28.10.2007 | 03:11
Litið ofan í matarkistu Pekingbúa
Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 27. október 2007
Peking er mjög alþjóðleg þegar kemur að framboði af veitingastöðum enda er giskað á að meira en 60.000 veitingastaðir séu hérna. Það er liðin tíð að þú getir ekki fengið magafylli þína nema að borða hvítkál eða hrísgrjón með prjónum. Mikill fjöldi veitingastaða býður upp á mat frá öllum heimshornum. Sem dæmi má nefna ítalska staði, ameríska, franska, japanska, arabíska, víetnamska, þýska, kóreska, taívanska og fleiri mætti upp telja. Gróskan er mikil og vikulega heyrist af nýjum stöðum opna en af öðrum sem eru að loka eða færa sig um set. Margir af þessum stöðum eru mjög hipp og kúl og standast algjörlega samanburð við flotta veitingastaði í öðrum stórborgum. Þessir staðir bjóða almennt upp á matseðla á ensku en það sama verður ekki sagt um kínversku veitingastaðina. Hér er auðvitað engin vöntun á veitingastöðum sem bjóða upp á heimamat frá mismunandi héruðum Kína og jafnframt er mismunandi mikið lagt í matinn og útlit staðanna. Eins og áður sagði eru matseðlarnir sjaldnast á ensku en ef þú ert heppin(n) eru myndir af réttunum á matseðlunum. Það getur því verið erfitt að panta sér mat ef hvorki eru myndir af réttunum né starfsfólk sem skilur ensku en þá er bara að benda á girnilegan rétt á næsta borði eða treysta á lukkuna. Kínverjar fara mikið út að borða og er mikið af látlausum stöðum sem bjóða uppá heimilislegan mat eins og soðkökur. Ekki er hægt að ræða um mat í Peking án þess að minnast á pekingönd. Það eru margir staðir sem bjóða upp á þennan sérrétt Pekingborgar. Stökk að utan en mjúk að innan er öndin borin fram með pönnukökum og plómusósu. Á fínni veitingastöðum er gæðavottorð borið fram með öndinni þar sem númer hennar kemur fram. Í Peking er mikil götumatarmenning. Á morgnana er vinsælast að fá sér stökkar pönnukökur með steiktu eggi, lauk og kryddi og er þessu skolað niður með sojamjólk. Annars er götumaturinn árstíðabundinn og nú að haustlagi er algengast að sjá bakaðar sætar kartöflur, soðinn maís, ristaðar kastaníuhnetur, sykurhúðuð ber og mandarínur á spjótum. Að versla hérna í matinn er ævintýri en það getur tekið virkilega á. Það er varla nokkur hlutur sem er merktur á ensku, hvað þá að upplýsingarnar um matvörurnar séu skiljanlegar. Hilla eftir hillu fullar af sojasósu hjálpar manni ekki að velja sojasósu þegar þú skilur ekki hver munurinn á þeim á að vera. Einnig er erfitt að finna pakkningar af hrísgrjónum sem eru minni en 5 kílóa. Þá er óendanlega mikið af vörum sem líta skringilega út, merktar á kínversku svo maður getur staðið heillengi yfir þeim og reynt að ímynda sér hvað þetta getur eiginlega verið og hvernig eigi að nota þær í matargerð. En svo leynast kunnuglegar vörur inni á milli eins og 2 tegundir af súkkulaði, Snickers og Kit Kat. En þess má geta að vestrænar matvörur eru hér glæpsamlega dýrar, sem dæmi má nefna að pakki af hrökkbrauði kostar allt að 250 kr. Allir stórir matvörumarkaðir sem ég hef komið hér inn í hafa að geyma fiskabúr full af sprelllifandi matfiskum, en það gerist nú ekki mikið ferskara en það. Einnig hef ég orðið vör við þetta á veitingahúsum og hef ég upplifað það að fá reidda fram á borðið mitt rækju á spjóti enn hreyfandi alla anga. Ekki er hægt að skrifa um mat í Peking án þess að minnast á ýmsan furðulegan mat sem hér er á boðstólum. Hægt er að gæða sér á grilluðum sporðdrekum og snákum, skjaldbökukássum og auðvitað hundakjöti. Ég rakst einnig á svokallaðan "hotpot" veitingastað sem er með á matseðli sínum getnaðarlimi apa og dádýra. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og matgæðingar verða ekki fyrir vonbrigðum hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.