Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Fake þrumur

Þá er það komið á hreint að það er ekki bara selt hérna fake merkjadót og svoleiðis heldur voru fínu þrumurnar sem ég var að lýsa um daginn svo fjálglega og hvernig náttúran hreinsaði mengunarskýið og allt varð svo hreint og fallegt eftir þrumurnar og rigninguna, líka fake. Jamm Kínverjarnir hentu bara upp í skýin einhverju sprengiefni og framkölluðu þrumuveður til að hreinsa mengunina. Svona á sum sé að redda málunum, bara að búa til þrumuveður eins og ekkert sé. Þetta eru sem sagt trikkin sem á að spila fyrir ólympíuleikana. Maður veltir því nú fyrir sér hvort það sé búið að skoða hvaða áhrif þetta hefur á veðurkerfin í heiminum......Frekar ódýr trikk, held að það sé skynsamlegra að leita leiða til að minnka mengunina til framtíðar.....En svona til "gamans" til að sýna hvaða vanda Kínverjar þurfa að takast á við í mengunarmálum þá er talið að 800 nýir bílar bætist við umferðina í Peking á HVERJUM degi!!

Longqing, Badaling, Bodhi og Tapas

Svona hljómar gærdagurinn í hnotskurn. Ég og Ásta ákváðum að skella okkur út fyrir bæjarmörkin að njóta náttúrunnar. Upphaflega var þetta plönuð ferð á vegum Íslendingafélagsins en það þurfti að fresta henni um síðustu helgi vegna veðurs en við ákváðum bara að drífa okkur. Leigðum bíl með bílstjóra og P1000580P1000584kærastan hans kom líka með. Við lögðum af stað um tíuleytið og áfangastaður var Longqing ca 80 km fjarlægð. Þegar við komum á staðinn var ákveðið að borða hádegismat og létum við einhverja kellu draga okkur á veitingastað þarna nálægt. Við pöntuðum núðlur með eggjum annars vegar og kjúkling hins vegar. Við fengum eggjaköku og soðinn kjúkling og núðlur mun seinna. Fyrir þessi dásamlegheit fengum við að borga 3.000 kr. fyrir fjóra, margfalt dýrara en á veitingastað í Peking. Sem sagt rænd um hábjartan dag. Ekki alveg til að kæta okkur. Síðan drifum við okkur upp í fjöllin í rúllustiga í drekalíki. Mjög áhugavert en þegar upp var komið skelltum við okkur í siglingu um mikið gljúfur þarna þar sem siglt var á milli P1000599P1000612P1000633þverhníptra falla. Mjög fallegt enda veðrið alveg æðislegt, blár himinn og ekki ský á himni. Eftir siglinguna var ákveðið að fara að Badaling en það er hluti af Kínamúrnum, eiginlega mesti túristastaðurinn vegna nálægðar við Peking. Við létum það ekki á okkur fá og fórum upp að múrnum í kláf og löbbuðum svo niður. Þetta er nú held ég það mesta tröppuþrek sem ég hef lent í, endlausar tröppur, mis háar, annað hvort labbar maður upp eða niður oft mikinn bratta. Á leiðinni varð maður fyrir ósvífnum árásum sölufólks en einnig vildu kínverskir túristar endilega fá mann til að vera með þeim á myndum sem þeir voru að taka, mjög spes, en hvað getur maður sagt, svo sett var bara upp sparibrosið.....En já P1000646P1000653P1000672þetta var frábært, fallegt veður og enn fallegri náttúra á þessum sögulega stað. Þegar göngunni var lokið lá leiðin aftur til Peking. Við ákváðum að skella okkur í Sanlitun og fara í nudd eftir útiveru dagsins. Í þetta skiptið ákvað P1000668P1000669ég að fara ekki í kínverskt nudd enda er ég enn aum eftir síðustu meðferð. Í staðinn var valið olíunudd enda ágætt þar sem kuldinn hér er farinn að þurrka á manni húðina allverulega. Algjör dásemd að láta nudda auma vöðvana og þreytan leið úr manni. Reyndar kom það ekki í veg fyrir harðsperrur því ég á frekar erfitt með gang í dag, ehemm. En að loknu nuddi fórum við á tapasveitingastað til að losa okkur við tilhugsunina um dýra og vonda mat hádegisins. Fengum nokkra litla ljúfa tapasrétti og gott rauðvín með. Var komin heim um miðnætti alveg endurnærð á sál og líkama. Í dag er það svo bara lærdómurinn sem blívur fyrir utan að ég er boðin í mexíkanskan mat hjá Körlu, mexíkönsku mærinni kl. 16.

Bannað að eignast systkini

Pistill birtur í Fréttablaðinu 3. nóvember 2007 
 
DSCN2848Það er ekki annað hægt en að velta fyrir sér kynslóðunum sem munu taka við þessu fjölmennasta landi í heimi. Börnin sem eru að alast upp í Kína eru einu börnin í heiminum sem búa við þau örlög að þeim er bannað með lögum að eignast systkini. Þau eru fórnarlömb þess að stjórnmálamenn landsins reyna að stemma stigu við fólksfjölgun með svokallaðri eins barns reglu, en um 20 milljón börn fæðast árlega í Kína. Það hefur vakið athygli mína hversu afslappaðir foreldrar virðast vera vera hér varðandi öryggi barna sinna miðað við íslenskan mælikvarða. Hér er mjög algengt að sjá börn í fangi foreldra sinna í framsætum í bifreiðum, börn eru reidd í kerrum aftan á hjólum algjörlega án alls öryggisbúnaðar og stærri börn sér maður svo standa aftan á bögglaberum á hjólum foreldra sinna í þeirri brjáluðu umferð sem er hér alla daga. Það sem kemur manni kannski undarlegast fyrir sjónir hérna varðandi barnauppeldi er sérstök hönnun barnafata, þar eð barnabuxna. Smábörn ganga hér í buxum sem hafa langsum gat eftir rassinum og eru þau látin gera þarfir sínar þar sem þau eru stödd í það skiptið. Foreldrar taka þau í fangið og þau er látin pissa og kúka næstum því hvar sem er. Það þykir ekki sýna mikla umhyggju ef foreldrar nota bleiur. Verstar eru pappírsbleiurnar því ef þær eru notaðar er það merki um að foreldrarnir nenni ekki að hugsa um börnin sín, taubleiur eru skárri en sýna engu síður hirðuleysi foreldranna. En frá praktískum sjónarmiðum má ætla að það yrði ansi þung byrði fyrir umhverfi heimsins ef allir foreldrarnir hérna notuðu pappírsbleiur. Eins og áður hefur komið fram mega kínverk pör aðeins eignast eitt barn og þótt efnameira fólk sé farið að brjóta þessar reglur og greiða í staðinn sektir fyrir að eignast fleiri börn eignast flestir aðeins eitt barn. Þetta veldur því að gamalgrónu venjurnar sem ríkja hér um að börn eigi að sjá fyrir foreldrum sínum, sérstaklega strákarnir, hefur aukið áhyggjurnar um framtíð barnanna. Áður fyrr voru það mörg systkini sem deildu byrðinni en nú er það einungis eitt barn sem verður að sjá fyrir foreldrum sínum ásamt sinni eigin fjölskyldu. Jafnrétti kynjanna hefur farið aftur í Kína frá því sem var á tímum Maós. Sem dæmi má taka að engin kona er í æðstu stjórn Kommúnistaflokksins sem ræður mestu um málefni landsins. Einn af kennurum mínum við háskólann í Peking kom með áhugaverða kenningu. Hann telur að áhrif kvenna muni aukast til mikilla muna í kínverska þjóðfélaginu í framtíðinni vegna eins barns reglunnar. Ástæðan er sú að drengir séu ofverndaðir af foreldrum sínum. Þeir fái ekki einu sinni að slást lengur því þeir eru foreldrum sínum svo dýrmætir. Hins vegar séu stúlkur hvattar til dáða af foreldrum sínum og verði þær því mikið betur í stakk búnar til að takast á við lífsbaráttuna en drengirnir og þetta muni skila stúlkunum valdamiklum stöðum þegar til framtíðar er litið

