Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
14.10.2007 | 05:40
Postulínshvít fegurð
Pistill birtur í Fréttablaðinu 13. október 2007
Hér í Peking er margt ólíkt því sem ég þekki að heiman. Eitt af því er mælikvarðinn á kvenlega fegurð hér í Kína og hvað kínverskar konur gera til að öðlast þá fegurð. Eftir að ég hafði verið hér í nokkurn tíma og farið nokkrum sinnum í búðarferðir komst ég að því að það er ekki svo auðvelt fyrir okkur vestrænu konurnar að kaupa snyrtivörur. Þrátt fyrir að snyrtivörumerkin séu þau sömu og í Evrópu og Bandaríkjunum eins og Estée Lauder, LOreal, Dior, Olay og Shiseido eru vörurnar sjálfar allt aðrar. Aðal markmiðið með snyrtivörunum hérna er að gera húðina hvítari. Það er nú ekki eitthvað sem við vestrænu konurnar erum hrifnar af en gyllt eða brún húð hefur verið merki fegurðar og hreysti okkar undanfarna áratugi. Hér er þessu akkúrat öfugt farið og hvít húð hefur í margar aldir verið helsta merki fegurðar hér í landi og víðar í Asíu. Hvít húð hefur verið talið helsta merki sakleysis, kvenleika, fágunar og þjóðfélagsstöðu. Í gömlum, kínverskum ljóðum er fallegum konum lýst sem konum með húð hvíta sem mjöll. Um aldir hafa kínverskar konur reynt að öðlast þessa fegurð með ýmsum ráðum, meðal annars með því að mala perlur og gleypa duftið en það átti að gera húð þeirra perluhvíta og fallega eftir því. Í dag eru það hins vegar hillur snyrtivöruverslana sem svigna undan snyrtivörum sem lofa hvítri og fallegri húð. Það sem hefur verið gagnrýnt varðandi þessar snyrtivörur er að í þeim hafa verið bleikiefni sem fara ekki vel með húðina. Framleiðendur sverja hins vegar að þessi krem séu hættulaus fyrir húðina og alltaf sé verið að þróa betri og betri vörur. Þessi rök snyrtvöruframleiðandanna virðast hafa skilað sér því síðustu 10 árin hefur eftirspurnin eftir snyrtivörum í Kína aukist mjög mikið og berjast snyrtivöruframleiðendur um að ná sem stærstum hluta af þessum stærsta markaði veraldar. Framleiðendurnir bjóða ekki eingöngu viðskiptavinum sínum upp á andlitskrem sem hafa þau áhrif að gera húðina hvítari heldur eru það einnig líkamskrem, maskar ýmiss konar, svitalyktareyðir og margt fleira. Þessar vörur eru auglýstar út um allt, endalaust áreiti af loforðum um hvítari húð og þar af leiðandi fallegra útlit. Þessi loforð um betra útlit eru alls ekki ódýr og kremin kosta hér um 3.-6.000 krónur sem er mjög mikið miðað við mánaðarlaunin sem geta jafnvel verið 20.-30.000 krónur. Konurnar hér kaupa ekki aðeins krem til að öðlast meiri fegurð með hvítari húð. Til þess að passa upp á hina dýrmætu hvítu húð forðast þær sólina eins og pestina og nota til þess ýmis ráð. Sem dæmi má nefna að í sólskini ganga þær með sólhlífar og hatta og hylja bera handleggina sína. Það er því ekki skrítið að ég með mína fölu íslensku húð hafi vakið nokkra athygli kínverskra kynsystra minna. Ég hef ósjaldan verið stoppuð af kínverskum konum sem hafa sagt mér að ég hafi einstaklega fallega húð. Þetta er klassískt dæmi um kaldhæðni örlaganna að konur í Kína skuli horfa öfundaraugum á hvíta húð vestrænna kynsystra sinna meðan þær hins vegar horfa með sömu öfundaraugunum á gyllta húð þeirra kínversku. Er þetta ekki enn eitt dæmið um hið gamalkveðna að maður þráir alltaf það sem maður hefur ekki?
Bloggar | Breytt 15.10.2007 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2007 | 01:38
Riddaramennska stjórnvalda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2007 | 04:10
Skjótt skipast veður í lofti
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2007 | 13:30
Friðarsúlan í Viðey
Ég verð að segja það að mér finnst þetta mjög flott hjá Yoko Ono að byggja þessa friðarsúlu í minningu John Lennon. Hann var alveg ótrúlegur maður sem öðlaðist það sem er talið einna eftirsóknarverðast í heimi hér af mörgum, fé og frama en missti þrátt fyrir það aldrei sjónar á því sem skipti máli. Hann talaði fyrir friði og lagði sig virkilega fram fyrir þann málsstað. Eins og þeir sem þekkja mig vita þá er ég afar stolt af því að eiga sama afmælisdag og John Lennon. Ég held að það séu ekki margir sem ég virði meira en hann.
Ég kíkti á heimasíðuna www.imaginepeace.com og þar koma fram skilaboð frá Yoko Ono sem ég er svo algjörlega sammála.
I hope the IMAGINE PEACE TOWER will give light to the strong wishes of World Peace from all corners of the planet and give encouragement, inspiration and a sense of solidarity in a world now filled with fear and confusion.
Let us come together to realize a peaceful world.
Yoko Ono
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.10.2007 | 16:41
Langur afmælisdagur
Þegar maður býr hinu megin á hnettinum frá heimahögunum þá lengist afmælisdagurinn óneitanlega. Hann byrjaði sem sagt á miðnætti í gær þegar bankað var á dyrnar hjá mér og mætt voru bekkjarfélagarnir mínir sem búa í sama húsi og ég. Þau komu inn syngjandi afmælissönginn á kínversku og með kirsuberjaísköku með logandi kertum á. Það verður að viðurkennast að það er orðið ansi langt síðan að ég blés síðast á kerti í tilefni dagsins.
Dagurinn leið ósköp rólega en í kvöld fórum við og fengum okkur að borða á þýskum veitingastað Judith Becker þýsku vinkonu minni til mikillar ánægju. Ég ákvað nú að hafa matinn í austurrískum stíl og fékk mér snitsel í tilefni dagsins og eplastrúdel. Smakkaðist alveg ljómandi vel. Þetta var mjög kósý kvöldverður og ekki var það nú verra þegar afmælissöngurinn var sunginn fyrir mig aftur af þýskum eiganda staðarins sem söng á ensku með þýskum hreimi. Ekki nóg með það heldur fékk ég að blása aftur á kerti. Ægilega gaman! Ég fékk meðal annars gjafakort í nudd í eitthvað geðveikt spa sem ég ætla að nýta mér mjög fljótlega. Síðan ætla ég að halda gamaldags bekkjarpartý á laugardagskvöldið og gera mitt besta til að bjóða upp á íslenskar veitingar úr kínversku hráefni.
Svo langar mig að lokum til að þakka kærlega fyrir allar kveðjurnar sem ég hef fengið í dag að heiman. Það er gott að finna að það eru ekki allir búnir að gleyma manni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2007 | 15:50
Skólaverkefni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2007 | 14:51
Fröken Doppa
Ef doppóttar leggings væru í tísku væri ég í góðum málum. Moskítóbitin mín eru alveg gasalega smart, búin að telja þau, samtals 30 bara á fótleggjunum, geri aðrir betur!! Síðustu nætur hafa verið svolítið strembnar, endalaus kláði í elskulegu bitunum. En þetta er allt að koma og nú er það eiginlega bara rauðdoppótta leggjalúkkið eftir. Annars hefur þetta verið næs helgi, rólegheit og lærdómur. Fór út að borða á japönskum stað í gærkvöldi með krökkunum, sushi-ið klikkar ekki, létum okkur svo dreyma um ferðalag til Tíbet. Spurning hvar hægt er að skvísa því inn í dagskrá ársins.
Í nótt og í dag hefur verið svakalegur vindur, endalaust gnauð hér á 16. hæðinni, er búin að vera að velta því fyrir mér hvort þetta sé eh hluti af hitabeltisstorminum sem hefur geysað við strönd Kína og var fellibylur í Taívan. Að minnsta kosti er þetta mesti vindur sem ég hef kynnst hér, minnir mann á að haustið er ekki langt undan. En það var bara kósý að kúra undir hlýju dúnsænginni sem mamma og pabbi gáfu mér í fyrirfram afmælisgjöf, hún er alveg að slá í gegn!
Dagurinn fór sem sagt í lestur og annað skemmtilegt. Eldaði mér svo eggjaköku og steikti kirsuberjatómata með, reyndar bara alveg ágætisblanda. Síðan hefur kvöldinu að mestu verið eytt í sjónvarpsgláp, Sex and the City, 3ja sería á milli þess sem ég hef spjallað við fólk að heiman. Sem sagt alveg glimmrandi sunnudagur :-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 06:15
Nýjar myndir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 05:07
Þjóðhátíðardagur á torgi hins himneska friðar
Pistill birtur í Fréttablaðinu 6. október 2007
Það er ekki vaninn að fara á fætur klukkan þrjú um nótt í Kína, en mánudaginn 1. október var þjóðhátíðardagur og mikil hátíðarhöld framundan. Ég og bekkjarfélagar mínir ákváðum því að taka þátt í stemningunni og drífa okkur af stað til Torgs hins himneska friðar þrátt fyrir hellidembu af himnum ofan. Kínverjar hafa haldið upp á þennan dag síðan Maó lýsti yfir stofnun Alþýðuveldisins Kína á þessu sama torgi árið 1949. Ég lagði af stað rúmlega fjögur og tók leigubíl niður í bæ í niðamyrkri. Það voru fáir á ferli og ferðin tók ekki langan tíma. Þegar ég kom á áfangastað var fólk að byrja að streyma að og menn voru ýmist að fá sér morgunmat eða kaupa sér regnhlífar eða regnstakka af sölufólkinu. Ég fylgdi mannfjöldanum að torginu í grenjandi rigningu. Á leiðinni mættum við lögreglumönnum sem voru með vopnaleitartæki og ég var auðvitað tékkuð, kannski grunsamleg sem útlendingur. Ég rakst líka á gamlan mann sem var að selja litla kínverska fána og mér fannst ég verða að kaupa fána í tilefni dagsins. Fólkið safnaðist saman á torginu undir regnhlífunum sínum og þegar ég leit í kringum mig sá ég hafsjó regnhlífa eins langt og augað eygði. Þarna var mest af ungu fólki, lítið var af börnum og ég sá engan annan ( hvítan mann?) Vesturlandabúa. Athöfnin sem við vorum að bíða eftir var sú að kínverski fáninn yrði dreginn að húni við sólarupprás sem var að þessu sinni kl. 6.10. Þessi athöfn fer fram á hverjum degi en það er siður hjá Pekingbúum að safnast saman og fylgjast með þessari athöfn á þjóðhátíðardaginn.
Eftir nokkuð langa bið þá fór mannskapurinn að ókyrrast og ég fann hvernig eftirvæntingin jókst í fólkinu og allir fóru nú að horfa í áttina að fánastönginni. Mannfjöldinn fylgdist svo með þegar fáninn var dreginn að húni við sólarupprásina sem sást nú reyndar lítið í vegna rigningarinnar. Um leið og athöfninni lauk setti lögreglan sig í stellingar og byrjaði að koma fólkinu af torginu, því í raun er þetta fræga torg ekki torg heldur breiðasta akbraut Pekingborgar. Þeir mynduðu röð þvert yfir torgið, héldust hönd í hönd og ýttu þannig fólkinu af torginu. Þá marseruðu hermennirnir þarna í kring klæddir í regngalla frá toppi til táar og með hvíta hanska.
Að koma öllum þessum mannfjölda af torginu tók alveg ótrúlega stuttan tíma og áður en ég vissi af var farið að keyra um göturnar og allir horfnir á braut. Ég staldraði við í nokkurn tíma og virti fyrir mér þennan stað sem hefur að geyma svo stóran part af kínverskri sögu.
Ég var ánægð með að hafa eytt þessari morgunstund með heimamönnum og fá að fylgjast með því hvernig þeir fagna þjóðhátíðardegi sínum. Á leiðinni heim naut ég þess að virða fyrir mér opinberar byggingar sem höfðu verið fallega skreyttar með fánum og blómum í tilefni dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 08:27
Strætó
Já ég er búin að ákveða að fara að taka strætó í skólann. Þótt að leigubílarnir hérna séu ekki dýrir þá er mun ódýrara að ferðast með strætó eða fargjaldið eru tæpar 9 IKR. Að ferðast með strætó hérna er ákveðin upplifun. Í fyrsta lagi er alveg pakkað, það eru sko maður við mann og þá meina ég maður við mann ef þið skiljið hvað ég meina, ekki sama tilfinningin fyrir speisi hér og heima. Nú síðan eru það tveir starfsmenn sem vinna í strætóinum, bílstjórinn náttúrulega og svo starfsmaðurinn sem tekur við greiðslunum og skipar fólki að færa sig innar í strætóinn. Svo alla leiðina þá hrópast þeir á bílstjórinn og sá sem tekur við peningunum. Frábært stuð skal ég segja ykkur en þeir eru frekar krúttlegir, klæddir í voða fína einkennisbúninga og taka starf sitt mjög alvarlega. Reyndar þá veit ekki alveg með ökulagið, ég man nú alveg eftir því hvernig bílstjórarnir heima bremsuðu og rykktu af stað svo maður átti erfitt með að halda jafnvægi en hér er þetta þúsund sinnum verra. Ég hef það á tilfinningunni ef ég haldi mér ekki í að öllu afli þá muni ég fjúka út um eh gluggann. Ætli þeir þurfi að taka próf í því að bremsa snögglega og rykkja af stað allir strætóbílstjórar heimsins svo þeir fái djobbið.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)