Færsluflokkur: Bloggar
8.10.2007 | 15:50
Skólaverkefni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2007 | 14:51
Fröken Doppa
Ef doppóttar leggings væru í tísku væri ég í góðum málum. Moskítóbitin mín eru alveg gasalega smart, búin að telja þau, samtals 30 bara á fótleggjunum, geri aðrir betur!! Síðustu nætur hafa verið svolítið strembnar, endalaus kláði í elskulegu bitunum. En þetta er allt að koma og nú er það eiginlega bara rauðdoppótta leggjalúkkið eftir. Annars hefur þetta verið næs helgi, rólegheit og lærdómur. Fór út að borða á japönskum stað í gærkvöldi með krökkunum, sushi-ið klikkar ekki, létum okkur svo dreyma um ferðalag til Tíbet. Spurning hvar hægt er að skvísa því inn í dagskrá ársins.
Í nótt og í dag hefur verið svakalegur vindur, endalaust gnauð hér á 16. hæðinni, er búin að vera að velta því fyrir mér hvort þetta sé eh hluti af hitabeltisstorminum sem hefur geysað við strönd Kína og var fellibylur í Taívan. Að minnsta kosti er þetta mesti vindur sem ég hef kynnst hér, minnir mann á að haustið er ekki langt undan. En það var bara kósý að kúra undir hlýju dúnsænginni sem mamma og pabbi gáfu mér í fyrirfram afmælisgjöf, hún er alveg að slá í gegn!
Dagurinn fór sem sagt í lestur og annað skemmtilegt. Eldaði mér svo eggjaköku og steikti kirsuberjatómata með, reyndar bara alveg ágætisblanda. Síðan hefur kvöldinu að mestu verið eytt í sjónvarpsgláp, Sex and the City, 3ja sería á milli þess sem ég hef spjallað við fólk að heiman. Sem sagt alveg glimmrandi sunnudagur :-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 06:15
Nýjar myndir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 05:07
Þjóðhátíðardagur á torgi hins himneska friðar
Pistill birtur í Fréttablaðinu 6. október 2007
Það er ekki vaninn að fara á fætur klukkan þrjú um nótt í Kína, en mánudaginn 1. október var þjóðhátíðardagur og mikil hátíðarhöld framundan. Ég og bekkjarfélagar mínir ákváðum því að taka þátt í stemningunni og drífa okkur af stað til Torgs hins himneska friðar þrátt fyrir hellidembu af himnum ofan. Kínverjar hafa haldið upp á þennan dag síðan Maó lýsti yfir stofnun Alþýðuveldisins Kína á þessu sama torgi árið 1949. Ég lagði af stað rúmlega fjögur og tók leigubíl niður í bæ í niðamyrkri. Það voru fáir á ferli og ferðin tók ekki langan tíma. Þegar ég kom á áfangastað var fólk að byrja að streyma að og menn voru ýmist að fá sér morgunmat eða kaupa sér regnhlífar eða regnstakka af sölufólkinu. Ég fylgdi mannfjöldanum að torginu í grenjandi rigningu. Á leiðinni mættum við lögreglumönnum sem voru með vopnaleitartæki og ég var auðvitað tékkuð, kannski grunsamleg sem útlendingur. Ég rakst líka á gamlan mann sem var að selja litla kínverska fána og mér fannst ég verða að kaupa fána í tilefni dagsins. Fólkið safnaðist saman á torginu undir regnhlífunum sínum og þegar ég leit í kringum mig sá ég hafsjó regnhlífa eins langt og augað eygði. Þarna var mest af ungu fólki, lítið var af börnum og ég sá engan annan ( hvítan mann?) Vesturlandabúa. Athöfnin sem við vorum að bíða eftir var sú að kínverski fáninn yrði dreginn að húni við sólarupprás sem var að þessu sinni kl. 6.10. Þessi athöfn fer fram á hverjum degi en það er siður hjá Pekingbúum að safnast saman og fylgjast með þessari athöfn á þjóðhátíðardaginn.
Eftir nokkuð langa bið þá fór mannskapurinn að ókyrrast og ég fann hvernig eftirvæntingin jókst í fólkinu og allir fóru nú að horfa í áttina að fánastönginni. Mannfjöldinn fylgdist svo með þegar fáninn var dreginn að húni við sólarupprásina sem sást nú reyndar lítið í vegna rigningarinnar. Um leið og athöfninni lauk setti lögreglan sig í stellingar og byrjaði að koma fólkinu af torginu, því í raun er þetta fræga torg ekki torg heldur breiðasta akbraut Pekingborgar. Þeir mynduðu röð þvert yfir torgið, héldust hönd í hönd og ýttu þannig fólkinu af torginu. Þá marseruðu hermennirnir þarna í kring klæddir í regngalla frá toppi til táar og með hvíta hanska.
Að koma öllum þessum mannfjölda af torginu tók alveg ótrúlega stuttan tíma og áður en ég vissi af var farið að keyra um göturnar og allir horfnir á braut. Ég staldraði við í nokkurn tíma og virti fyrir mér þennan stað sem hefur að geyma svo stóran part af kínverskri sögu.
Ég var ánægð með að hafa eytt þessari morgunstund með heimamönnum og fá að fylgjast með því hvernig þeir fagna þjóðhátíðardegi sínum. Á leiðinni heim naut ég þess að virða fyrir mér opinberar byggingar sem höfðu verið fallega skreyttar með fánum og blómum í tilefni dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 08:27
Strætó
Já ég er búin að ákveða að fara að taka strætó í skólann. Þótt að leigubílarnir hérna séu ekki dýrir þá er mun ódýrara að ferðast með strætó eða fargjaldið eru tæpar 9 IKR. Að ferðast með strætó hérna er ákveðin upplifun. Í fyrsta lagi er alveg pakkað, það eru sko maður við mann og þá meina ég maður við mann ef þið skiljið hvað ég meina, ekki sama tilfinningin fyrir speisi hér og heima. Nú síðan eru það tveir starfsmenn sem vinna í strætóinum, bílstjórinn náttúrulega og svo starfsmaðurinn sem tekur við greiðslunum og skipar fólki að færa sig innar í strætóinn. Svo alla leiðina þá hrópast þeir á bílstjórinn og sá sem tekur við peningunum. Frábært stuð skal ég segja ykkur en þeir eru frekar krúttlegir, klæddir í voða fína einkennisbúninga og taka starf sitt mjög alvarlega. Reyndar þá veit ekki alveg með ökulagið, ég man nú alveg eftir því hvernig bílstjórarnir heima bremsuðu og rykktu af stað svo maður átti erfitt með að halda jafnvægi en hér er þetta þúsund sinnum verra. Ég hef það á tilfinningunni ef ég haldi mér ekki í að öllu afli þá muni ég fjúka út um eh gluggann. Ætli þeir þurfi að taka próf í því að bremsa snögglega og rykkja af stað allir strætóbílstjórar heimsins svo þeir fái djobbið.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2007 | 04:34
Þýskur matur og moskítóbit
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 03:04
Heiðursfélagi!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.10.2007 | 12:03
Klósettmenning
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2007 | 08:26
Vera Moda
Ég kíkti í eina verslunarmiðstöð í fínni kantinum í miðbæ Peking um daginn. Það var risa stórt og mikið af fínum merkjaverslunum. En meðal þeirra var Vera Moda búð og ég hugsaði mér nú gott til glóðarinnar. En þegar ég kom inn í hana byrjaði ballið. Í fyrsta lagi var hún lítil, ca 1/5 af búðinni heima í kringlunni en í búðinni unnu svona ca 20 afgreiðslustúlkur. Sem sagt mjög góð þjónusta, eiginlega alltof góð þjónusta fyrir minn smekk. Ég varð fyrst að segja góðan daginn við þær allar svo ég fengi smá frið, en ekki nóg með það ef ég sýndi eh flík smá áhuga var amk ein afgreiðslukonan komin að sýna mér flíkina eða aðrar á sömu slá. Það var bara ekki hægt að anda þarna inni fyrir þjónustulund afgreiðslukvennanna. Að lokum hrökklaðist ég bara út enda var ég ekki mjög impóneruð yfir fötunum né verðinu. Alltof dýrt, dýrara heldur en heima og stíllinn hér er heldur mikill glamúr fyrir minn smekk. Til að mynda vildi ein afgreiðslukonan endilega selja mér eldrauðan mittisjakka með stórum rauðum loðkraga. Bara ekki alveg minn smekkur.
Það er nefnilega mikil glamúrtíska hér í gangi. Það eru varla stelpur hér sem ganga í öðru en fötum glitra, hvort sem það eru gallabuxur, pils eða bolir og stutta tískan er einnig allsráðandi hjá þeim. Þetta smitast líka á strákana og eru þeir einhvern veginn oft kvenlegar klæddir en strákarnir heima sem svo sem fer þeim ekkert illa því þeir eru náttúrlega frekar fínlegir í vexti og með fínlega andlitsdrætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.9.2007 | 03:48
Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 29. september 2007
Gullfiskur í búri
Mér finnst afskaplega spennandi að kynnast alveg nýjum menningarheimi, heimi sem ég hafði áður aðeins upplifað í gegnum bækur eða kvikmyndir.
Ég var ekki búin að dvelja í Kína lengi þegar ég áttaði mig á því að ég var Kínverjunum jafnvel enn meira framandi en þeir voru mér. Hér í Kína eru vesturlandabúar vægast sagt öðruvísi og heimamenn eru ekkert að fela að þeim finnist það. Í hverfinu sem ég bý í er lítið um hvítt fólk og þar er stöðugt glápt á mig. Í lyftunni, í verslununum, á götunum, hvert sem ég fer mæti ég fólki með störu. Það bætir ekki úr skák að ég er alveg sérstaklega hvít á hörund (Það þykir þó frekar smart hér á bæ en er umræða í annan pistil). Ég held að það sé óhætt að segja það að ég hef aldrei áður fengið aðra eins athygli. Ég er farin að skilja fullkomlega hvernig gullfiski í búri líður eða frægu fólki. En auðvitað er það ekkert skrýtið, því fyrstu dagana sem ég dvaldi hérna krossbrá mér sjálfri ef ég sá aðra hvíta manneskju svo sjaldgæft var það. Þá verður maður einnig fyrir ótrúlegri athygli þegar maður fer að versla.
Fyrst ber að nefna Silkimarkaðinn, sem er frægur fyrir að selja eftirlíkingar af þekktum merkjavörum. Þar kalla sölumenn og konur til manns á mjög frambærilegri ensku og hvetja mann til að koma og skoða í básinn þeirra og ef það dugar ekki til þá grípa þeir í handlegginn á manni og leiða mann svo í viðkomandi bás. Þetta er allt partur af stemningunni því á markaðnum er prútt í hávegum haft. Hins vegar þurfti ég að fara í nokkur skipti í verslanir sem selja tölvur, myndavélar, síma og aðrar tæknivörur. Þar kom mér á óvart hversu aðgangsharðir sölumennirnir eru.
Þetta eru ekkert öðruvísi verslanir en BT, Sony eða Apple eru heima. Ég gekk þarna um eina hæðina þar sem voru yfir hundrað básar og hver einasti sölumaður hrópaði á mig og jafnvel togaði í mig til að reyna að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél eða GSM-síma. Ég tók eftir því að ég var eina manneskjan þarna inni sem fékk þessa meðferð, væntanlega vegna þess að ég leit öðruvísi út. Mig langaði mest til þess að hrópa á móti hvernig þeim dytti eiginlega í hug að það væri nóg að æpa á mig og toga í mig til að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél eða GSM-síma. Ég væri eins og annað fólk og keypti slíkt aðeins ef ég þyrfti þess með. En það er verulega holl reynsla að átta sig á því að hinn vestræni maður er ekki nafli alheimsins og til er fullt af fólki í heiminum sem finnst maður stórfurðulegt fyrirbæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)