá engan annan ( hvítan mann?) Vesturlandabúa. Athöfnin sem við vorum að bíða eftir var sú að kínverski fáninn yrði dreginn að húni við sólarupprás sem var að þessu sinni kl. 6.10. Þessi athöfn fer fram á hverjum degi en það er siður hjá Pekingbúum að safnast saman og fylgjast með þessari athöfn á þjóðhátíðardaginn.
Eftir nokkuð langa bið þá fór mannskapurinn að ókyrrast og ég fann hvernig eftirvæntingin jókst í fólkinu og allir fóru nú að horfa í áttina að fánastönginni. Mannfjöldinn fylgdist svo með þegar fáninn var dreginn að húni við sólarupprásina sem sást nú reyndar lítið í vegna rigningarinnar. Um leið og athöfninni lauk setti lögreglan sig í stellingar og byrjaði að koma fólkinu af torginu, því í raun er þetta fræga torg ekki torg heldur breiðasta akbraut Pekingborgar. Þeir mynduðu röð þvert yfir torgið, héldust hönd í hönd og ýttu þannig fólkinu af torginu. Þá marseruðu hermennirnir þarna í kring klæddir í regngalla frá toppi til táar og með hvíta hanska.
Að koma öllum þessum mannfjölda af torginu tók alveg ótrúlega stuttan tíma og áður en ég vissi af var farið að keyra um göturnar og allir horfnir á braut. Ég staldraði við í nokkurn tíma og virti fyrir mér þennan stað sem hefur að geyma svo stóran part af kínverskri sögu.
Ég var ánægð með að hafa eytt þessari morgunstund með heimamönnum og fá að fylgjast með því hvernig þeir fagna þjóðhátíðardegi sínum. Á leiðinni heim naut ég þess að virða fyrir mér opinberar byggingar sem höfðu verið fallega skreyttar með fánum og blómum í tilefni dagsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.