6.4.2008 | 09:00
Vangaveltur um sorp
Ég er búin að vera í smá vandræðum með heimilissorpið hjá mér en það er þannig mál með vexti að það virðast ýmsir nágrannar mínir hafa mikinn áhuga fyrir að nýta það. Það gerist iðulega þegar ég fer með ruslið út að það er alltaf eitthvað fólk við ruslatunnurnar sem vill taka ruslið úr höndunum á mér í staðinn fyrir að ég hendi því ofan í tunnurnar. Ég verð að játa það að mér finnst þetta heldur óþægilegt, kann ekki alveg við að það sé fólk að gramsa í gegnum ruslið mitt og hvað þá þegar ég þarf að afhenda þeim ruslið svo það fari nú ekkert á milli mála. Mér finnst þetta eiginlega innrás inn í einkalífið mitt, ég vil bara hafa það fyrir mig hverju ég er að henda......En þá er það hin hliðin að er það ekki alveg í stakasta lagi ef að það eru einhverjir sem geta hugsað sér að nýta sér ruslið mitt sér til hagsbóta. Fólk sem hefur það kannski ekki alveg jafn gott og ég í lífinu? Ástæðan fyrir þessum pælingum mínum er sé að í gær fór ég út með pizzakassa sem innihélt nokkrar gamlar pizzasneiðar sem höfðu orðið afgangs hjá mér og ég hafði ekki lyst á þeim lengur. Nú þegar ég kem að sorptunnunum er þar gamall maður sem réttir út hendurnar eftir kassanum en ég var í einhverju uppreisnarskapi (venjulega rétti ég nú fólkinu bara ruslið mitt þegjandi og hljóðalaust) og henti ég kassanum beint ofan í tunnu og strunsaði út í búð. Þegar ég kom til baka mætti ég auðvitað karlinum (þóttist náttúrlega ekkert taka eftir því) þar sem hann stóð og hélt á pizzakassanum fyrir aftan bak. Jamm ég vona að hann hafi verið ánægður með pizzusneiðarnar því þótt ég verði svo sem ekki mikið vör við það hérna en þá er enn veruleg fátækt í Kína. Þrátt fyrir að lífskilyrði Kínverja hafi batnað mikið undanfarin ár þá er enn langt í land með að þetta verði allsnægtaþjóðfélag eins og við eigum heima. Svo maður verður bara að þola það að gramsað sé í sorpinu hjá manni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.