Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Það sem leynist bak við dyr í Kína

Síðustu daga hef ég verið að komast að því að látlausar dyr segja ekki alltaf alla söguna. Í dag fórum við í eina af bóksölum háskólans. Við fórum í fylgd kínverskra félaga okkar. Annars held ég að við hefðum aldrei fundið bóksöluna því að áður en við komum að dyrunum þurftum við að labba upp brattan stiga en hvergi voru merkingar um að þarna væri stór bókabúð.

Þegar ég flutti í íbúðina mína var mér sagt að næsta stóra matvöruverslunin væri í öðru hverfi og væru ca 10 mínútur í leigubíl þangað. Ég hef farið þangað samviskusamlega og verslað í matinn. Hérna í húsinu er lítil matvöruverslun sem opin er allan sólarhringinn en hún er frekar lítil og dýr svona miðað við hvað gerist hérna. Í dag þegar ég kom heim úr skólanum fór ég í litlu búðina til að versla nokkra hluti. Í búðinni hitti ég bekkjarfélaga minn sem einnig býr hér en hann sagði mér að það væri önnur búð handan við hornið sem væri miklu betri. Ég ákvað að rölta í hana og ekki hefði mig grunað að þarna væri verslun, fátt sem benti til þess, en almáttugur hvað þá að þarna væri Hagkaup bara mætt. Ég var frekar hamingjusöm með þessa uppgvötun, munur að skokka í 2 mínútur í Hagkaup heldur en að þurfa að taka leigubíl í 10 mínútur til að versla í matinn!


Fyrsti dagurinn í skólanum frekar áhugaverður!

Ég vaknaði snemma í morgun til þess að mæta í tíma í skólanum. Ég var komin út rúmlega átta því ég hafði enga hugmynd um hvernig það myndi ganga að finna leigubíl á þessum tima dagsins. Þegar ég kom út hitti ég bekkjarfélaga mína sem búa í sama blokkarkombói. Við ákváðum þrjú að taka saman leigubíl. Reyndar tók það strákana sem ætluðu með mér eh tíma að koma sér af stað og við byrjuðum að leita af taxa rúmlega hálfníu en tíminn okkar byrjar kl. 9. Við löbbuðum fram og til baka hér um götuna en það virtust alls ENIGIR leigubílar lausir, og ef þeir voru lausir keyrðu þeir framhjá okkur. Við vorum orðin frekar stressuð enda klukkan örfáar mínútur í níu. Það endaði með því að Ryan sem talar ansi góða kínversku gat stoppað eh bíl og talað bílstjórann á að keyra okkur í skólann fyrir greiðslu. Við vorum komin ca korter yfir níu í skólann og þegar við komum var prófessorinn ekki mættur. Heppin við en prófessorinn mætti ekki fyrr en klukkan tíu. Þegar hann mætti sagði hann að enginn hefði látið hann vita að hann ætti að kenna þessa tíma hvað þá látið hann vita hvenær hann ætti að kenna þá. Frekar spes fannst okkur öllum sem komum frá öðrum löndum en kínversku krakkarnir kipptu sér ekkert upp við þetta. Ég vona samt að þetta sé ekki það sem koma skal í skipulagningunni í prógramminnu okkar. Tíminn var annars áhugaverður þar sem fór fram umræða um stjórnarfarið í Kína sem hefur byggt á sömu hefðum síðustu 2000 árin. Þá var verið að bera saman stjórnarfarið í Kína við lýðræðisstjórnarhættina á Vesturlöndum. Eftir tímann fórum við öll að sækja um svokallað campuskort en kínversku bekkjarfélagarnir voru okkur til aðstoðar. Þar fengum við þær upplýsingar að kortin yrðu til eftir mánuð vegna anna við að gefa út kortin. Við þurfum t.d. á þeim að halda til að geta tekið bækur á bókasafninu. En sem betur fer er nú til athugunnar að fá handa okkur bráðabirgðakort. Ansi ólíkt því sem maður á að venjast heima á Íslandi :-)

Annars er ég nú á leiðinni í matarboð hjá ítölskum bekkjarfélaga mínum sem býr 14 hæðum fyrir neðan mig. Ég hlakka mikið til enda elska ég ítalskan mat. Vonandi kann hann að elda góðan mat en þá er aldrei að vita nema að maður blikki hann til að kenna manni eitt eða tvö handtök :-)


Vín vs Peking

Það eru akkúrat 10 ár síðan ég dvaldi síðast í útlöndum við nám. Það var í Vín í Austurríki þegar ég tók hluta af lögfræðinámi mínu í ERASMUS prógramminu. Það er óhætt að segja að einn ákveðinn siður hefur rifjast upp fyrir mér undanfarið frá því að ég var í Vín vegna þess hve þessi siður er algjörlega frábrugðinn því sem gerist hér. Það er sem sagt hvernig fólk snýtir sér eða hreinsar vitin í sér af hori og slími. Já frekar huggulegt umræðuefni;-)

Ég var ekki búin að vera lengi í Vín þegar ég áttaði mig á því að allir sem voru maður með mönnum gengu um með svokallaða "Taschentuch" þ.e. litla bréfvasaklúta. Áður en ég vissi af var ég búin að fjárfesta í svona klútum og lét ekki sjá mig neins staðar án þeirra. Reyndar gleymdi ég þeim nú eh tíma og var einmitt með kvef og saug upp í nefið í eh tímanum í skólanum. Og viti menn það var um leið búið stinga einum klútnum upp í andlitið á mér.

Hér í Peking er þetta svolítið önnur saga. Hérna ræskja menn sig, og ég meina þeir RÆSKJA sig. Það er sko alveg langt innan úr maga sem það hefst og gengur svo upp með þvílíkum hljóðum og endar svo með því að það er hrækt með stæl á götuna. Þetta er svo svakalegt að í einni túristabókinni sem ég á um Peking er þetta talið vera eitt af fjórum verstu atriðunum við borgina. Orðrétt segir : "Witnessing spitting like you have never seen og heard before". Svo elskurnar mínar ef þið takið eftir því þegar ég kem heim að ég hef tekið upp þennan "sið" viljið þið þá vera svo væn að benda mér á það.......


Myndaalbúm

Jæja þá er ég búin að búa til myndasíðu svo ég get sýnt ykkur eh af myndum sem ég hef tekið. Ég reyndar geri ráð fyrir því að það verði ekki galopið og því muni þurfa í framtíðinni eh konar lykilorð. Læt ykkur vita nánar um fyrirkomulagið síðar. En ástæðan fyrir því að ég er búin að koma þessu í verk er eingöngu ansi ákveðinni vinkonu minni að þakka sem rekur mig áfram með harðri hendi og mér er ekki stætt á öðru heldur en að hlýða henni þar sem hún er nú heilum degi eldri en ég ;-) En Hrabba mín hérna koma myndirnar: http://picasaweb.google.com/lafdin/


Shopaholic

Já ég verð aðeins að deila því með ykkur en je dúdda mía það er frekar gaman að versla hérna. Þetta slær eiginlega allt út sem ég hef áður reynt eins og t.d. BNA. Það er sem sagt glaður sjoppari sem verslaði sér 3 pör af skóm, 2 töskur og óheyrilegt magn af DVD-myndum í dag. Þeir sem hafa meldað sig hingað í heimsókn eiga sko skemmtilega tíma framundan í verslunarleiðangri fyrir utan allt hitt sem er svo spennandi og sjarmerandi við Peking. Til að taka eitt dæmi að lokum þá hef ég tekið eftir því að á torgi fyrir utan bygginguna sem ég bý í þá safnast saman hópur af fólki á kvöldin og dansar gömlu dansana við tónlist í hlýjum andvaranum sem er oft hér á kvöldin. Það er alveg ótrúlega sjarmerandi að fylgjast með þessu, allir svo afslappaðir og hamingjusamir að sjá.

Barátta við kínversk heimilistæki

Það getur verið svolítið erfitt að nota heimilistæki sem hafa eingöngu merkingar á kínversku. Þegar ég hitti leigusalann minn og fékk íbúðina mína afhenta þá útskýrði hann fyrir mér í stuttu máli helstu leiðbeiningarnar á heimilistækjunum. Og já það eru nú ekki alltaf mjög flóknar skipanir sem maður þarf að gefa tækjunum, byrja, stoppa o.s.frv. En ef eitthvað kemur upp á eins og t.d. ef maður ætlar að horfa á DVD-mynd og vill fara á valmyndarsvæðið til að velja enskutal á myndina er það meiriháttar mál því allar leiðbeiningar eru á kínversku. En maður verður bara að prufa sig áfram og sætta sig við að slást við fjarstýringarnar í nokkuð langan tíma. Ég er búin að dunda mér við það í dag að þvo þvott í kínverskri þvottavél en þær nota ekki heitt vatn eins og maður er vanur heima. Ég var því ansi spennt að sjá hvort þvotturinn yrði hreinn aðeins þveginn úr köldu vatni. En jú það virkar bara alveg ljómandi vel. Jæja áður en ég læt staðar numið í þessu frábæra umfjöllunarefni sem notkun heimilstækja eru þá verð ég að minnast á það að ég er með mynddyrasíma. Eiginlega er ég mjög fegin að geta séð hverjir eru að banka upp hjá mér, ekki það að það hafi verið mjög margar heimsóknir síðan ég flutti hingað ;-)

Íslensk menning í Peking

Já nú er ég búin að vera hér í rúma viku og var að senda póst á starfsmann í háskólanum vegna skráningar í fögin sem ég ætla að taka á þessari önn. Starfsmaðurinn sendi mér einnig upplýsingar um að þann 20. september nk. mun "National chorus of Iceland" vera með tónleika í háskólanum í Peking. Hmmm maður verður nú að fara og styðja sína menn en ég er bara ekki alveg viss um hvaða kór þetta er. Getur eh hjálpar mér við að finna það út? En já það verður ábyggilega gaman að kíkja og hlusta á íslenskan kór hérna í Peking........


Yi Jia

Þetta er nafnið á sænska stórveldinu Ikea í Alþýðulýðveldinu Kína. Ég er nú búin að sækja Ikea heim í tvö skipti. Fyrst á laugardaginn síðasta þar sem ég varð að troðast áfram í þéttu mannhafinu. Það virtust allir hafa mikinn áhuga á að prufa alla hlutina sem eru til sölu, t.d. hvernig mortelið virkar, og þá var bara barið í það endalaust mér til mikillar skemmtunar eða hittó. Ég brunaði áfram með kerruna mína í gegnum verslunarsvæðið og greip það sem ég ætlaði að kaupa og umhugsunartíminn var að meðaltali 1 sekúnda. Ég náði samt að versla mikið af helstu nauðsynjunum fyrir heimilið á methraða og dreif mig út eins fljótt og ég gat. Aðeins of mikið af fólki fyrir Íslendinginn í mér.

Ég skellti mér svo aftur í dag, það var mun rólegri stemming og ég gat keypt allt sem ég gleymdi að kaupa í fyrri ferðinni. Það verður að segjast að það er ansi heimilislegt að versla í Ikea og ég keypti nú ýmislegt í sama stílnum og var heima á Skólavörðustígnum. Svo var ekki verra að enda verslunarferðina á að fá sér eina pylsu í brauði með sinnepi og tómat :-)


Kínverska prógrammið og dagurinn í dag

Í dag var fundur í skólanum þar sem kynnt var fyrir okkur prógrammið sem verður kennt hér í Kína. Þetta lítur ágætlega út, reyndar hvarf ansi mikið af valkúrsunum sem voru á heimasíðu skólans. Við tökum einn skyldukúrs sem heitir China´s Politics and Diplomacy. Síðan eru 3 skyldukúrsar sem við megum velja 2 af, og æ það er bara einn kenndur á haustönn og hann heitir International Security: Theory and Practice. Síðan verða hinir 2 kenndir eftir áramót þó með þeim fyrirvara að annar þeirra gæti dottið út af því að prófessorinn þarf að vera eh staðar annarsstaðar að kenna. Frekar fyndið. Að lokum er einn valkúrs sem við eigum að taka en okkur verður sent úrvalið í maili, reyndar var sagt að þeir væru 2 eða 3, en upphaflega voru þeir í kringum 6 eða 7. En hvað maður getur ekki ætlast til að allt sé eins og maður er vanur, þá væri ekkert gaman að því að kynnast framandi menningu.

Síðan var okkur sýnt bókasafnið, þar var sérstök hilla af bókum á ensku fyrir kúrsana okkar, allar aðrar bækur sýndist mér vera á kínversku. Það sem vakti athygli okkar í hópnum var að allar bækurnar voru bara ljósrit, allar alveg eins, bundnar meira að segja í sama litinn af pappír. En við megum sem sagt ljósrita eins og við viljum og þurfum ekkert að borga fyrir held ég :-) Kínverjar virðast ekki spá mjög mikið í höfundarétt eins og maður hefur svo sem heyrt af. Ég held að ég sleppi því að segja að ég hafi skrifað kandídatsritgerðina mína um hugtakið verk í höfundarétti.....

Annars heldur áfram að vera hlýtt í veðri og ég er ekki frá því að hitastigið hafi eitthvað hækkað, það er sem sagt yfir 30 stiga hiti hérna á daginn. Ósköp ljúft og það sem gerir það ljúfara er að það kemur ágætur blástur annað slagið. Ég hef varla farið úr fínu svörtu ECCO sandölunum mínum síðan ég kom, get ekki hugsað mér að vera í lokuðum skóm þessa dagana. Samskonar veðri er spáð áfram, amk eins langt og ég hef séð sem er ein vika.

Eftir skólann fór ég og hitti Ástu en hún kynnti fyrir mér hverfi sem heitir Wudaokou sem liggur eiginlega á milli okkar en þetta er hverfi með fullt af verslunum og veitingastöðum. Eiginlega byrjuðum við á að kíkja á líkamsræktarstöð og hún lofar bara ansi góðu. Minnir bara svoldið á Laugar. Ég er alvarlega að spá í að kaupa mér kort þar. Síðan skelltum við okkur á mjög fínan japanskan stað þar sem við borðuðum "sticks and sushi" og drukkum japanskan bjór með, fyrir manninn kostaði um 400 kr.

EFtir matinn röltum við aðeins um hverfið og Ásta sýndi mér það helsta, góð kaffihús, matsölustaði og verslun sem er með svolítið af vestrænum vörum. Ég held að þetta verði hverfið sem ég mun mest vera í viðskiptum við en í kringum íbúðina mína er ekki mikið um verslanir, bara litlar búðir þar sem hægt er að kaupu helstu nauðsynjar. Reyndar eru hérna við götuna mína heill hópur af mönnum og konum sem koma með litla vagna og selja grænmeti og ávexti. Mjög heimilislegt og sætt :-)


Bei Jing Da Xue

Er kínverska nafnið á háskólanum í Peking, í daglegu tali kallaður Bei Da. Ég fór í skólann í dag á fund hjá prófessor Arne Westad sem sér um námið í LSE. Reyndar kom í ljós í lok fundarins að hann er frá Norður-Noregi sem var ánægjulegt að heyra en það eru engir Norðurlandabúar fyrir utan mig í prógramminu :-) Hann var að kynna LSE-hlutann fyrir okkur og gefa okkur ýmsar praktískar upplýsingar um námið í London. Hann sagði okkur einnig að þetta hefði verið vinsælasta prógrammið hjá þeim og hefðu um 250 manns sótt um það en við vorum aðeins 22 sem komumst inn svo hann áréttaði fyrir okkur að við ættum að vera ansi ánægð með það.

Á fundinn var mættur stærsti hlutinn af okkur og var góð stemming í hópnum, við erum með mjög mismunandi bakgrunn og menntun, sumir viðskiptamenntaðir, aðrir úr stjórnmálafræði eða alþjóðasamskiptum og svo ég og ein kínversk stelpa sem komum úr lögfræði. Við eyddum svo tíma eftir fundinn með prófessornum til að skiptast á símanúmerum. Það var sérstaklega góð tilfinning að fá símanúmerin hjá kínversku krökkunum sem sögðu að við mættum hringja í þau út af öllu sem þau gætu hjálpað okkur með hérna í Peking. Þvílíkur munur að hafa svona kontakta. Á morgun er svo fundur með kínversku prófessorunum og munu þeir gefa okkur allar upplýsingar um námið hérna í Peking. Ég er mikið farin að hlakka til að byrja í skólanum en tímarnir hefjast á mánudaginn næstkomandi.

Svo fékk ég ánægjulegar fréttir en nokkrir af krökkunum sem eru með mér í prógramminu eru búin að finna sér íbúðir hérna alveg við mína íbúð, það er gott að hafa þau hérna nálægt upp á að geta hitt þau eða farið samferða þeim í skólann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband