Leita í fréttum mbl.is

Dekurdagur

Dagurinn hófst á fyrirlestri hjá prófessor Pan Wei um að Kína væri stéttlaust þjóðfélag. Fór misvel í bekkinn og ekki voru allir sammála honum. Þá sagði hann okkur líka að hið skrifaða mál í Kína hefur svo lítið breyst síðustu 5.000 árin að fólk getur enn lesið það sem var ritað fyrir 5.000 árum. Geri aðrir betur! Eftir skólann hófst hið ljúfa líf hjá minni. Ég skellti mér í SanLiTun í fótanudd, það eru heilar 80 mínútur og ekki eru fæturnir aðeins nuddaðir heldur axlir, bak, handleggir og fótleggir. Þvílík nautn, þetta var algjört æði, ég var alveg endurnærð á eftir. En ekki dugði þetta til því strax á eftir skellti ég mér í fótsnyrtingu, ekki vanþörf á skal ég segja ykkur eftir allt labbið hérna í hita og sól. Þegar ég var búin að láta dekra við mig í ca 3 klukkutíma skellti ég mér á Bókaorminn (Súfistann í Peking) þar sem ég lærði fyrir morgundaginn og drakk dásemdar kaffi. Lærdómur dagsins var uppgangurinn í viðskiptalífinu hérna í Kína. Meðal annars voru þar staðreyndir á borð við að í borg sem heitir Senzhen sem er nálægt HongKong eru fluttir út 40 miljónir gáma á ári, það gerir einn gám á sekúndu, allan sólarhringinn, 365 daga ársins. Starfsfólkið sem vinnur í verksmiðjunum vinnur á 12 tíma vöktum, 6 eða 7 daga vikunnar, borðar í mötuneyti verksmiðjunnar og sefur í svefnskálum sem eru byggðir við verksmiðjurnar. Stærsta verksmiðjan lætur slátra 3.000 svínum daglega fyrir starfsmenn sína, en aðeins milli 200. og 300.000 manns vinna þar eða cirka jafn margir og búa á Íslandi. Frekar magnaðar tölur sem sýna gríðarlega stærð þessarar þjóðar.

Eftir að skólalærdóminum lauk var kominn tími til að hitta Íslendingafélagsmenn. Það var ákveðið að hittast á veitingastað sem heitir Hot Loft og er með svokallaðan "HotPot" mat. Þessi matur er borinn fram hrár og hver fær sinn pott með soði í til að elda matinn sinn. Við fengum ýmislegt góðgæti til að sjóða okkur svo sem nautakjöt, lambakjöt, grænmeti, núðlur og kartöflur. Hápunkturinn voru samt rækjurnar, sem komu framreiddar í skelinni, þræddar upp á prik og enn LIFANDI. Ég gat bara ekki hugsað mér að stinga þeim lifandi ofan í sjóðandi pottinn svo ég lét mér bara duga að horfa á þær hreyfa alla anga, ég reyndar tók það upp á videó svo nú er ég með sannanir fyrir þessum huggulegheitum. Borðfélagar mínir áttu ekki til orð yfir hversu góðar rækjurnar brögðuðust en ég ákvað að bíða með að smakka, meikaði það bara ekki.

Þetta var hrikalega næs dagur í alla staði og frábær félagsskapurinn í Íslendingafélaginu. Ætlunin er að hittast einu sinni í mánuði og hlakka ég virkilega til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband