25.2.2008 | 15:03
Barátta fyrir réttlæti eða bara hrein þrætugirni
Stundum á ég svolítið erfitt með að greina skilin hjá sjálfri mér hvenær ég er að berjast fyrir réttlæti eða er bara að þræta þrætunnar vegna. Þessar aðstæður komu upp í dag þegar ég tók annað brjálæðis/þrætukastið í nýja fína háskólanum mínum. Ég fór sem sagt í dag til þess að fá skólaskírteini og stundatöflu. Ég var ekki fyrr búin að sækja um skólaskírteinið þegar mér var tjáð að ég gæti ekki fengið skólaskírteini þar sem ég væri með skólaskírteini í Pekingháskóla og gæti notað það hjá þeim. Nú jæja mér var svo sem sama og fór á næstu skrifstofu til að fá stundatöflu og framvísaði Pekingháskólaskírteininu mínu eins og mér hafði verið sagt og uppskar í staðinn furðusvip frá starfsmanninum sem vildi fá að sjá BLCU-skírteinið mitt. Þá þykknaði nú í minni og þrammaði ég aftur á skólaskírteinaskrifstofuna staðráðin í því að réttlætinu skyldi verða fullnægt með því að ég fengi skólaskírteini eins og allir hinir nemendurnir. Þetta var ekkert annað en helber mismunun gagnvart mér þar sem ég hafði greitt skólagjöldin eins og allir hinir og þetta var mín sönnun á því að ég væri nemandi í þessum skóla. Ég hóf baráttu mína fyrir skólaskírteininu og heimtaði að fá eh almennileg svör fyrir höfnuninni ekki bara "af því bara svar" Ég var send fram og til baka milli skrifstofa en málið stóð algjörlega fast þeir vildu ekki láta mig fá skírteini og ég vildi ekki gefa mig. Að lokum var mér boðið að fá endurgreidd skólagjöldin. Þá vissi ég að ég var komin að endastöð í málinu því ég hafði lesið á kvittuninni minni fyrir skólagjöldunum að þau væru með öllu óendurkræf hvort sem ég veiktist alvarlega eða eh alvarlegt kæmi uppá í heimalandi mínu. Að lokum sættist ég á að fá skrifaða staðfestingu á því að ég væri nemandi í skólanum og gsm-númerið hjá yfirmanninum á skólaskírteinaskrifstofunni með þeim orðum að ég gæti hringt í hann hvenær sem er ef ég lenti í eh vandræðum með staðfestinguna mína.......Hitti reyndar mjög hressar stelpur á skólaskírteinaskrifstofunni, held að þær hafi bara verið nokkuð hrifnar af æsingnum í mér og voru duglegar að gefa mér ýmis ráð í baráttunni. Önnur var frá Indónesíu og hin frá Hong Kong en er að læra lögfræði í London. Ætla hitta þær aftur við tækifæri til að sýna þeim að ég hef aðrar skemmtilegri hliðar en þrætuhliðarnar.....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.