Nýja vinkonan mín

Ég þurft að skreppa á Silkimarkaðinn fræga í dag og kaupa mér hlýjan jakka. Eftir að ég var búin að sinna því erindi var ég að rölta mér til gamans í skó-og töskudeildinni. Allt í einu hoppar á mig sæt kínversk stelpa og segist endilega vilja selja mér tösku. Hún sagðist hafa fengið þá tilfinningu þegar hún sá mig að við ættum að verða vinkonur. Já ég horfði á hana ósköp indæla með fallegu skásettu augun sín máluð með fjólubláum augnskugga og glimmeri og velti því fyrir mér hvað vakti fyrir henni. Hún leit ofan í pokann minn og sagðist eiga eins jakka og vildi fá að vita hvað ég hefði borgað fyrir hann. Hún sagði að ég hefði fengið mjög fínt verð, hún hefði bara fengið hann aðeins ódýrari og væri hún starfsmaður þarna. Eftir að hún hafði sýnt mér nokkrar töskur ákvað ég að kaupa tösku hjá henni til að nota í skólann. Við vorum búnar að spjalla svoldið saman á meðan ég var að skoða töskurnar hjá henni og var hún alveg óskaplega spennt yfir að vera vinkona mín. En svo hófst prúttið og var ég ekkert til í að gefa eftir þótt við værum vinkonur og að hjartað hennar væri að bresta yfir þessu lága verði sem ég bauð í töskuna. Að lokum gaf hún eftir ansi súr á svipin. Sagði samt þegar ég var búin að borga að við myndum halda áfram að vera vinkonur. Ég reyndar hef efasemdir um að vinskapurinn muni halda eftir þessi viðskipti......

Halloween boð

Ég fór í gærkvöldi í Halloween boð hjá Axel og Guðnýju. Axel var bjargvætturinn minn mikli í haust þegar ég þurfti að leysa úr hinni óleysanlegu þraut að borga skólagjöldin mín hér í borg. Þetta var hið skemmtilegasta boð. Fyrst að sjá alla krakkana í hverfinu klædda upp í búninga og banka upp á og biðja um trick or treat. Ábyggilega alveg jafn flott og í Ameríku. Félagsskapurinn var frábær, gaman að koma og hitta landana og spjalla um það sem er á döfinni heima á Íslandi. Maturinn var mjög góður og toppaður með ekta amerísku pumkinpæi sem smakkaðist frábærlega. Sum sé óskaplega næs íslensk kvöldstund.

Chinese Body Massage

Eftir skólann í dag skellti ég mér í nudd, ákvað að prufa nú kínverskt nudd. Bókaði tíma í klukkustund. Það er alveg einstaklega næs að koma þarna, algjör rólegheit, indæl sítrónulykt, kósý og hlýtt, manni líður eins og í austrænum ævintýraheimii. Ég skellti mér í nuddgallann og beið svo spennt eftir að nuddarinn byrjaði. Það var nuddari nr. 61 sem nuddaði mig og eftir ca 1 mínútu sagði hann, hvað bókaðir þú langan tíma, ha ég, 60 mín. Já það dugir ekki sagði nuddarinn, bakið á þér er í rúst, mæli með 120 mín. Já já ég geri það þá. Guð minn almáttugur, þetta var ekki gott, þarna kvaldist ég á bekknum í 2 klukkutíma, gat engan veginn notið huggulegheitanna, eina sem komst að hjá mér var sársaukinn við þessar pyntingar. Ég var kramin, toguð og teygð, eyrun á mér voru meira að segja nudduð. Jamm ég hélt þetta út í þeirri trú að ég verði ný og betri manneskja. Eftir að ég kom heim hefur mér liðið eins og bakið á mér sé allt marið og blátt, enn sjást nú reyndar engir marblettir, marið verður kannski komið út á morgun....En ég er strax búin að bóka annan tíma.....

Hinn dásamlegi Pan Wei

EjQq7pld6T8Tx7Hz57Jg1fZdQPEAZ1mmPrófessor Pan Wei hefur verið að kenna okkur um kínverskt samfélag og kínverska pólitík. Hann hefur vægast sagt verið umdeildur innan bekksins fyrir skoðanir sínar og eru það ófá skiptin sem við höfum rætt um prófessor Pan. Hann stúderaði í Bandaríkjunum og eh í Evrópu líka. Hann er ótrúlega ögrandi og setur fram skoðanir sínar án þess kannski að rökstyðja þær eh sérstaklega vel. Það er nú það sem hefur verið mest pirrandi við hann. Mér hefur að mestu leyti líkað vel við hann því ég hef haft gaman að því hvernig hann hefur ögrað okkur og rakkað vestrið niður ansi vel á stundum. Bandaríkjamennirnir hafa átt ansi erfitt og hafa stundum verið næstum því froðufellandi af ergelsi. Í dag var síðasti tíminn hjá honum og eh hafði hann misreiknað tímann sinn og þurfti því að fara yfir 2 umfjöllunarefni í einum tíma, sem sagt á tvöföldum hraða. Umfjöllunin var um Kína í nútímanum og framtíðinni. Ekki mjög einfalt en þá má segja að hin frostkalda skólastofa okkar hafi skyndilega hitnað all mikið í umræðunum í dag. Já þegar Pan Wei hélt því fram að aðgangur að upplýsingum væri alveg ásættanlegur hér í Kína.Það væri hægt að fá upplýsingar um allt, bara ef þú VIRKILEGA vildir það.....Já einmitt, kannski fyrir velþekktan prófessor sem ferðast um allan heiminn, hittir fullt af spennandi fræðimönnum og tekur þátt í alls kyns ráðstefnum og heldur fyrirlestra. En hvað um meðalmanninn, hinn kínverska "Jón"?? Nei hann hefur ekki aðgang að þeim upplýsingum sem hann vill, langt frá því. Maður kemst ekki einu sinni inn á Wikepedia hvað þá annað. Eftir að hitastigið í tímanum var komið á hættulegt stig varð prófessor Pan að viðurkenna að jú kannski mætti nú bæta aðgengið að upplýsingunum......Þarna gekk hann heldur langt, gott að halda á lofti skoðunum um ágæti Kína og gagnrýna vestrið en að vera í afneitun um staðreyndir sem blasa við þér í þínu samfélagi gengur nú ekki alveg, sérstaklega ekki hjá háskólaprófessor.....Mig langar samt svoldið að skrifa mastersritgerðina mína hjá honum.....veit ekki, þarf að hugsa það betur.

Bætt starfsumhverfi kínverskra verjenda

Ný samþykktar breytingar á lögum um lögmenn hér í landi sem kveða á um réttarbætur til handa verjendum taka gildi í júní 2008. Í þessum breytingum felast meðal annars heimildir fyrir verjendur að hitta sakborninga eftir yfirheyrslur en nú um stundir er það algjörlega undir lögreglunni komið hvort verjendur geti hitt skjólstæðinga sína eður ei. Þá verður bannað að hlera samtöl verjenda og skjólstæðinga þeirra. Jafnframt eiga verjendur rétt á aðgangi að öllum gögnum er varða málið, geta aflað gagna sjálfir eða farið fram á að lögregla og ákærendur geri slíkt. Þessar nýju reglur munu breyta starfsumhverfi verjenda svo um munar en hingað til hafa lögmenn hikað við að taka að sér sakamál vegna þess hve erfitt hefur verið að vinna að málinu þar sem aðgangur að sakborningi og gögnum hefur verið erfiður og háður geðþótta yfirvalda. Það hefur valdið því að þeir hafa átt í mestu erfiðleikum með að vinna vinnuna sína þ.e. að verja málstað skjólstæðinga sinna. Þá hafa lögmenn einnig hikað við að taka að sér sakamál vegna hættunnar við að lenda upp á kant við yfirvöld en í nýju lögunum eru einnig ákvæði sem tryggja að það að ekki er hægt að ákæra verjendur fyrir skoðanir eða athugasemdir sem fram koma í réttarhöldum nema að um sé að ræða ógn gegn þjóðaröryggi eða ærumeiðingar.

Fallegt veður

P1000570Mengunin sem hékk hér yfir borginni í fyrradag var hreinsuð í burtu með stæl í gærkvöldi. Það komu þvílíkar þrumur og eldingar og auðvitað fylgdi grenjandi rigning eins og vera ber. Eiginlega elska ég þrumur og eldingar þar að segja þegar ég er innan húss. Mér finnst krafturinn sem náttúran sýnir með þessum hætti alveg mögnuð. Afleiðingar veðursins komu svo fram í morgun mjög bjart og fallegt veður svo að útsýnið var alveg sérstaklega gott. Ég tók mynd af útsýninu úr herbergisglugganum í dag og eins og sjá má er ekki langt í náttúruna.

Litið ofan í matarkistu Pekingbúa

Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 27. október 2007

P1000535Peking er mjög alþjóðleg þegar kemur að framboði af veitingastöðum enda er giskað á að meira en 60.000 veitingastaðir séu hérna. Það er liðin tíð að þú getir ekki fengið magafylli þína nema að borða hvítkál eða hrísgrjón með prjónum. Mikill fjöldi veitingastaða býður upp á mat frá öllum heimshornum. Sem dæmi má nefna ítalska staði, ameríska, franska, japanska, arabíska, víetnamska, þýska, kóreska, taívanska og fleiri mætti upp telja. Gróskan er mikil og vikulega heyrist af nýjum stöðum opna en af öðrum sem eru að loka eða færa sig um set. Margir af þessum stöðum eru mjög hipp og kúl og standast algjörlega samanburð við flotta veitingastaði í öðrum stórborgum. Þessir staðir bjóða almennt upp á matseðla á ensku en það sama verður ekki sagt um kínversku veitingastaðina. Hér er auðvitað engin vöntun á veitingastöðum sem bjóða upp á heimamat frá mismunandi héruðum Kína og jafnframt er mismunandi mikið lagt í matinn og útlit staðanna. Eins og áður sagði eru matseðlarnir sjaldnast á ensku en ef þú ert heppin(n) eru myndir af réttunum á matseðlunum. Það getur því verið erfitt að panta sér mat ef hvorki eru myndir af réttunum né starfsfólk sem skilur ensku en þá er bara að benda á girnilegan rétt á næsta borði eða treysta á lukkuna. Kínverjar fara mikið út að borða og er mikið af látlausum stöðum sem bjóða uppá heimilislegan mat eins og soðkökur. Ekki er hægt að ræða um mat í Peking án þess að minnast á pekingönd. Það eru margir staðir sem bjóða upp á þennan sérrétt Pekingborgar. Stökk að utan en mjúk að innan er öndin borin fram með pönnukökum og plómusósu. Á fínni veitingastöðum er gæðavottorð borið fram með öndinni þar sem númer hennar kemur fram. Í Peking er mikil götumatarmenning. Á morgnana er vinsælast að fá sér stökkar pönnukökur með steiktu eggi, lauk og kryddi og er þessu skolað niður með sojamjólk. Annars er götumaturinn árstíðabundinn og nú að haustlagi er algengast að sjá bakaðar sætar kartöflur, soðinn maís, ristaðar kastaníuhnetur, sykurhúðuð ber og mandarínur á spjótum. Að versla hérna í matinn er ævintýri en það getur tekið virkilega á. Það er varla nokkur hlutur sem er merktur á ensku, hvað þá að upplýsingarnar um matvörurnar séu skiljanlegar. Hilla eftir hillu fullar af sojasósu hjálpar manni ekki að velja sojasósu þegar þú skilur ekki hver munurinn á þeim á að vera. Einnig er erfitt að finna pakkningar af hrísgrjónum sem eru minni en 5 kílóa. Þá er óendanlega mikið af vörum sem líta skringilega út, merktar á kínversku svo maður getur staðið heillengi yfir þeim og reynt að ímynda sér hvað þetta getur eiginlega verið og hvernig eigi að nota þær í matargerð. En svo leynast kunnuglegar vörur inni á milli eins og 2 tegundir af súkkulaði, Snickers og Kit Kat. En þess má geta að vestrænar matvörur eru hér glæpsamlega dýrar, sem dæmi má nefna að pakki af hrökkbrauði kostar allt að 250 kr. Allir stórir matvörumarkaðir sem ég hef komið hér inn í hafa að geyma fiskabúr full af sprelllifandi matfiskum, en það gerist nú ekki mikið ferskara en það. Einnig hef ég orðið vör við þetta á veitingahúsum og hef ég upplifað það að fá reidda fram á borðið mitt rækju á spjóti enn hreyfandi alla anga. Ekki er hægt að skrifa um mat í Peking án þess að minnast á ýmsan furðulegan mat sem hér er á boðstólum. Hægt er að gæða sér á grilluðum sporðdrekum og snákum, skjaldbökukássum og auðvitað hundakjöti. Ég rakst einnig á svokallaðan "hotpot" veitingastað sem er með á matseðli sínum getnaðarlimi apa og dádýra. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og matgæðingar verða ekki fyrir vonbrigðum hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband