Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Skriffinska og ljúft kvöld

Dagurinn hófst á því að fara í huggulega heimsókn í útlendingaeftirlitið hér í borg. Allt gekk nú reyndar samkvæmt áætlun og ég labbaði út með dvalarleyfi til 4. september 2008. Það sem er ekki verra, óheft ferðafrelsi til að fara úr landinu og komast aftur inn í það án vandkvæða. Skriffinskunni var þó ekki alveg lokið því okkur var sagt að við yrðum að fara á löggustöðina í hverfinu okkar til að sýna að við værum ekki lengur með bráðabirgða dvalarleyfi. En nei nei ekki var það svo einfalt því að á löggustöðunni var okkur sagt að leigusalinn okkar yrði að koma með eyðublað til að sanna að við byggjum nú á sama stað og síðast þegar við tilkynntum búsetu okkar, einmitt með alveg eins útfylltu eyðublaði af hálfu leigusalans. Leigusalinn minn komst því miður ekki í dag svo að skriffinskan heldur áfram næstkomandi mánudag mér til mikillar skemmtunar......

En kvöldið var miklu skemmtilegra. Eftir að hafa ákveðið að taka því rólega vegna slappleika ákvað ég nú samt að fara downtown með Ástu. SanLiTun varð fyrir valinu og fengum við okkur indælis eldbakaðar flatbökur og kínverskan bjór. Eftir smá rölt um hverfið skelltum við okkur á The Bookworm, sem er kaffihús, bókasafn og bókabúð skellt saman í snilldar stað. Það slær á Súffista söknuðinn að koma þarna :-) Ég fjárfesti í bókinni um Mao eftir Jung Chang og Jon Halliday. Á hana reyndar heima og er búin að lesa hluta af henni. En ég skildi bókina eftir heima, fyrst og fremst því ég las í eh bókinni um Kína að hún væri bönnuð hér í landi en einnig varð ég að hemja mig hvað varðaði þyngdarmörk farangursins. Held að hún sé ansi góð viðbót við annað lestrarefni annarinnar. Hef reyndar fylgst með misjöfnum viðbrögðum manna heima á Íslandi við þessari bók eftir að hún kom út á íslensku. En það væri leiðinlegt ef allir væru alltaf sammála, ekki satt.......


Nýjar myndir!

Skellti nokkrum nýjum myndum af húsinu sem ég bý í og nánasta nágrenni þessi. Slóðin er http://picasaweb.google.com/lafdin

Kvef

Ég er með kvef og hef eiginlega engan húmor fyrir því. Það er frekar erfitt að vera með kvef og því viðkvæm lungu í einni af menguðustu borgum heims. Ég er búin að ganga um hnerrandi nonstopp í nokkra daga. Er orðin ansi þreytt á þessu ástandi. En ég get líklega kennt sjálfri mér um þetta. Reyndar hafa krakkarnir í kringum mig flest fengið kvef og væntanlega er ástæðan hitamismunurinn þ.e. að vera úti í miklum hitum og síðan inni í loftkældu húsnæði. En ég held að ég hafi fengið kvefið þegar ég ætlaði að hafa sama háttinn á og heima. Að sofa með opna glugga. Eina nóttina galopnaði ég gluggana í svefnherberginu til að fá svalan blæ á andlitið meðan ég svaf undir hlýrri, íslenskri sænginni. Málið var bara að það lék ekkert léttur, svalur blær um andlit mér heldur lá yfir mér eitthvað uppáþrengjandi, blautt og mengað andrúmsloft og ég var of syfjuð til að loka gluggunum. Morguninn eftir var ég komin með þetta yndislega kvef.......

Spriklandi fiskar

Áður en ég kom hingað var ég búin að heyra ýmsar sögur um matinn sem Kínverjar leggja sér til munns. Mér skilst að hér á veitingastöðum sé hægt að gæða sér á ýmsu góðgæti svo sem slöngukjöti, hundakjöti og sporðdrekum sem raðað er upp á tein. Ég hef svo sem ekki lagt mig mikið fram við að smakka þessa rétti. Ég hef meira bara verið að borða hrísgrjón, núðlur og það sem við í vestræna heiminum teljum vera venjulegt kjöt. En það er eitt sem ég hef tekið eftir og það eru sprelllifandi fiskar sem eru bæði til sölu í matvöruverslunum og eru á boðstólnum á veitingahúsum. Í matvörubúðinni minni eru stór fiskabúr full af lifandi matfiskum til sölu, tilbúnir beint í pottinn. Á veitingastöðunum er sama sagan, full fiskabúr af fiskum, svo horfið maður á starfsfólkið veiða fiskana upp, og oft er mikil barátta og gusugangurinn eftir því. Ég get bara ekki sagt að ég heillist mikið af þessu og hef lítið orðið var við löngun að skella einum lifandi fiski í pottinn eða panta mér fiskirétt á veitingahúsi. Reyndar þá fórum við krakkarnir í bekknum saman að borða í dag á einu veitingahúsinu í háskólanum. Þar horfðum við á starfsmennina veiða upp fisk, sem stuttu síðar var borinn fram á borðið okkar, steiktur í sterkri sósu og niðurskornu chillí. Þrátt fyrir það hversu sterkur hann var fann ég í gegn drullupollavatnsbragðið af fiskinum og leyfði því félögunum að gúmma honum í sig. Maður kemur nú ekki frá fiskveiðiþjóð fyrir ekki neitt.......

Prentarasagan ógurlega

Ég veit ekki alveg hvað er málið með mig og kaupin á prentaranum en það er bara ekki að ganga upp að fjárfesta í slíkum grip. Nú í fyrsta lagi þá er ég búin að vera í mestu vandræðum með að finna prentara til að kaupa því ég ætlaði að kaupa laser prentara og þeir bara varla fást fyrir macbook tölvur hérna. Ég er búin að þramma fram og til baka í þessum risastóru tölvubúðum og hef fengið vægast sagt misvísandi svör hvort þeir séu nothæfir fyrir macbook eður ei. Þessir söluaðilar sem gera ekki annað en að æpa á mig og toga í mig til að reyna að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél, ipod eða hvað það nú er virðast ekki getað hjálpað mér að finna nothæfan prentara.

Ekki nóg með þetta þá virðist eh óheppni elta mig í hvert skipti sem ég fer í prentaraleiðangur. Í gær lagði ég af stað reyndar til að kaupa internetsnúru en ákvað að kanna með prentara í leiðinni. Þegar ég er komin á áfangastað byrjar að rigna og þá meina ég sko rigningu, þrumur og eldingar og auðvitað var ég ekki með regnhlíf. Ég þurfti að hlaupa yfir stórt torg áður en ég kom í verslunina og þegar ég kom var ég algjörlega gegndrepa, þrátt fyrir að leigubílstjórinn hafi gefið mér plastpoka til að setja á hausinn á mér. Nú jæja eftir að hafa dundað mér við að skoða prentara í dágóða stund ákvað ég að tími væri kominn til að fara heim. Enn var grenjandi rigning og ég var hálf áttavilt þarna. Það sem hafði einnig gerst var að allir leigubílar höfðu gufað upp enda kominn tími þar sem flestir Pekingbúar voru á leið heim til sín. Ég byrjaði að labba og vonaði að ég myndi rekast á lausan leigubíl eða amk búð sem seldi regnhlífar. En nei ó nei enginn svoleiðis lúxus. Þetta var móment þar sem ég var ekkert of hamingjusöm yfir að vera hér í þessari stórborg. Loks sá ég lausan leigubíl, hljóp að honum himinlifandi og sagði bílstjóranum heimilisfangið. Nei hann hélt nú ekki og keyrði bara í burtu hrópandi Bú Bú Bú sem þýðir nei nei nei. Sem betur fer var ég ekki með neitt vopn, ég var í þannig skapi að ég hefði getað beitt því......

Að lokum fór nú allt vel og ég fann eðlilega bílstjóra sem keyrði mig heim. Ég get ekki líst því hvað ég var fegin að komast heim til mín úr rigningunni og öllum pollunum sem höfðu skyndilega myndast og gert skóna mína rennblauta.

Ég ákvað svo eftir skóla í dag að skella mér bara á bleksprautuprentara, er búin að gefast upp á laserprentaraleitinni. Ég rölti enn og aftur í tölvubúðirnar sem eru ca 15 mínútna gangur frá háskólanum. Eftir að ég var búin að ganga í ca 5 mínútur fór ég að finna að eh var ekki í lagi með skóna mína og uppgvöta að sólinn á vinstri skónum er bara eiginlega kominn í sundur. Ég hugsaði sem svo að hann hlyti nú að halda þessar 10 mínútur sem eftir voru. En jafnframt hugsaði ég með mér að gæði skóna væru nú ekkert æðisleg en hvað ég keypti þá á silkimarkaðinum fyrir eh slikk. En nei þegar ég átti um 100 m eftir þá vær þetta orðið vægast sagt pínlegt og ég eiginlega farin að ganga berfætt á götunni. Svo ég hafði bara einn kost í stöðunni og það var að hoppa upp í leigubíl.

Svo nú er ég orðin svolítið skeptísk á að halda þessum prentaraleiðangri áfram, ég meina hvað kemur fyrir næst......


Tóbaksbúðin í húsinu

Já það er hér tóbaksbúð á fyrstu hæðinni í húsinu mínu ásamt nokkrum öðrum verslunum svo sem lítilli matvörubúð, bakaríi, blómabúð og snyrtistofu. Ég hef nú skoðað mig um í öllum búðunum fyrir utan tóbaksbúðina en ég hef átt óttalega lítið erindi þangað. Hef horft inn í hana og séð þar fullar hillurnar af tóbaki, smekklega raðað í öllum regnboganslitum eins og vera ber. Reyndar hef ég horft oft inn í hana og þótt hún ansi stór og mikið velt fyrir mér hversu mikið úrval hér er af tóbaki, kannski ekkert skrýtið fyrir jafn stóra þjóð og Kína. En svo einn daginn rak ég augun í plakat sem hengt var á einn glugga verslunarinnar, mynd af sprautu! Nei hver andskotinn hugsaði ég ekki selja þeir dóp hérna, bara sí svona! Jú mikil ósköp en allt samt algjörlega löglegt. Jamm tóbaksbúðin selur ekki bara tóbak heldur er einnig apótek. Ekki amalegt það að geta farið í sömu verslunina og annað hvort keypt sígarettur eða nikótínlyf.......Ábyggilega ósköp þægilegt en nokkuð undarlegt fyrir mig Íslendinginn. Ánægð samt að hafa apótek í húsinu :-)

Næturlífið

Við skelltum okkur nokkur út á lífið í gærkvöldi. Byrjuðum á því að fara á veitingastað sem er þekktur fyrir góðar soðkökur (dumplings). Við fengum okkur soðkökur með mismunandi fyllingum svo sem eins og kjúklingi, eggjum og tómötum, svínakjöti og grænmeti. Einfaldur og alveg ótrúlega góður matur. Síðan var ferðinni heitið í hverfi sem heitir SanLiTun og er svokallað sendiráðshverfi. þar er urmull af börum og klúbbum þar sem vestrænt fólk er í miklum meirihluta. Við skelltum okkur á stað sem heitir Bar Blue og hafði upp á að bjóða stóra verönd á þakinu þar sem hægt er að sitja í ljúfu veðrinu og sötra kokteila. Það var nú ekki annað hægt en að skella sér á mojito :-) Á staðnum hittum við vin Niccola sem hefur unnið hér sem DJ og mælti hann með því að við færum á stað sem heitir Babyface. Það var upplifun að koma inn á Babyface, sjaldan hef ég séð annan eins glamúr. Það stirndi á alla skapaða hluti, veggirnir voru skreyttir með eh eins og frekar stórum jólakúlum sem raðað var í stóra ferhyrninga. Ég gerðist nú svo gróf að taka myndir á salerninu bara til að geta sýnt brot af glamúrnum. En tónlistin var góð og þjónustan mjög fín. Næstum því einn barþjónn á hvern gest, öryggisverðir gættu þess að fólk væri hvorki með glös né sígarettur á dansgólfinu og ef aðeins skvettist á dansgólfið var öryggisvörður mættur með vasaljós til að lýsa upp subbuskapinn meðan hann var þrifinn. Ansi ólíkt klístruðum og glerbrotum stráðum dansgólfunum sem maður þekkir að heiman. Sumir sátu við borð og höfðu pantað flösku sem greinilega var krafan. Við hittum tvo Kínverja sem endilega vildu bjóða okkur upp á drykk og var það viskí blandað með te. Alls ekki svo slæmt og held ég að þetta sé í fyrsta skipti sem ég gat klárað viskíglas. Stærsti hluti gestana voru kínverjar, þ.e. fyrir utan okkur og 2 stelpur sem dönsuðu uppá hátölurum á milli sem þær lögðu sig á sófum inni á salerninu. Eftir að hafa dansað þarna í nokkra klukkutímana var ákveðið að yfirgefa staðinn. Hluti hópsins ákvað að skella sér aftur í SanLiTun og fá sér kebab meðan ég og fleiri ákváðum að drífa okkur heim. Þegar heim var komið var nauðsynlegt að finna eh að borða og sáum við að lagði reyk upp úr pottum frá veitingahúsinu beint á móti blokkinni okkar. Við kíktum þangað og fyrir utan veitingastaðinn var verið að elda soðkökur. Við stóðum þarna í myrkrinu og hlýju veðrinu og fylgdumst með æfðum handtökum kvennanna sem voru að búa þessar kökur til. Þær sýndu ótrúlega flotta takta, deiginu rúllað upp og flatt út í litla kringlótta bita, í miðjuna var sett fylling úr kjöti, grænmeti og kryddi og svo mótað í fallegar kökur. Síðan var þeim raðað í gufusuðupotta sem var svo staflað saman og soðið í gufunni. Það var alveg magnað að fylgjast með þessu og auðvitað keyptum við okkur skammt. Þær brögðuðust sko aldeilis vel þessar soðkökur, algjörlega fullkominn endir á góðu djammi.

Ég læt örfáar myndir fylgja með ævintýrum kvöldsins svo þið fáið aðeins betri tilfinningu fyrir þessu. Slóðin er þessi: http://picasaweb.google.com/lafdin/


Og það rignir

Í dag hefur rignt næstum því stanslaust svo að þarfasta verk dagsins var að kaupa regnhlíf. Ég fór í skólann í dag með krökkunum til að kaupa ljósritin okkar fyrir tímanna um kínversk stjórnmál og utanríkisstefnu. Þegar því var lokið fengum við okkur klassískan kínverskan morgunverð sem eru risastórar pönnukökur með eggjum, sterkri sósu og graslauk. Eftir morgunmatinn drifum við okkur af stað í prentaraleiðangur þar sem við þurfum að prenta út staflana af greinum og öðru dóti af netinu fyrir tímana okkar. Við fórum í hverfi nálægt háskólanum sem er stútfullt af risastórum verslunum fullar af tölvudóti og öðrum tæknivörum. Við ætluðum að vera rosa klár og reyna að snúa á Kínverjana með því að bekkjarfélaginn okkar Sandy sem er hálfkínversk fékk vin sinn sem er kínverskur til að hitta okkur. Plottið var sem sagt að þau myndu labba um verslanirnar á undan okkur og við myndum ekki þykjast þekkja þau svo að við fengjum besta dílinn sem möguleiki væri á. Málið er nefnilega að það er endalaust verið að æpa á okkur útlendingana og fá okkur til að kaupa eh, hvað sem er. Plottið virkaði ágætlega og við náðum aðeins að plata kínversku sölumennina og fengum prentara á fínu verði, þ.e.a.s. allir nema ég því ég er með MacBook tölvu og það er eh óljóst hvaða prentara er hægt að nota með þeim. Ég verð að skoða það betur og ef eh hefur hugmynd um hvaða prentari passar best við MacBook má hinn sá sami láta mig vita.

Þar sem planið er að hittast kl. 8 í fyrramálið til þess að sækja um dvalarleyfi verður að fresta því að kanna næturlífið hér í borg sem mér sýnist á öllum túristabókunum að sé með líflegasta móti. Vonandi verður möguleiki á því annað kvöld. Mannfræðileg könnun sem verður að fara fram mjög fljótlega til þess að öðlast réttu innsýnina í mannlífið hérna, Ekki satt :-)


Kínverskunámið að hefjast

Eins og hefur komið hér áður fram á blogginu þá er ég þessa dagana eiginlega algjörlega mállaus í stórborginni Peking. Það setur sinn svip á lífið hjá manni og maður veigrar fyrir sér að koma sér í eh vandræði t.d. með því að panta mat heim til sín eða fara í banka með annað en mjög einfalda reikninga. Til lengdar er erfitt að lifa með þessum hætti og því bara um tvennt að velja að ráða sér túlk eða að drífa sig í kínverskunám. Það síðara hefur nú orðið fyrir valinu og hef ég ásamt 5 bekkjarfélögum mínum ráðið okkur kennslukonu í kínversku. Hún mun kenna okkur 3var í viku, samtals í 5 klukkustundir. Hún ætlar að koma heim til okkar og það eina sem við þurfum að gera er að kaupa krítartöflu og kennslubækur. Ég hlakka mikið til að hefjast handa og vonandi fer þá aðeins að rofna þessi ógurlegi tungumálaveggur sem hefur umlukið mann. Ég hef nefnilega þá trú að þá fyrst geti maður farið að upplifa hið raunverulega Kína og ég bíð virkilega spennt eftir því.

Lókal stemming

Fór og fékk mér kvöldmat með bekkjarfélögunum sem búa í sömu byggingu og ég. Hérna í nágrenninu eru ansi skemmtilegar götur sem við köllum "skítugu göturnar". Við þessar götur er fjöldinn allur af litlum búðum og veitingastöðum sem aðallega heimamenn sækja. Það er ekki nú verið að heilla túristana hérna. Við fórum og fengum okkur að borða á einum veitingastaðnum. Með okkur var Ryan sem talar ansi góða kínversku og pantaði hann fyrir okkur öll matinn. Aðalrétturinn voru grillspjót (hef reyndar ekki hugmynd um hvaða kjöt var á þeim), meðlætið var hrísgrjón, grænmeti, kjúklingaréttur og svo auðvitað kínverskur bjór á línuna. Allir borðuðu eins og þeir gátu í sig látið en fyrir máltíðina borguðum við í kringum 700 kr. fyrir 6 manns. Mjög góður matur og ótrúlega ódýr. Ég held að við séum búin að finna lókalinn okkar....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband