Leita í fréttum mbl.is

Næturlífið

Við skelltum okkur nokkur út á lífið í gærkvöldi. Byrjuðum á því að fara á veitingastað sem er þekktur fyrir góðar soðkökur (dumplings). Við fengum okkur soðkökur með mismunandi fyllingum svo sem eins og kjúklingi, eggjum og tómötum, svínakjöti og grænmeti. Einfaldur og alveg ótrúlega góður matur. Síðan var ferðinni heitið í hverfi sem heitir SanLiTun og er svokallað sendiráðshverfi. þar er urmull af börum og klúbbum þar sem vestrænt fólk er í miklum meirihluta. Við skelltum okkur á stað sem heitir Bar Blue og hafði upp á að bjóða stóra verönd á þakinu þar sem hægt er að sitja í ljúfu veðrinu og sötra kokteila. Það var nú ekki annað hægt en að skella sér á mojito :-) Á staðnum hittum við vin Niccola sem hefur unnið hér sem DJ og mælti hann með því að við færum á stað sem heitir Babyface. Það var upplifun að koma inn á Babyface, sjaldan hef ég séð annan eins glamúr. Það stirndi á alla skapaða hluti, veggirnir voru skreyttir með eh eins og frekar stórum jólakúlum sem raðað var í stóra ferhyrninga. Ég gerðist nú svo gróf að taka myndir á salerninu bara til að geta sýnt brot af glamúrnum. En tónlistin var góð og þjónustan mjög fín. Næstum því einn barþjónn á hvern gest, öryggisverðir gættu þess að fólk væri hvorki með glös né sígarettur á dansgólfinu og ef aðeins skvettist á dansgólfið var öryggisvörður mættur með vasaljós til að lýsa upp subbuskapinn meðan hann var þrifinn. Ansi ólíkt klístruðum og glerbrotum stráðum dansgólfunum sem maður þekkir að heiman. Sumir sátu við borð og höfðu pantað flösku sem greinilega var krafan. Við hittum tvo Kínverja sem endilega vildu bjóða okkur upp á drykk og var það viskí blandað með te. Alls ekki svo slæmt og held ég að þetta sé í fyrsta skipti sem ég gat klárað viskíglas. Stærsti hluti gestana voru kínverjar, þ.e. fyrir utan okkur og 2 stelpur sem dönsuðu uppá hátölurum á milli sem þær lögðu sig á sófum inni á salerninu. Eftir að hafa dansað þarna í nokkra klukkutímana var ákveðið að yfirgefa staðinn. Hluti hópsins ákvað að skella sér aftur í SanLiTun og fá sér kebab meðan ég og fleiri ákváðum að drífa okkur heim. Þegar heim var komið var nauðsynlegt að finna eh að borða og sáum við að lagði reyk upp úr pottum frá veitingahúsinu beint á móti blokkinni okkar. Við kíktum þangað og fyrir utan veitingastaðinn var verið að elda soðkökur. Við stóðum þarna í myrkrinu og hlýju veðrinu og fylgdumst með æfðum handtökum kvennanna sem voru að búa þessar kökur til. Þær sýndu ótrúlega flotta takta, deiginu rúllað upp og flatt út í litla kringlótta bita, í miðjuna var sett fylling úr kjöti, grænmeti og kryddi og svo mótað í fallegar kökur. Síðan var þeim raðað í gufusuðupotta sem var svo staflað saman og soðið í gufunni. Það var alveg magnað að fylgjast með þessu og auðvitað keyptum við okkur skammt. Þær brögðuðust sko aldeilis vel þessar soðkökur, algjörlega fullkominn endir á góðu djammi.

Ég læt örfáar myndir fylgja með ævintýrum kvöldsins svo þið fáið aðeins betri tilfinningu fyrir þessu. Slóðin er þessi: http://picasaweb.google.com/lafdin/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Oh dumplings, man eftir þeim. Ekkert smá gott!!! Þú hefur nú valið flottari djammstaði en við. Held reyndar við höfum ekkert djammað í Peking. Við fórum bara á einhver svona diskótek með "Final count down" eftirhermulögum á kínversku og gólfum sem hreyfðust... ekki svona glamúr !

Kristbjörg Þórisdóttir, 16.9.2007 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband