Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Vangaveltur um sorp

Ég er búin að vera í smá vandræðum með heimilissorpið hjá mér en það er þannig mál með vexti að það virðast ýmsir nágrannar mínir hafa mikinn áhuga fyrir að nýta það. Það gerist iðulega þegar ég fer með ruslið út að það er alltaf eitthvað fólk við ruslatunnurnar sem vill taka ruslið úr höndunum á mér í staðinn fyrir að ég hendi því ofan í tunnurnar. Ég verð að játa það að mér finnst þetta heldur óþægilegt, kann ekki alveg við að það sé fólk að gramsa í gegnum ruslið mitt og hvað þá þegar ég þarf að afhenda þeim ruslið svo það fari nú ekkert á milli mála. Mér finnst þetta eiginlega innrás inn í einkalífið mitt, ég vil bara hafa það fyrir mig hverju ég er að henda......En þá er það hin hliðin að er það ekki alveg í stakasta lagi ef að það eru einhverjir sem geta hugsað sér að nýta sér ruslið mitt sér til hagsbóta. Fólk sem hefur það kannski ekki alveg jafn gott og ég í lífinu? Ástæðan fyrir þessum pælingum mínum er sé að í gær fór ég út með pizzakassa sem innihélt nokkrar gamlar pizzasneiðar sem höfðu orðið afgangs hjá mér og ég hafði ekki lyst á þeim lengur. Nú þegar ég kem að sorptunnunum er þar gamall maður sem réttir út hendurnar eftir kassanum en ég var í einhverju uppreisnarskapi (venjulega rétti ég nú fólkinu bara ruslið mitt þegjandi og hljóðalaust) og henti ég kassanum beint ofan í tunnu og strunsaði út í búð. Þegar ég kom til baka mætti ég auðvitað karlinum (þóttist náttúrlega ekkert taka eftir því) þar sem hann stóð og hélt á pizzakassanum fyrir aftan bak. Jamm ég vona að hann hafi verið ánægður með pizzusneiðarnar því þótt ég verði svo sem ekki mikið vör við það hérna en þá er enn veruleg fátækt í Kína. Þrátt fyrir að lífskilyrði Kínverja hafi batnað mikið undanfarin ár þá er enn langt í land með að þetta verði allsnægtaþjóðfélag eins og við eigum heima. Svo maður verður bara að þola það að gramsað sé í sorpinu hjá manni.


Orðið nokkuð bókað á hótel Kollu

Það lítur út fyrir það að ég muni hafa nægan selskap á næstunni, ekki slæmt að fá nokkra gesti að heiman verð ég að segja. Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að ég verði með gesti frá 22. apríl  til 5. júní og svo þétt eru gestakomurnar að ég á eftir að leysa úr því hvernig ég á að þvo rúmfötin á milli en ég hlýt nú að finna eh góða lausn svona þegar nær dregur. Svo kemur smá pása í ca 2 vikur þar til að stuðsystur nokkrar láta sjá sig upp úr miðjum júní. En þetta er óskaplega skemmtilegur hópur sem kemur aldeilis úr mismunandi áttum hjá mér. Það verður sem sagt hægt að ræða allt milli himins og jarðar, svo sem pólitík, lögreglumál, strákamál og fjölskyldumál, ansi góð blanda ekki satt :-) Eins og hefur komið hér fram þá var Hrabba vinkona fyrsti gesturinn frá Íslandi sem heiðraði mig með komu sinni hingað og vil ég því henni til heiðurs skella inn einni mynd af okkur ásamt Körlu vinkonu minni, Judith frá Þýskalandi og Cynthiu frá Mexíkó en þær tvær síðastnefndu voru hér í heimsókn á sama tíma. Skelltum okkur á pizzastaðinn hérna handan við hornið og fengum okkur pizzu og margarítur eins og sjá má.

the pizza place


Ahhhhh vorið er komið

Loksins loksins er komið vor og það lítur út fyrir að það fari ekkert meira því að veðurspáin eins langt og hún nær lofar góðu veðri og hita í kringum 20 stig. Nú er alveg yndislegt að vera úti og fylgjast með hvernig gróðurinn vex og allt blómgast. Held að ég eigi eftir að heimsækja garðana hér í borg næstu vikurnar og spurning um að nota tækifærið og fara í picnic....oft.......oh ég elska vorið ;-)

Dægurmál

Það er nú bara allt rólegt að frétta héðan frá Peking. Er búin að nota síðustu daga til að koma mér almennilega í gang í nokkrum verkefnum. Skrapp með Ástu á The Bookworm í vikunni og var það hin ágætasta tilbreyting að vinna þar, fín aðstaða til að vinna í tölvu, bæði rafmagn og nettenging. Ég er alveg heilluð af þessum stað og er alls ekki verri en Súfistinn heitinn á Laugaveginum. Við fengum okkur svo kvöldmat á tælenskum stað sem heitir The Bananaleaf og var hann alveg ljómandi fínn. Rúsínan í pylsuendanum var mjög svo hreyfanleg hljómsveit sem gekk á milli borða og söng til gestanna. Ásta var nú búin að minnast á þetta áður að síðast þegar hún fór á þennan stað hefðu þeir komið á borðið hennar og sungið til hennar ástarlag og á meðan haldið í hendina á henni. Nema að auðvitað kom hljómsveitin að borðinu okkar og söng SAMA lagið sem var Hello með Lionel Richie. Þeir héldu þó ekki í hendurnar á okkur en horfðu djúpt í augun á okkur í staðinn. Frekar fyndið. Átti annars hið ágætasta spjall við hana Tönju sem er að hjálpa mér í kínverskunni. Við ræddum allt frá pólitíkinni hérna í Kína til þess hverjir eru heitustu gaurarnir hérna. Hún leiddi mig í allan sannleikann um hvaða leikarar væru flottir og einnig hvaða söngvarar væru heitastir. Mér finnst ótrúlega gaman að kynnast fleiri innfæddum hérna, heyra hvað þeim finnst og kynnast betur menningunni í gegnum þá. Tanya er mjög pólitísk og hafði sterkar skoðanir á hlutunum og langaði til að læra stjórnmálafræði en þar sem það er eitt erfiðasta fagið að komast inn í hér í landi gat hún það ekki og fór því í ensku í staðinn. Ég er þó ekki í nokkrum vafa um að það eigi eftir að gagnast henni vel því eins og hefur komið áður fram hjá mér þá tala ekki mjög margir ensku hérna. En þetta sýnir manni líka að aðgangur að menntun er ekki allsstaðar jafn auðveldur og heima. Til dæmis eru mjög margir S-Kóreubúar hérna í háskólanámi því það er svo erfitt að komast að í háskóla í S-Kóreu. Einnig get ég nefnt að þá las ég bók, "the Beijing doll" sem fjallaði um tilveru ungrar stúlku hér í Peking en hennar æðsti draumur var að komast í Pekingháskóla. Það var hins vegar mjög fjarlægur draumur.....Ekki alveg sama upplifun og hjá okkur sem finnst það nú hið minnsta mál að skrá okkur í HÍ......

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband