21.10.2007 | 02:29
Þjóðarátak Kínverja í mannasiðum
Pistill birtur í fréttablaðinu 20. október 2007
Að búa í landi eins og Kína sem hefur að geyma jafn ólíka menningu frá því sem ég þekki heima á Íslandi hefur ýmisleg áhrif á mann. Það sem fólki hér finnst vera hinn eðlilegasti hlutur getur manni þótt hinn argasti dónaskapur. Það verður að játast að margt hefur komið mér hér spánskt fyrir sjónir og ég hef oft orðið undrandi, móðguð eða sprungið úr hlátri varðandi hegðan fólks hérna. Það eru þó nokkur atriði sem standa upp úr. Fyrst er að nefna hina miklu áráttu þeirra að hrækja út um allt og hvenær sem er. Þeir hrækja vægast sagt ekki á penan hátt heldur er það gert með miklum tilþrifum og hljóðum. Þú heyrir hvernig þeir byrja á að ræskja sig alla leið neðan úr maga, vel hreinsað alla leiðina upp og síðan er hrækt út úr sér mjög svo huggulegum slummum. Þetta gera allir hérna og ég hef jafnvel heyrt lýsingar á því hvernig þeir hrækja í lyftum og í eldhúsum á veitingastöðum. En ég ætla nú ekki að selja það dýrara en ég keypti og hef ekki haft geð í mér til að kanna það sjálf. En sem sagt það eru ekki aðeins gamlir karlar í bæjarferð úr sveitinni sem gera þetta heldur einnig hinar huggulegustu dömur, jafnvel uppáklæddar í kjóla og háhælaða skó sem víla ekki fyrir sér að hrækja beint á götuna eða hvar sem þær eru staddar. Þá er það hvernig Pekingbúar troðast bara áfram án þess að taka nokkurt tillit til annarra og fyrirbæri eins og biðraðir eða sá sem fyrstur kemur fyrstur fær er vægast sagt ekki í hávegum haft. Ósjaldan hefur maður orðið illa fyrir barðinu á þessari venju þar sem fólk treðst fram fyrir mann án þess að blikna. Til þess að lifa svona af verður maður bara að troðast líka annars gæti maður bara staðið í sömu sporunum heilan dag án vandkvæða. Hinar miklu reykingar hér í borg geta líka reynt á taugarnar en þeir reykja mjög mikið og taka almennt ekkert tillit til þess hvort um reyklaust svæði er að ræða eða ekki. Hvað þá að þeir séu eitthvað sérstaklega að spá í hvar þeir henda stubbunum. Borðsiðirnir eru líka ansi ólíkir því sem maður á að venjast svo sem eins og að spýta út úr sér kjúklinga- eða fiskibeinum beint á matarborðið. Eftir máltíðarnar liggja svo bein og annað eins og hráviði út um allt borð. Nokkur umræða hefur verið í kínversku samfélagi um mannasiði þegnanna og hefur hún verið sérstaklega áberandi eftir að Kínverjar fóru að undirbúa Ólympíuleikana að fullum krafti. Þeir vilja auðvitað sýna sitt besta andlit og eru því að reyna að kenna þegnum sínum betri mannasiði. Ýmislegt hefur verið gert til þess svo sem að 11. dagur hvers mánaðar er dagur biðraða og ég er ekki frá því að það hafi skilað árangri því ekki fyrir svo löngu síðan beið ég í fallegri og beinni biðröð ásamt dágóðum hópi af eldri borgurum eftir að banki opnaði einn morguninn. Jafnframt er nú bannað að reykja í leigubílum og verið er að kenna krökkum í skólum landsins mannasiði. Þá hafa ýmsar auglýsingaherferðir verið haldnar til að leggja áherslu á að Kínverjar hagi sér betur. Kommúnistaflokkurinn hefur einnig útnefnt pestirnar fjórar, sem áður voru flugur, moskítóflugur, rottur og flær en eru núna að hrækja, troðast í biðröðum, að reykja og að bölva. En þar sem ég skil kínversku ekki það vel hefur það síðasta alveg farið framhjá mér. Það verður áhugavert að sjá hvort almenningur muni fara eftir boðum yfirvalda og sýna betri mannasiði þegar Ólympíuleikarnir hefjast í ágúst á næsta ári.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.