Leita í fréttum mbl.is

Múrinn magnaði

Ég og Haffi drifum okkur eftir áður gerðum plönum á Kínamúrinn, þ.e. hluta af honum sem kallaður er Simatai og var áætlunin okkar sú að ganga að öðrum hluta múrsins sem heitir Jinshanling. Það á að vera ca 10 KM ganga á múrnum sjálfum. Þetta er hluti af múrnum sem er nokkuð afskekktur og oft kallaður vilti hluti múrsins, jafnframt er hann að mestu í upprunalegu horfi. Við höfðum leigt bíl og átti hann að sækja okkur heim að dyrum kl. 9. Við mættum á slaginu 9 út tilbúin í slaginn. Við fundum nú ekki bílinn strax og vorum eitthvað að vandræðast út á plani að skima eftir bílnum. Ekki var að spyrja að því að um leið dreif að "einkareknir" leigubílstjórar sem endilega vildu bjóða fram þjónustu sína. Við vorum nú ekki alveg tilbúin í það. Einnig var einn vörðurinn ægilega spenntur fyrir myndavélinni minni og vildi líka endilega taka mynd af okkur á símann sinn. Eitthvað sem við vildum gjarna endurgjalda í sömu mynt.

IMG_0157

Að lokum eftir nokkur símtöl og hjálp frá vini okkar hér að ofan náðum við saman með bílstjóranum okkar. Ég get ekki sagt að við höfum verið mjög upprifin yfir kagganum sem við fengum. Ekki skánaði álit okkar þegar hann fór af stað en án nokkurra ýkja þá hökkti hann hreinlega í gegnum Peking. Okkur leist nú ekki alveg á blikuna en á sama tíma fannst okkur þetta frekar fyndið. Þegar við vorum búin að keyra í ca klst. komum við að vegatollahliði og þá kárnaði nú gamanið fyrir alvöru því að bílstjórinn kom ekki bílnum aftur í gír hvernig sem hann reyndi. Hann tók á það ráð að fá vegatollsstarfsmennina til að ýta bílnum út í kant á planinu (nb. með okkur inni í honum) og fór hann að hringja út í allar áttir.

IMG_0162

Ekkert gekk og þótt einhverjir menn hafi komið og hjálpað honum að ýta bílnum og Haffi reyndi líka sitt besta til að koma bílnum í gír gekk þetta ekki neitt. Að lokum var ákveðið að senda annan bíl af stað til að taka við. Hjá okkur tók við bið sem við máttum illa við vegna annarra plana sem við áttum í Peking seinni part dagsins. En það var ekkert hægt annað í stöðunni heldur en að bíða.......

IMG_0160

Að lokum kom hinn bíllinn eftir næstum því 2ja tíma bið. Þegar í þann bílinn var komið fengum við eiginlega annað hláturskast því að bílstjórinn spilaði einhverja brjálaða kínverska techno-tónlist og datt líklega ekki annað í hug heldur en að við værum líka algjörir aðdáendur. Að lokum tók nú ferðin enda eins og gerist nú yfirleitt. Við skelltum bakpokunum á okkur og hófum ferðina. Múrinn á þessum slóðum er ansi hátt uppi svo við tókum kláf áleiðis upp fjallið.

IMG_0167IMG_0168

Vorum alveg guðslifandi fegin að hafa ekki lent í vagni númer 13 enda búin að fá meira en nóg af óheppni þennan daginn. Gangan upp á múrinn var ansi brött og á leiðinni rákumst við á stórann hóp af Kínverjum sem ég hélt að væri bara í picnic og var því afskaplega vingjarnleg þegar ég gekk framhjá þeim og heilsaði þeim með virktum og stóru brosi. Kolla klára því að í staðinn sátum við uppi með tvær afar uppáþrengjandi kerlur sem ætluðu sér aldeilis stóra hluti við að hafa af okkur peninga. Þær sem sagt viku varla frá okkur. Þrátt fyrir það og puðið við að labba upp nutum við þess út í ystu æsar að vera þarna í náttúrunni og fuglasöng.

IMG_0169IMG_0178IMG_0182

Vegna tafarinnar út af bíldruslunni gátum við ekki gengið alla leiðina sem við vildum vegna tímarammans þennan daginn og gengum því bara hluta af múrnum. En þetta var hreint út sagt stórkostleg upplifun. Það var svo ótrúlega magnað að vera á þessum sögulega stað í frábæru veðri og varla nokkur ferðamaður á stjá. Við áttum staðinn að mestu út af fyrir okkur (fyrir utan kerlurnar náttúrulega) og einstaka eðlu sem skaust um eða skokkandi íkorna. Ég alveg endurnærðist á að komast svona út í náttúruna.

IMG_0199

IMG_0181

 Eftir þessa stórkostlegu upplifun lá leiðin aftur til Peking og verð ég að segja að ég var nokkuð stressuð yfir að komast lifandi til baka því bílstjórinn okkar var bara glanni. Það var amk 2var sinnum sem ekki mátti muna miklu að við hefðum skollið á bíla sem voru að koma úr gagnstæðri átt. Þegar við vorum búin að sinna erindunum í borginni hittum við nokkra vini í Pekinga-andarveislu. Frábær endir á frábærum degi. Og það er engin spurning um að ég á eftir að fara þarna aftur því að ég ÆTLA mér að ganga þessa leið sem því miður tókst ekki í þetta skiptið.

IMG_0217

IMG_0223

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ

Dásamleg ferðasaga og gaman að sjá myndirnar! Virðist vera afskaplega huggulegt þarna á múrnum.      Bestu kveðjur, Margrét

Margrét (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband