Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Hermannakveðja og hvítir hanskar

Hérna í Peking er maður farinn að finna áþreifanlega fyrir því að stressið út af Ólympíuleikunum er farið að aukast enda styttist óðum í að þeir hefjist. Til að mynda þá eru öryggisverðirnir hérna við húsið mitt farnir að minna ískyggilega á hermenn. Þeir eru nú ávallt klæddir í hvíta hanska og heilsa manni að hermannasið þegar maður gengur framhjá þeim. Ég á svolítið bágt með þetta, held að það sé mjög djúpt á draumum hjá mér um að vera þjóðhöfðingi eða yfirmaður í hernum því ég er næstum því alltaf búin að springa úr hlátri yfir þessum tiktúrum í þeim. Sem betur fer er ég yfirleitt með sólgleraugu og get því bara horft eitthvað annað án þess að þeir sjái. Hins vegar var atvikið sem ég heyrði af í dag ekki alveg eins fyndið. Vinur minn Niccolo og sushi-deitið mitt í kvöld varð að afboða sig því hann hafði farið út fyrir Peking í hellaskoðunarferð og á leiðinni til baka hafði lögreglan stöðvað hann og haldið honum í 2 klukkutíma því að hann var ekki með vegabréfið á sér. Þetta er nú held ég það versta sem ég og bekkjarfélagar mínir höfum lent í hérna. Sýnir manni það að nú er komið að því að maður verður að fara varlega því allt eftirlit með útlendingum er orðið miklu strangara hérna. Svo ég held að það sé kominn tími til að taka ljósrit af vegabréfinu og hafa það á mér það sem eftir er af tíma mínum hérna. Þarf einmitt að skreppa niður í bæ á morgun og er ég nokkuð spennt að sjá hvernig umferðin og mengunin verður eftir að reglurnar um ökubann ca helmings bifreiða tók gildi.

Traustvekjandi?

Ég get ekki sagt að ég fyllist mikilli öryggiskennd þegar ég tek lyftuna hérna heima hjá mér. Ástæðan er þessi:

P1020463P1020464

Fyrst hélt ég að þetta væri grín. Svo hélt ég að þetta hefði verið sett upp í mikilli neyð því að venjulegir öryggissímar hefðu orðið uppseldir hérna í Peking. En nei ekki svo gott því þessir símar eru búnir að vera í báðum lyftunum í margar vikur. Ég veit það ekki, kannski vekur myndin af kanínunni öryggiskennd hjá einhverjum. Get ekki sagt að það gildi um mig. En hvað, að minnst kosti er þetta svona öðruvísi öryggissími en maður sér annarsstaðar í lyftum ;-)


Að kveðja og góðir vinir

Er búin að vera að kveðja fólk alla daga undanfarið. Það eru rosalega margir að fara héðan þessa dagana. Suma á ég aftur eftir að hitta í London eða heima en svo eru það sumir sem eru að flytja til annarra staða hérna í Kína og ég á væntanlega ekki eftir að hitta þá í bráð. Það er alltaf erfitt að kveðja fólk sem eru orðnir góðir vinir eða kunningjar. En það er svo sem þannig að þegar um er að ræða góða vini þá heldur maður sambandi eða smellur saman með þeim þegar maður hittir þá næst. Það er snilldin við góðan vinskap!! Að sama skapi finn ég hvað það er dýrmætt að eiga góða vini heima. Hef átt nokkur góð samtöl heim undanfarið og það er rosalega mikilvægt að finna það alla leið hingað hversu góða vini maður á :-) Meira að segja þótt það sé hringt í mann um miðjar nætur því viðkomandi er aðeins búinn að gleyma því að það er 8 tíma mismunur á milli, hehehehe.....Þrátt fyrir að mér líði ljómandi vel hérna í hitakófinu í Peking er ekki frá því að ég sé farin að hlakka til að koma heim og hitta fjölskyldu og vini......

Jæja

Þá eru síðustu gestirnir mínir farnir heim á leið. Ég á ekki von á fleiri heimsóknum hingað til Peking enda orðið stutt eftir af dvöl minni hér. Tími minn hérna þar til í lok ágúst mun að mestu fara í skrifa lokaritgerðina mína og geri ég því ráð fyrir að bloggfærslur verði frekar stopular næstu vikurnar. Nema eitthvað sérstaklega krassandi gerist hjá mér.....

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband