14.5.2008 | 08:01
Sorglegir tímar
Það er búið að vera ótrúlega sorglegt að fylgjast með fréttum af atburðunum í Sichuan í gær og í dag. Enskumælandi sjónvarpsstöðin CCTV9 er búin að vera með stöðugar fréttir af því hvernig gengur að koma þeim stöðum til hjálpar sem verst urðu úti í skjálftanum. Það er átakanlegt að sjá hversu mikil eyðilegging er og hversu margir eru látnir. Erfiðast er að hugsa til þeirra sem eru grafnir í rústunum enn lifandi en vonandi eiga sem flestir eftir að finnast á lífi sem fyrst. Eftir að hafa fylgst með fréttum finnst mér stjórnvöld hér hafa tekið á málum með festu og einlægni. Wen Jiabao, forsætisráðherra er búinn að fara um Sichuan hérað á þeim svæðum sem verst urðu úti, hann hefur hvatt alla björgunarmennina áfram og reynt að hugga þá sem eiga sárt um að binda vegna ástvinamissi og reynt að fullvissa þá um að stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja þeim mat og annað öryggi. Stjórnvöld hafa líka þakkað kærlega fyrir alla aðstoð sem önnur lönd hafa boðið þeim, svo sem frá Bandaríkjunum, Japan og Suður-Kóreu. Það er líka alveg ömurlegt að heyra hversu veðrið er slæmt á þessum slóðum meðan að veðrið t.d. hér í Peking hefur verið alveg ágætt. Nú eru rúmlega 48 tímar síðan að skjálftinn varð og skiptir því sköpum fyrir björgunarliðið að hafa hraðar hendur og er því hugur manns hjá þeim. Þessar hörmungar hafa einnig leitt hugann að eins barna stefnu Kína sem sett var í gagnið til að hamla gegn fólksfjölgun í heiminum. Það eru margir foreldrar sem hafa misst eina barnið sitt og mörg börn sem hafa misst foreldra sína og eiga engin systkini til að halla sér að. Afskaplega dapurlegt að sjá myndir af öllum þeim börnum sem eru orðin að munaðarleysingjum vegna þessara atburða.
Ég fór í gær með vinum mínum út að borða. Það var gott að hitta þau og spjalla m.a. um þessa atburði. Oscar sem býr á 18. hæð í blokkinni á móti mér var líka heima þegar skjálftinn varð og hann upplifði þetta með líkum hætti og ég að eh væri að koma fyrir hann eða þangað til Ryan herbergisfélagi hans kom hlaupandi inn til hans og sagði honum að það væri byggingin sem hreyfðist og hann vildi komast út með hraði svo þeir hlupu niður stigana í einum spretti. Já greinilega mismunandi viðbrögð hjá okkur félögunum. Annars virðast flestir aðrir vinir mínir úr bekknum ekki fundið fyrir skjálftanum en þau voru ýmist úti eða í lágum byggingum.
Að lokum vil ég svo þakka fyrir allar hlýju kveðjurnar sem hafa borist að heiman, gott að vita af öllu þessu góða fólki sem maður á að :-)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.