Leita í fréttum mbl.is

Skemmtiferð í strætó kl. 8 að morgni

Ég veit að þetta hljómar eitthvað undarlega en enn sem komið er hef ég bara skemmt mér ágætlega á leiðinni í skólann þegar ég hef tekið strætó. Það er ekki eins og ég sé þessi týpíska morgunhressa týpa eins og þeir sem þekkja mig vita ;-) En þrátt fyrir það er ég búin að hafa lúmskt gaman af þessum strætóferðum. Ég held að það sé bara út af því hvað allt er hér öðruvísi og á stundum ógeðslega fyndið.P1000221 Til dæmis strætóferðin í gær, ég lagði reyndar ansi seint af stað og var ekki komin á stoppistöðina fyrr en 8.20. Til að byrja með gat ég ekki tekið strætóinn því ég er ekki alveg komin inn í þessa "sardínur í dós" stemmingu sem gildir hérna, sem þýðir að fólkið treður sér inn í fyrirfram fullan strætóinn þangað til að starfsmaðurinn sem vinnur við að stjórna mannfjöldanum á stoppistöðinni lokar hurðinni á afturendann á fólkinu. P1000235Sem sagt TROÐfullur strætó. Það var ekki fyrr en þriðji strætóinn kom sem ég gat hugsað mér að fara inn í hann og það var alveg temmilega mikið af fólki í honum. Nú síðan tók við svoldið hægur tími þar sem það er ákveðinn flöskuháls sem þarf aðkomast í gegnum, mjög svo þröng gatnamót. Ekki nóg með það heldur komst strætóinn ekkert áfram því fyrir framan hann var hafsjór af hjólreiðarmönnum. Bílstjórinn var nú ekki ánægður með þetta og byrjaði að æpa í kallkerfið en gaurinn sem sér um að selja miðana í strætóinn, segja fólki að færa sig aftar í strætóinn og æpa út um gluggann á gangandi og hjólandi vegfarendur sat bara steinsofandi í stólnum sínum. Bílstjórinn var æpandi á hann í gegnum kallkerfið en gaurinn bara umlaði eitthvað út um gluggann. Svo þegar strætóinn komst loksins í gegnum hjólaþvöguna var bílstjórinn orðinn svo reiður að hann keyrði alltof hratt og bremsaði með þvílíkum tilfæringum að maður hélt að hann væri farinn að ímynda sér að hann væri að keyra kappakstursbíl. Í einu af bremsustoppunum hans kastaðist lítil, gömul kona beint í fangið á mér. Ég held að henni hafi aðeins brugðið við í hvaða fang furðuveru hún hafði fallið. En að lokum komst ég í skólann og eftir allt saman meira að segja á réttum tíma.....

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband