Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Prúttprófið

Eitt af því sem maður hefur heyrt mikið af í gegnum tíðina frá Peking eru hinir mögnuðu markaðir þar sem seldar eru eftirlíkingar af merkjavörum. Ég væri að skrökva ef ég viðurkenndi ekki að ég er búin að vera spennt að kíkja á þessa markaði. Ég notaði tækifærið eftir að hafa heimsótt íslenska sendiráðið í gær að skreppa á markað sem heitir Yaxiu markaðurinn. Hann er eins og hinn frægi silkimarkaður en bara minna af ferðamönnum og látunum sem fylgir því að semja um kaup á þessum vinsælu vörum. Þetta er markaður á 4 hæðum og þar eru litlir básar hlaðnir eiginlega öllu sem hugurinn girnist. Fötum, skóm, töskum, skartgripum og alls konar spennandi kínverskum hlutum. Ég byrjaði á því að kaupa mér Diesel skó, með miklum herkjum náði ég verðinu niður um helming, við vorum að rífast um 40 íkr., sölukonan ætlaði ekki að gefa sig en hrósaði í hástert mínum miklu prútthæfileikum. Stolt af frammistöðunni hélt ég ótrauð áfram og keypti mér hettupeysu, náði ekki alveg að lækka verðið um helming en næstum því, munaði 10 yuan sem eru ca 80 kr. Í töskudeildinni gafst ég upp fyrir of miklum valkvíða oeg ákvað frekar að sleppa því að kaupa tösku í þetta skiptið. Lét þessi innkaup duga nokkuð ánægð með sjálfa mig en ég hafði fengið herlegheitin á um 1800 íkr. samtals. Um kvöldið heimsótti ég Ástu Björgu, sem er bjargvættur minn nr. eitt hérna í Peking, og sagði henni frá innkaupunum og hún spurði um hæl hvort ég hefði nokkuð borgað meira en einn tíunda af uppsettu verði, hmmm já aðeins meira og í sömu andrá rann upp fyrir mér að ég á mikið eftir ólært í samskiptum mínum við prúttmeistarana á mörkuðunum í Peking.

Íbúðarhúsnæði

Ég fór að skoða íbúðir í dag. Ég takmarkaði leitina við húsnæði nálægt skólanum. Ég skoðaði 3 íbúðir en samkvæmt Mindy Li, leigumiðlara þá er frekar takmarkað úrval af íbúðum við háskólana vegna mikillar eftirspurnar. Fyrst fór ég og skoðaði íbúð á 6. hæð í svona blokkar kombói, nokkrar blokkir saman og garður í miðjunni. Mjög fín íbúð, björt og húsgögnin frekar látlaus og stílhrein, 2 svefnherbergi, stofa, eldhús og baðherbergi. Síðan skoðaði ég aðra íbúð á sama stað á 16. hæð, sú íbúð var enn stærri með 2 svefnherbergjum, stofu, eldhúsi og 2 baðherbergjum. Stíllinn í þessari íbúð var yfirdrifinn amerískur glamúrstíll. Þessar íbúðir eru í ca 20 mínútna göngufæri. Síðan kíkti ég á eina 2ja herbergja íbúð sem er í 10 mínútna fjarlægð frá skólanum en ég afskrifaði hana um leið og ég sá hana, frekar óspennandi og dimm íbúð. Ég ákvað að lokum að taka fyrstu íbúðina og létum við strax vita að ég væri til í að leigja hana í eitt ár. Þá kom upp babb í bátinn þar sem eigandinn vildi aðeins leigja hana í 11 mánuði, þar sem ég geri ráð fyrir að vera hér á ólympíuleikunum í ágúst á næsta ári gat ég ekki sætt mig við það. Þá var eigandinn tilbúinn að leigja mér hana í 12 mánuði ef ég myndi borga fimmfalt verð fyrir ágúst á næsta ári. Mér var ekki skemmt og ég sló þennan díl alveg kaldann út af borðinu. Þá ákvað ég bara skella mér á ameríska glamúrinn, reyni bara að dempa hann eins og ég get. En sem sagt ég flyt í íbúðina á morgun. Þar sem íbúðin er svo stór og rúmgóð með 2 svefnherbergjum og 2 baðherbergjum hvet ég sem flesta að kíkja í heimsókn :-) Ég á ábyggilega eftir að fá víðáttubrjálæði eftir að hafa búið í íbúðinni á Skólavörðustígnum, sérstaklega hvað varðar pláss í baðherberginu!!

Myndir

Hérna til hliðar er hægt að sjá nokkrar myndir sem ég tók í dag þegar ég fór og kíkti í skólann.

Fyrstu dagarnir í Peking

Jæja þá er dagur að kveldi kominn og nú hef ég verið hérna í 2 daga. Mér fannst það merkilegt þegar ég var á leiðinni frá flugvellinum hversu mikið er af stórhýsum hérna, endalausar risastórar blokkir og himinháar byggingar, samt kannski ekkert skrýtið miðað við mannfjöldann sem býr hér en ansi ólíkt gömlu kínversku byggingunum sem maður sá fyrir sér. Ég dvel á hóteli þessa dagana sem er nálægt skólanum, en á morgun hefst leitin að íbúð. Vona að það gangi vel hjá okkur Mindy Li, leigumiðlara. Annars er ég búin að komast að því að það talar eiginlega enginn ensku hérna, enginn á hótelinu, ekki í verslununum né leigubílstjórar. Ég er orðin mjög fær í táknmáli á þessum stutta tíma, fjárfesti reyndar í orðabók sem kennir manni algengustu setningarnar og nú verð ég bara að læra þær svo ég komist af hérna. Leigubílstjórarnir kunna margir ekki að lesa og ég hef lent í því 2var af ca 4 skiptum að láta þá fá heimilisfang á kínversku en þeir geta ekki lesið svo það hefur lítið gagnast. Ég hef því þurft að benda þeim á að hringja á áfangastaðinn og fá lýsingu á hvernig þeir eigi að komast á leiðarenda.

Svo er ég aðeins búin að kynnast bankaþjónustunni hérna, úff. Þegar ég kom á hótelið og ætlaði að borga með kreditkorti héldu þau nú ekki, í peningum skyldi það nú vera, ég bent þeim nú á útprentun af heimasíðu þeirra þar sem kom fram að þeir tækju öll helstu kreditkortin en nei. Ég var sem sagt send í Bank of China í fylgd dyravarðarins á hótelinu sem náttúrulega talaði enga ensku. Kannski ekki alveg sem mig langaði til eftir ferðalagið!! Þegar við komum í bankann virkaði ekki hraðbankinn svo ég varð að fara til gjaldkera til að taka út peninga. Það var nú SKRIFFINSKA sem fylgdi því og ég sat ábyggilega hjá honum í góðan hálftíma, Gjaldkerinn var að hringja og tékka hvort að vísakortið mitt væri í lagi, en kom svo með þau skilaboð sem voru þýdd af enskumælandi starfsmanni hjá þeim, að visakortið mitt væri debetkort. Nú sagði ég og hver sagði það, það var bankinn þinn, nei sagði ég það getur ekki verið, það er hánótt heima á Íslandi og bankarnir lokaðir. Það var sko Citibank sem sagði það, jæja en áhugavert svo ég lét þá fá eurokortið mitt sem virkaði. Ekki dugði það til, því ég þurfti ásamt því að þurfa undirrita loforð þess efnis að ég myndi borga fyrir þetta þá þurfti ég að gefa upp heimilisfang, símanúmer og herbergisnúmerið á hótelinu. Ég var náttúrulega ekki með neitt herbergisnúmer svo að dyravörðurinn á hótelinu bjargaði mér með því að lofa að láta hótelið hringja um leið og ég væri komin með herbergisnúmer. Nú að lokum fékk ég peningana afhenta, ég held ég hafi aldrei þurft að hafa jafn mikið fyrir peningum eins og í þetta skipti. Svo benti enskumælandi starfsmaðurinn mér á að Citibank væri við hliðana á Bank of China svo ég labbaði yfir þangað og tók út peninga í hraðbankanum á visakortið sem þeir höfðu stuttu áður sagt að væri bara debetkort sem ekki væri hægt að nota!!

Í dag miðvikudag er ég svo búin að skoða nánasta umhverfi og kíkti á skólann. Ég fékk mjög góða tilfinningu fyrir honum. Ég reyndar labbaði bara um garðana sem eru yndislegir, með fullt af trjám, blómum og tjörnum. Byggingarnar eru allar í gömlum kínverskum stíl. Mér fannst ég komin í einhvern ævintýraheim. Veðrið var líka svo frábært, sól og hiti, þægileg gola og ekki spillti blár himininn fyrir.

Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili og langar að nota tækifærið að lokum til að þakka fyrir allar kveðjurnar sem ég hef fengið í dag. Það er voða gott að heyra í ykkur :-)


Ferðasagan til Peking

Ferðin hófst á sunnudagseftirmiðdeginum 26. ágúst sl. Ég var í fínu formi eftir að hafa farið á kveðjudjamm kvöldið áður á Stuðmannaball á Seltjarnarnesinu. Nokkuð gott ball og skemmtilegt partý hjá Ernu vinkonu á Bakkavörinni. En sunnudagurinn var svo notaður í að klára pakka og kveðja. Það verður að viðurkennast að það var erfiðasti hlutinn við þetta allt saman að kveðja fjölskylduna og vinina.
Ég flaug til Köben með Icelandexpress og vil ég nota tækifærið og þakka kærlega fyrir framúrskarandi þjónustu :-) Matti er greinilega alveg að taka þetta með stæl! Um nóttina gisti ég á hóteli á Kastrup og var það frekar þægilegt að þurfa ekki að fara lengra með farangurinn, sem var svoldið mikill, ehemm. Snemma á mánudeginum var ég svo bókuð í flug til Frankfurt og þaðan átti ég svo flug með China Air til Peking. Þegar ég var að tékka mig inn í Köben til Frankfurt komust þeir að því að ég var með aðeins þyngri farangur en 20 KG og þurfti daman að reiða fram nokkra þúsundkallana. Þeir höfðu engan skilning á því að ég væri að flytja til Kína í EITT ár, hmmm.... En bótin í málinu var sú að ég gat tékkað farangurinn alla leiðina, úff hvað ég var fegin, við erum að tala um 50-60 kíló. Sum sé ferðin gekk mjög vel til Frankfurt og þaðan til Peking, ég eiginlega svaf stærstan hlutan af ferðinni. Ég fann fyrir því að ég flaug með kínversku flugfélagi í gegnum matinn sem borinn var fram. Maður gat valið um kjúkling eða nautakjört með hrísgrjónum í kvöldmat og í morgunmat stóð valið um steik hrísgrjón eða steiktar núðlur. Ég lenti svo tæplega sex á þriðjudagsmorguninn en Pekingbúar eru 8 tímum á undan Íslandi.
Ferðin gekk bara mjög vel í alla staði og vil ég enn og aftur þakka Matta og Gumma Eyþórs kærlega fyrir, án ykkar hefði þetta ekki farið svona vel!!!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband