30.6.2008 | 02:02
Ljúfasta helgi
Búin að eiga alveg indæla helgi í félagsskap Helgu og Heiðu. Erum búnar að hafa það svakalega gott og dekra við okkur á alla kanta. Höfum rölt í skemmtilegum búðum, farið út að borða og fengið meðal annars japanskan, tælenskan og persneskan mat. Drukkið kokteila á besta kokteilbar borgarinnar, látið dekra við okkur í marga klukkutíma í spa-inu Bodhi. Sem sagt hin fullkomna helgi í alla staði. Skelltum okkur einnig á markaði borgarinnar og eftir að stelpurnar höfðu eiginlega verið í baklás frá því að þær komu út af ágangi sölumannanna hrukku þær aldeilis i gang í gær og voru svo öflugar að sölufólkið átti sko engan sjens í þær. Einnig vildi svo heppilega til að ég fjárfesti í stærstu ferðatöskunni sem ég fann því eins og þeir sem mig þekkja vita að ég er ótrúlega dugleg að sanka að mér dóti, ehemm og einhvern veginn verð ég að koma því heim í ágúst. Nú jæja þessa forlátu tösku var náttúrlega hægt að nota til að geyma allan varninginn og drógu við hana um alla borg. Ég ekkert að ýkja þegar ég segi að það leit út fyrir að við værum með lík í eftirdragi. Enda kom það á daginn þegar við komum heim að fullorðin manneskja kemst léttilega í hana en hláturskast helgarinnar var þegar Helga gerði sér lítið fyrir og skellti sér í töskuna. Í dag fóru dömurnar svo eldsnemma á Kínamúrinn en ég sat heima í þetta skiptið og ætla að dunda mér í bókum í dag. Að lokum vil ég svo benda á grein eftir mig í ferðablaði Fréttablaðsins sem kom út í gær, um Kambódíu, svona fyrir þá sem hafa áhuga ;-)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.