Leita í fréttum mbl.is

Postulínshvít fegurð

Pistill birtur í Fréttablaðinu 13. október 2007

Hér í Peking er margt ólíkt því sem ég þekki að heiman. Eitt af því er mælikvarðinn á kvenlega fegurð hér í Kína og hvað kínverskar konur gera til að öðlast þá fegurð. Eftir að ég hafði verið hér í nokkurn tíma og farið nokkrum sinnum í búðarferðir komst ég að því að það er ekki svo auðvelt fyrir okkur vestrænu P1000472konurnar að kaupa snyrtivörur. Þrátt fyrir að snyrtivörumerkin séu þau sömu og í Evrópu og Bandaríkjunum eins og Estée Lauder, L’Oreal, Dior, Olay og Shiseido eru vörurnar sjálfar allt aðrar. Aðal markmiðið með snyrtivörunum hérna er að gera húðina hvítari. Það er nú ekki eitthvað sem við vestrænu konurnar erum hrifnar af en gyllt eða brún húð hefur verið merki fegurðar og hreysti okkar undanfarna áratugi. Hér er þessu akkúrat öfugt farið og hvít húð hefur í margar aldir verið helsta merki fegurðar hér í landi og víðar í Asíu. Hvít húð hefur verið talið helsta merki sakleysis, kvenleika, fágunar og þjóðfélagsstöðu. Í gömlum, kínverskum ljóðum er fallegum konum lýst sem konum með húð hvíta sem mjöll. Um aldir hafa kínverskar konur reynt að öðlast þessa fegurð með ýmsum ráðum, meðal annars með því að mala perlur og gleypa duftið en það átti að gera húð þeirra perluhvíta og fallega eftir því. Í dag eru það hins vegar hillur snyrtivöruverslana sem svigna undan snyrtivörum sem lofa hvítri og fallegri húð. Það sem hefur verið gagnrýnt varðandi þessar snyrtivörur er að í þeim hafa verið bleikiefni sem fara ekki vel með húðina. Framleiðendur sverja hins vegar að þessi krem séu hættulaus fyrir húðina og alltaf sé verið að þróa betri og betri vörur. Þessi rök snyrtvöruframleiðandanna virðast hafa skilað sér því síðustu 10 árin hefur eftirspurnin eftir snyrtivörum í Kína aukist mjög mikið og berjast snyrtivöruframleiðendur um að ná sem stærstum hluta af þessum stærsta markaði veraldar. Framleiðendurnir bjóða ekki eingöngu viðskiptavinum sínum upp á andlitskrem sem hafa þau áhrif að gera húðina hvítari heldur eru það einnig líkamskrem, maskar ýmiss konar, svitalyktareyðir og margt fleira. Þessar vörur eru auglýstar út um allt, endalaust áreiti af loforðum um hvítari húð og þar af leiðandi fallegra útlit. Þessi loforð um betra útlit eru alls ekki ódýr og kremin kosta hér um 3.-6.000 krónur sem er mjög mikið miðað við mánaðarlaunin sem geta jafnvel verið 20.-30.000 krónur. Konurnar hér kaupa ekki aðeins krem til að öðlast meiri fegurð með hvítari húð. Til þess að passa upp á hina dýrmætu hvítu húð forðast þær sólina eins og pestina og nota til þess ýmis ráð. Sem dæmi má nefna að í sólskini ganga þær með sólhlífar og hatta og hylja bera handleggina sína. Það er því ekki skrítið að ég með mína fölu íslensku húð hafi vakið nokkra athygli kínverskra kynsystra minna. Ég hef ósjaldan verið stoppuð af kínverskum konum sem hafa sagt mér að ég hafi einstaklega fallega húð. Þetta er klassískt dæmi um kaldhæðni örlaganna að konur í Kína skuli horfa öfundaraugum á hvíta húð vestrænna kynsystra sinna meðan þær hins vegar horfa með sömu öfundaraugunum á gyllta húð þeirra kínversku. Er þetta ekki enn eitt dæmið um hið gamalkveðna að maður þráir alltaf það sem maður hefur ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband