Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Þýskur matur og moskítóbit

Við skelltum okkur nokkur í gærkvöldi á þýskan veitingastað til að fagna þjóðhátíðardegi Þjóðverja sem var í fyrradag til heiður Judith Becker hinni þýsku sem er með okkur í bekk. Þýskur matur er nú ekki alveg sá léttasti og ég varð náttúrulega að velja eitthvað nógu þýskt. Fyrir valinu varð eh sem var annars vegar eins og kássa úr slátri og hins vegar kássa úr lifrarpylsu með þessu var borið fram kartöflumús og sauerkraut. Þetta var alveg fínt á bragðið en almáttugur þetta var eins og að vera með stein í maganum það sem eftir var kvölds og nætur. En vonandi hjálpaði þetta uppá járnið í blóðinu hjá mér sem hefur verið eh aðeins of lítið. Samræðurnar yfir borðhaldinu voru hins vegar mjög skemmtilegar, við vorum að ræða sögu Evrópu, hvernig landamæri hafa verið að breytast fram og til baka í gegnum árin og hvaða áhrif það hefur á fólkið. Hvaða lönd það eru sem telja sig Evrópubúa eins og t.d. Tyrkland og Kákasusarlöndin og hvernig t.d. Evrópusambandið lítur á þau mál. Og svo hvernig á að skilgreina Evrópu, hvar endar hún? Hvar eru landamæri Evrópu? Ótrúlega áhugaverðar pælingar sem maður getur velt sér uppúr fram og til baka. Sérstaklega gaman að ræða þær við fólk frá mismunandi löndum og hefur mismunandi bakgrunn. Á meðan voru eh moskítóflugur að gera okkur lífið leitt, en ég er fyrir löngu hætt að nota moskítóáburðinn minn, hélt að þær væru farnar þetta árið. En nei nei þegar ég vaknaði í morgun var ég útsteypt í bitum, ég hætti að telja eftir að ég taldi 20 bara á fótleggjunum. Svona til að halda eh sálarró ákvað ég bara að hætta að telja og þykjast ekki sjá þau...... Oh helvítis moskítóflugur

Heiðursfélagi!!

Það er nú ekki á hverjum degi sem maður er útnefndur heiðursfélagi enda kannski ekki kominn á þann aldur að hafa afrekað nógu mikið. En eins og kemur fram á Hriflunni, málsgagni okkar Framsóknarmanna í Reykjavík þá hélt Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður aðalfund sinn 28. september síðastliðinn. Þar var nýr formaður kosinn, Jóhanna Hreiðarsdóttir og vil ég nota tækifærið og óska henni innilega til hamingju með kosninguna. Tími til kominn að kona settist í formannsstól í þessu öfluga félagi. Einnig vil ég óska öðrum stjórnarmönnum til hamingju með kosninguna og óska þeim góðs gengis í starfinu í vetur. En já svo er búið að breyta lögum félagsins og nú er heimild fyrir því að kjósa heiðursfélaga og þrír fyrstu félagarnir eru Alfreð Þorsteinsson, Stefán Þór Björnsson og ég sjálf. Ég get ekki annað sagt en að ég sé stolt af þessum titli og ekki síður félagsskapnum sem ég er í. Ég vil því nota tækifærið og þakka nýkjörinni stjórn innilega fyrir sýndan heiður!! Svo er bara spurning hvort maður þurfi ekki að mæta með rósettu í barminum á næsta aðalfund félagsins......

Klósettmenning

Það er eiginlega ekki hægt annað en að ræða klósettmenninguna hérna því hún er vægast sagt ansi ólík því sem maður þekkir. Hér finnst fólki ekki mjög huggulegt að setjast á klósett til að gera þarfir sínar heldur er það aðeins hola í gólfið sem rokkar hér. Í gamla daga var það bara hola niður í gólfið en nú á dögum eru það fínustu postulínsholur sem maður sér yfirleitt. Þetta er náttúrulega frekar furðulegt fyrir mann að venjast og einhvern veginn er það ekki alveg sama tilfinningin að setjast á hækjur sér til að pissa í postulínsklósett og að pissa út í náttúrunni eins og maður er vanur heima ef ekkert klósett er nálægt. Svo vegna vanans er maður alltaf ægilega spenntur að vita hvort veitingahús eða aðrir sem bjóða upp á almenningssalerni eru með þetta klassíska vestræna klósett eða hvort maður verður að pissa í holu. Maður er alltaf ósköp þakklátur ef þeir bjóða upp á venjulegt klósett. Já þeir eru ekki alltaf stórmerkilegir hlutirnir sem maður getur glaðst yfir ;-)

Vera Moda

Ég kíkti í eina verslunarmiðstöð í fínni kantinum í miðbæ Peking um daginn. Það var risa stórt og mikið af fínum merkjaverslunum. En meðal þeirra var Vera Moda búð og ég hugsaði mér nú gott til glóðarinnar. En þegar ég kom inn í hana byrjaði ballið. Í fyrsta lagi var hún lítil, ca 1/5 af búðinni heima í kringlunni en í búðinni unnu svona ca 20 afgreiðslustúlkur. Sem sagt mjög góð þjónusta, eiginlega alltof góð þjónusta fyrir minn smekk. Ég varð fyrst að segja góðan daginn við þær allar svo ég fengi smá frið, en ekki nóg með það ef ég sýndi eh flík smá áhuga var amk ein afgreiðslukonan komin að sýna mér flíkina eða aðrar á sömu slá. Það var bara ekki hægt að anda þarna inni fyrir þjónustulund afgreiðslukvennanna. Að lokum hrökklaðist ég bara út enda var ég ekki mjög impóneruð yfir fötunum né verðinu. Alltof dýrt, dýrara heldur en heima og stíllinn hér er heldur mikill glamúr fyrir minn smekk. Til að mynda vildi ein afgreiðslukonan endilega selja mér eldrauðan mittisjakka með stórum rauðum loðkraga. Bara ekki alveg minn smekkur.

Það er nefnilega mikil glamúrtíska hér í gangi. Það eru varla stelpur hér sem ganga í öðru en fötum glitra, hvort sem það eru gallabuxur, pils eða bolir og stutta tískan er einnig allsráðandi hjá þeim. Þetta smitast líka á strákana og eru þeir einhvern veginn oft kvenlegar klæddir en strákarnir heima sem svo sem fer þeim ekkert illa því þeir eru náttúrlega frekar fínlegir í vexti og með fínlega andlitsdrætti.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband