Leita í fréttum mbl.is

Ævintýri síðustu daga

Það er óhætt að segja að síðustu dagar séu búnir að vera viðburðaríkir og eiginlega er ég meira og minna búin að vera í hláturskasti undanfarna daga. Þetta hófst með því að Hafsteinn fyrrverandi vinnufélagi minn mætti hérna á svæðið í heimsókn. Það er búið að ganga á ýmsu hjá honum síðan og ætla ég nú svo sem ekkert að fara mikið nánar út í þá sálma. Rétt að stikla á stóru þar sem við lentum í nokkrum fyndnum atvikum. Það hefur margt skemmtilegt verið gert undanfarna daga. Við mættum í "surprise" partýið sem haldið var til heiðurs Gonzo vini mínum á laugardagskvöldið og komum við klyfjuð íslenskum osti, nammi og góðri Tópasskotflösku sem Hrabba vinkona var svo elskuleg að skilja hérna eftir. Ekki er hægt að segja annað en hið íslenska góðgæti hafi slegið í gegn og er enn verið að tala um þennan görótta drykk frá Íslandi.

IMG_0095

Reyndar beiluðum við stuðboltarnir á frekara djamm og enduðum á því að stela restinu af íslenska namminu og yfirgáfum partýið. Gláptum svo bara á bíómyndir og fengum okkur popp og kók. Segir kannski eitthvað til um aldurinn, ehemm.......

Það sem við gerðum svo m.a. annars var að fara í listahverfið 798, svo kíktum við á Silkimarkaðinn þar sem enn er hægt að gera góð kaup þótt maður finni fyrir því að verðið er farið að hækka enda styttist óðum í ólympíuleikana. Við fjárfestum bæði í forlátum silkisloppum sem við vorum búin að reyna að prútta lengi niður í einum sölubásnum en sölumennirnir voru ansi tregir svo við færðum okkur um set. Þar gekk okkur mun betur að ná góðu verði og ákváðum við að labba framhjá hinum sölubásnum til að sýna hvað þeir höfðu misst af góðum kaupum. Eitthvað æptu þau á okkur sem ég var nú ekkert að hlusta mikið á. Haffi hins vegar fór eitthvað að tala um að kannski væru þetta nú sloppar úr pólýester. Ég hélt nú ekki. Svo þegar við komum heim og tókum hróðug upp pakkana kom í ljós að við sátum uppi með pólýester sloppa. Ég átti nú bara ekki til orð yfir að hafa verið plötuð svona herfilega og móðgaðist mjög. Við ákváðum að fá Tönju tutor með okkur í lið og fórum aftur daginn eftir. Á leiðinni niður í bæ var ég að æsa sjálfa mig upp til að vera tilbúin í slaginn en Tanja sagði að best væri að fara nota þá aðferð að láta sem þau hefðu gert mistök svo að sölumennirnir gætu haldið andliti sem er afar mikilvægt hér á landi. Það plan gekk svona ljómandi vel upp og fengum við réttu sloppana, þurftum reyndar að borga aðeins meira, og gátu allir verið ánægðir með sitt.....

IMG_0113

Eftir silkimarkaðsævintýrið fórum við á "The Bookworm" og þar á eftir á tónleika sem Tanja bauð okkur Haffa með sér á. Tónleikarnir voru með einni að Idolstjörnum Kínverja, ein af svokölluðum "The Supergirls". Þetta var mjög skemmtileg upplifun og mikið stuð. Læt myndirnar hér að neðan lýsa þessu nánar. 

 IMG_0121IMG_0129IMG_0134


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband