Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Jólastemming

snjokorn Í gær og dag hafa jólin einhvern veginn minnt á sig, enda styttist svo sem óðum í þau.Smile Í gær var ég á Starbucks, já maður fær stundum löngun í eitthvað vestrænt hérna skal ég segja ykkur, en hvað um það, ég fékk mér kaffi og þegar ég sáldraði smá kanel á lattið mitt þá allt í einu fékk ég þessa jólatilfinningu. Svo í dag er ég búin að vera heima í rólegheitum að læra og fékk mér mandarínu og þá kom aftur yfir mig þessi tilfinning. Það er ekki eins og það sé eitthvað sem minnir hér á jólin annars enda ekki haldið upp á þau hér. Kínverjar eru til dæmis með jólaskraut allan ársins hring, amk á veitingastöðum er ekki óalgengt að loftin séu skreytt með marglitu jólaskrauti. Ég veit ekki hvort það gildi það sama um kínversk heimili enda lítið komið inn á þau enn sem komið er. 

Hraðar breytingar

P1000555Ég stóðst ekki mátið að setja inn þessa mynd sem ég tók í dag í götunni fyrir framan heimili mitt.  Það er svo magnað að sjá hvernig gamli og nýji tíminn hér togast á. Á götunum eru hestavagnar og svo taka framúr þeim glæsikerrur svo sem BMW eða AUDI. Það sýnir manni hvað Kína er að breytast hratt og hvað það er stutt síðan að gamli heimurinn réði hér ríkjum. 

Í trássi við lögguna

Ég skellti mér í ræktina í morgun, um leið og ég kom út sá ég að það var ekki alveg allt með felldu, öll umferð var stopp. Þegar ég kom að stóru gatnamótunum sem eru hérna nálægt sá ég hvað var um að vera, það var verið að hlaupa maraþon. Í dag var ábyggilega alveg ágætt að hlaupa, bjart og fallegt veður og nokkuð frískleg gola en hvernig þetta verður í ágúst á næsta ári fyrir íþróttamennina sem keppa á ólympíuleikunum verður áhugavert að vita, þegar hitinn er miklu meiri og mengunin erfiðari fyrir vikið. Þeir eiga ábyggilega allir eftir að keppa með andlitsgrímur. En jæja ég rölti að næstu gatnamótum en þar er ræktin mín staðsett og þá vandaðist nú málið. Það var ekki hægt að fara yfir gatnamótin því enginn mátti trufla hlauparana. Löggan stjórnaði þarna harðri hendi uppstríluð í sparibúninguum með hvíta hanska og rak alla öfuga í burtu sem dirfðust að ætla yfir gatnamótin. Og aldrei þessu vant þá hlýddu allir skipununum annað heldur en venjulega í umferðinni þegar ökumenn keyra yfir á rauðu eins og ekkert sé. Ég hafði nú ekki alveg húmor fyrir þessu, komin í leikfimisgírinn svo að ég þessi löghlýðna manneskja sem vann við það í mörg ár að passa upp á að fólki væri refsað ef það fór ekki eftir lögunum, bara skellti skollaeyrum við þessu banni löggunnarPolice. Ég laumaði mér á milli bílanna, labbaði svolítinn spotta eftir götunni og hljóp yfir hinn heilaga helming götunnar þar sem hlaupið fór fram. Ég er ekki frá því að ég hafi lagt mig extra mikið fram í leikfiminni þar sem ég hætti svo miklu fyrir að komast þangað! Segið svo að maður taki ekki heilsuræktina alvarlega......

Þjóðarátak Kínverja í mannasiðum

Pistill birtur í fréttablaðinu 20. október 2007

P1000441Að búa í landi eins og Kína sem hefur að geyma jafn ólíka menningu frá því sem ég þekki heima á Íslandi hefur ýmisleg áhrif á mann. Það sem fólki hér finnst vera hinn eðlilegasti hlutur getur manni þótt hinn argasti dónaskapur. Það verður að játast að margt hefur komið mér hér spánskt fyrir sjónir og ég hef oft orðið undrandi, móðguð eða sprungið úr hlátri varðandi hegðan fólks hérna. Það eru þó nokkur atriði sem standa upp úr. Fyrst er að nefna hina miklu áráttu þeirra að hrækja út um allt og hvenær sem er. Þeir hrækja vægast sagt ekki á penan hátt heldur er það gert með miklum tilþrifum og hljóðum. Þú heyrir hvernig þeir byrja á að ræskja sig alla leið neðan úr maga, vel hreinsað alla leiðina upp og síðan er hrækt út úr sér mjög svo huggulegum slummum. Þetta gera allir hérna og ég hef jafnvel heyrt lýsingar á því hvernig þeir hrækja í lyftum og í eldhúsum á veitingastöðum. En ég ætla nú ekki að selja það dýrara en ég keypti og hef ekki haft geð í mér til að kanna það sjálf. En sem sagt það eru ekki aðeins gamlir karlar í bæjarferð úr sveitinni sem gera þetta heldur einnig hinar huggulegustu dömur, jafnvel uppáklæddar í kjóla og háhælaða skó sem víla ekki fyrir sér að hrækja beint á götuna eða hvar sem þær eru staddar. Þá er það hvernig Pekingbúar troðast bara áfram án þess að taka nokkurt tillit til annarra og fyrirbæri eins og biðraðir eða sá sem fyrstur kemur fyrstur fær er vægast sagt ekki í hávegum haft. Ósjaldan hefur maður orðið illa fyrir barðinu á þessari venju þar sem fólk treðst fram fyrir mann án þess að blikna. Til þess að lifa svona af verður maður bara að troðast líka annars gæti maður bara staðið í sömu sporunum heilan dag án vandkvæða. Hinar miklu reykingar hér í borg geta líka reynt á taugarnar en þeir reykja mjög mikið og taka almennt ekkert tillit til þess hvort um reyklaust svæði er að ræða eða ekki. Hvað þá að þeir séu eitthvað sérstaklega að spá í hvar þeir henda stubbunum. Borðsiðirnir eru líka ansi ólíkir því sem maður á að venjast svo sem eins og að spýta út úr sér kjúklinga- eða fiskibeinum beint á matarborðið. Eftir máltíðarnar liggja svo bein og annað eins og hráviði út um allt borð. Nokkur umræða hefur verið í kínversku samfélagi um mannasiði þegnanna og hefur hún verið sérstaklega áberandi eftir að Kínverjar fóru að undirbúa Ólympíuleikana að fullum krafti. Þeir vilja auðvitað sýna sitt besta andlit og eru því að reyna að kenna þegnum sínum betri mannasiði. Ýmislegt hefur verið gert til þess svo sem að 11. dagur hvers mánaðar er dagur biðraða og ég er ekki frá því að það hafi skilað árangri því ekki fyrir svo löngu síðan beið ég í fallegri og beinni biðröð ásamt dágóðum hópi af eldri borgurum eftir að banki opnaði einn morguninn. Jafnframt er nú bannað að reykja í leigubílum og verið er að kenna krökkum í skólum landsins mannasiði. Þá hafa ýmsar auglýsingaherferðir verið haldnar til að leggja áherslu á að Kínverjar hagi sér betur. Kommúnistaflokkurinn hefur einnig útnefnt pestirnar fjórar, sem áður voru flugur, moskítóflugur, rottur og flær en eru núna að hrækja, troðast í biðröðum, að reykja og að bölva. En þar sem ég skil kínversku ekki það vel hefur það síðasta alveg farið framhjá mér. Það verður áhugavert að sjá hvort almenningur muni fara eftir boðum yfirvalda og sýna betri mannasiði þegar Ólympíuleikarnir hefjast í ágúst á næsta ári.


Frekar fyndið!

Í elle blaðinu sem ég keypti leyndist þetta!!

 

P1000548P1000549

 

 

 

 

 

 

 

P1000553P1000554P1000552


Léttur föstudagur

Það var frí í kínverskunni í morgun og ákváðum við þá nokkur að nota tækifærið og kíkja niður í bæ og fá okkur snarl á bókasafninu/bókaversluninni/veitingahúsinu The Bookworm. Tækifærið var auðvitað nýtt og fleiri bækur keyptar, þetta er orðið eiginlega heldur hættulegt fyrir mig að fara í bókabúðir. Þegar við vorum búin að skoða held ég hverja einustu bók sem þarna var til sölu var niðurstaðan hjá mér 2 bækur. Ég er sko að reyna að rækta viðskiptaáhugan upp hjá mér ;-) Nú ég fékk mér samloku með mozzarella og tómötum en það voru mikil mistök. Ef það er eitthvað sem mér finnst vont hérna eru það kínversku brauðin, þau eru með eh undarlegu sætu bragði, úff mér finnst það hreint út sagt ógeðslegt. Eftir að hafa þvælt þessari samloku í mig þegar ég var búin að reyna að endurhanna hana með salti og hvítlauksolíu skildi ég við krakkana og skellti mér í afmælisnuddið. Oh þvílík nautn, ég held ég svei mér þá hafi sofnað á meðan P1000544það var verið að kremja á mér vöðvana. En ég er algjörlega endurnærð og er orðin algjör fíkill í nudd og annað dekur. Undanfarna daga hefur verið ótrúlega næs veður, þeir tala um það hérna að haustin séu yndisleg og ég verð nú að vera sammála því að sól, heiðskýr og blár himin og þægilegur hiti er eitthvað sem ég á ekki erfitt með að njóta. Reyndar hefur verið svolítið rok en það minnir mig nú bara á heimaslóðir og mér finnst oft kósý að vera heima að læra og heyra gnauðið úti. Ég hef nú eitthvað minnst áður á tískuna sem ríkir hér um slóðir og þetta glamúr æði sem margir hérna virðast illa haldnir af. P1000487En það er gaman að fylgjast með þessu og þetta fer fólkinu hérna alls ekki illa svona fíngerð og dökkhærð öll sömul. Ég hef nú svo sem lítið skoðað í búðir hérna í nágrenninu en ég bý mjög nálægt vinsælu stúdentahverfi þar sem er fullt af fatabúðum. P1000547En ég keypti í fyrsta skipti tískublað hérna, Elle á kínversku, er svoldið spennt þótt ég geti lítið lesið í því, ég skoða bara myndirnir ;-) Eftirmiðdagurinn og kvöldið verður svo nýtt í að lesa um pólitíkina í Suðaustur Asíu en nú þýðir ekkert annað en að fara að herða lesturinn þar sem önnin er farin að styttast í annan endann, sérstaklega ef ég ætla að ná því að eyða jólunum heima á Íslandi!

Skemmtiferð í strætó kl. 8 að morgni

Ég veit að þetta hljómar eitthvað undarlega en enn sem komið er hef ég bara skemmt mér ágætlega á leiðinni í skólann þegar ég hef tekið strætó. Það er ekki eins og ég sé þessi týpíska morgunhressa týpa eins og þeir sem þekkja mig vita ;-) En þrátt fyrir það er ég búin að hafa lúmskt gaman af þessum strætóferðum. Ég held að það sé bara út af því hvað allt er hér öðruvísi og á stundum ógeðslega fyndið.P1000221 Til dæmis strætóferðin í gær, ég lagði reyndar ansi seint af stað og var ekki komin á stoppistöðina fyrr en 8.20. Til að byrja með gat ég ekki tekið strætóinn því ég er ekki alveg komin inn í þessa "sardínur í dós" stemmingu sem gildir hérna, sem þýðir að fólkið treður sér inn í fyrirfram fullan strætóinn þangað til að starfsmaðurinn sem vinnur við að stjórna mannfjöldanum á stoppistöðinni lokar hurðinni á afturendann á fólkinu. P1000235Sem sagt TROÐfullur strætó. Það var ekki fyrr en þriðji strætóinn kom sem ég gat hugsað mér að fara inn í hann og það var alveg temmilega mikið af fólki í honum. Nú síðan tók við svoldið hægur tími þar sem það er ákveðinn flöskuháls sem þarf aðkomast í gegnum, mjög svo þröng gatnamót. Ekki nóg með það heldur komst strætóinn ekkert áfram því fyrir framan hann var hafsjór af hjólreiðarmönnum. Bílstjórinn var nú ekki ánægður með þetta og byrjaði að æpa í kallkerfið en gaurinn sem sér um að selja miðana í strætóinn, segja fólki að færa sig aftar í strætóinn og æpa út um gluggann á gangandi og hjólandi vegfarendur sat bara steinsofandi í stólnum sínum. Bílstjórinn var æpandi á hann í gegnum kallkerfið en gaurinn bara umlaði eitthvað út um gluggann. Svo þegar strætóinn komst loksins í gegnum hjólaþvöguna var bílstjórinn orðinn svo reiður að hann keyrði alltof hratt og bremsaði með þvílíkum tilfæringum að maður hélt að hann væri farinn að ímynda sér að hann væri að keyra kappakstursbíl. Í einu af bremsustoppunum hans kastaðist lítil, gömul kona beint í fangið á mér. Ég held að henni hafi aðeins brugðið við í hvaða fang furðuveru hún hafði fallið. En að lokum komst ég í skólann og eftir allt saman meira að segja á réttum tíma.....

Skólaferðalag

Eftir að hafa eytt morgninum í umfjöllun um kenningar í alþjóðasamskiptum í International Security og eftir dumplingshádegismat lögðum við af stað í skólaferðalag með prófessornum sem kennir okkur alþjóða hagfræði. Prófessor DING Dou er alveg einstaklega elskulegur maður og mjög klár í hagfræði, það sem hefur kannski verið vandamál er að hann talar ekki né skilur ensku sérstaklega vel. Í fyrsta tímanum leist okkur ekki á blikuna og næstum hrökkluðumst úr tímanum en vegna þess að við sáum að hann vildi virklega gera sitt besta fyrir okkur ákváðum við að halda áfram. Tímarnir hafa skánað og okkur gengur betur að skilja hann og hann okkur. En sem eitt dæmi um hversu næs hann er þá vildi hann endilega fara með okkur í ferðalag. P1000478Ferðinni var heitið að Fragrant Hills sem er rétt fyrir utan Peking. Að engu leyti tengt alþjóða hagfræði en óskaplega fallegur staður, fjöll skógi vaxin, tjarnir, lítil hof og aðrar byggingar. Leiðin upp fjöllin var lögð steini og á sumum stöðum voru tröppur til að auðvelda gönguna. P1000484Við röltum upp á hæðirnar en stoppuðum annað slagið til að skoða ýmislegt sem varð á okkar vegi. Meðal annars er í hæðunum hús sem Maó dvaldi í árið 1949 áður en kommúnistarnir réðust inn í Peking. Það var gaman að koma í þetta sögulega hús og að ákveðnu leyti minnti arkitektúrinn mig svoldið á íslensk hús. Við húsið var tjörn sem var full af syndandi gullfiskum, mjög flott að sjá þá og mun flottara heldur en týpísk fiskabúr ;-) P1000495En vegna þess að ég hafði aðeins misskilið hvað við vorum að fara að gera í þessari ferð þá var ég ekkert í bestu skónum til að fara í fjallgöngu svo ég snéri við áður en lappirnar á mér voru alveg dauðar. Á leiðinni niður aftur sá ég reyndar konur í háhæluðum skóm labba upp fjallið svo mér fannst ég nú smá aumingi að gefast upp í sléttbotnuðu skónum mínum. Þegar ég kom niður rölti ég eina götu þar sem var verið að selja ýmislegt matarkyns og ég ákvað að smakka smáepli sem er raðað uppá pinna og húðuð með harðri sykurhúð. Þessi epli sér maður út um allt hérna, annað hvort seld fersk eða á svona pinnum. P1000540Smakkaðist eins og sambland af krækiberjum og bláberjum, súr en sykurinn bætti það upp, alveg ágætt. Í alla staði hið skemmtilegasta ferðalag með prófessor DING Dou en hann fer á þennan stað í hverri viku í fjallgöngu til að auka hreysti sína. Ég er alveg ákveðin í því að fara þarna aftur mjög fljótlega í almennilegum skóm til þess að njóta náttúrunnar þarna sem er alveg yndisleg.


Bekkjarmynd

bekkjarmynd

Bekkjarpartýið

Já það heppnaðist bara vel boðið í gærkvöldi. Það mættu flestir úr bekknum, fyrir utan Kínverjana, af þeim mætti ein stelpa af 8 manns og hún sagðist vera þarna sem fulltrúi þeirra. Þau eru svoldið spes, mjög klár í skóla en það vantar svolítið upp á félagslega þáttinn en það lagast kannski í London. stelpumyndUndirbúningurinn gekk ágætlega þangað til í lokin en þá eins og venjulega ætlaði ég að gera mjög margt á stuttum tíma og endaði náttúrulega í algjöru tímahraki. Það sem bjargaði mér voru nágrannarnir Niccolo og Gonzo en þeir komu með mér að kaupa drykkjarföngin, keyptum 40 600 ml bjórflöskur sem samtals kostuðu rúmar 800 kr. Já það er aðeins ódýrara að halda boð hér en heima. Niccolo sá svo um að sjóða pastað og búa til ítalskt pastasalat, svona til að ítalska tötsið væri á hreinu. Gonzo hins vegar var svo elskulegur að þurrka af og ryksuga stofuna. Þegar ég var að þakka þeim fyrir voru svörin að það væri nú ekki málið við værum nú ein fjölskylda :-) Þeir eru algjör yndi báðir tveir. Nú yfir veitingunum sveif íslenskur blær með aðstoð Ikea og Carrefour (franskur stórmarkaður sem selur vestrænar vörur) og í boði voru pastasalöt, túnfisk, rækju og skinkusalöt og brauð með reyktum laxi og eggjahræru. Þetta var svo borið fram með snittubrauði, bruðum og hrökkbrauði. Í eftirrétt voru piparkökur, súkkulaðikex og sænsk möndlu-og súkkulaðikaka með diam. Veitingarnar runnu ljúflega niður hjá flestum, Diönu hinni kínversku fannst þetta reyndar svolítið undarlegur matur. Hugh frá Kóreu kom með nýtt Absolute vodka með perubragði, mjög gott og sló alveg í gegn. afmælisboðSíðan var bara tjúttað og trallað meðal annars farið í spænskan drykkjuleik sem er að verða að nokkurs konar hefð í þessum hópi. Ég hafði nú smá áhyggjur af nágrönnunum á tímabili þar sem þetta er ekki hljóðeinangraðasta hús í heimi en það slapp nú alveg. Partýinu lauk svo rúmlega þrjú þegar þeir síðustu létu sig hverfa undir tónum austuríska popparans Falco sem var smá einkahúmor okkar Judith. Ég held að allir hafi bara skemmt sér nokkuð vel og mér fannst ekki verra að sumir héldu að þeir væru að mæta í 26 ára afmælið mitt.........

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband