Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Tími fyrir te

P1000567Það eru akkúrat 2 mánuðir síðan ég kom hingað til Peking og tími til kominn að skoða þá menningu sem Kína er einna þekktast fyrir, te menninguna. Ég fór í dag og fjárfesti í fallegu tesetti úr handmáluðu postulíni. Maður verður nú að taka þetta alvarlega ekki satt. Eftir að hafa stúderað svolítið þær tegundir af tei sem til eru ákvað ég að skella mér á Wulong te oft einnig kallað oolong te. Þetta te á rætur sínar að rekja í Fujian héraðið hér í Kína og á sér langa sögu. Framleiðsluferlið er nokkuð langt og flókið, það þarf að tína telaufin á heiðskýrum degi, margar mismunandi tegundir laufa, síðan eru þau sett inn í hús og hálfgerjuð þannig að 30% laufanna eru rauð en 70% græn. Þá eru þau nudduð til að fá fram bragð og lykt og að lokum eru laufin þurrkuð á kolum. Þegar framleiðslan er tilbúin þarf svokallaður te meistari að meta gæði tesins en til að mynda eru aðeins 20 slíkir te meistarar í Fujian héraði. Ekki nóg með að þetta sé mjög bragðgott te heldur er þetta hollasta teið samkvæmt margvíslegum rannsóknum sem hafa verið gerðar. Með því að drekka nokkra bolla af Wulong tei á dag er þér lofað eilífri æsku, grönnum líkama, betri húð-og tannheilsu og ekki síst á teið að vera kröftugt andoxunarefni sem ver þig fyrir helstu lífstílssjúkdómum númtímans. Sem sagt alls ekki slæmt að gera tedrykkju að daglegum sið.

Miðstýrður hiti

Það er nú svo hér á bæ að það verður ekki settur neinn hiti á húsið sem ég bý í fyrr en 15. nóvember næstkomandi. Fer ekkert eftir því hvenær kólnar hérna, nei nei, ef það verður kalt áður þá verður mér bara að vera kalt. Og í dag er búið að vera kalt úti svo að það er búið að vera kalt í íbúðinni í allan dag sem hefur þýtt að ég hef þurft að fara undir sæng reglulega með Mao´s China and after. Jamm maður getur bjargað sér hér heima en það er ekki alveg hægt að segja það sama um skólann. Er ekki viss um að kennararnir hefðu húmor fyrir því ef ég mætti með sængina mína í tíma. Reyndar verður skrúfað frá hitanum viku fyrr þar en ástandið er orðið frekar slæmt í skólastofunni minni. Húsið er byggt úr steini, það skín engin sól inn í skólastofuna svo eiginlega erum við alltaf að frjósa úr kulda þarna inni, í raun er miklu kaldara inni en úti. Og afleiðingarnar láta ekki á sér standa, svona ca helmingurinn af bekknum er alltaf að drepast úr kvefi. Veðrið hefur nefnilega verið svoldið snúið, kalt á morgnana en svo fínn hiti yfir daginn svo maður verður að klæða sig í mörg lög af fötum.

Tilfinning fyrir rými

Það má nú aldeilis segja það að fólk hér um slóðir hafi öðruvísi tilfinningu fyrir rými og líkamlegri snertingu en maður á að venjast. Þegar einhver rekst hér utan í þig er aldrei sagt "afsakið" ég eiginlega efast um að fólk taki almennt eftir slíku. Ég hef áður rætt um troðninginn í strætó, en Ariele vinkona mín reyndi trikkið þeirra hérna um daginn, þ.e. að láta loka hurðinni á afturendann á sér en ekki fór betur en að þeir lokuðu á fótinn á henni og hún æpti upp af sársauka en enginn þóttist taka eftir neinu.
Síðan er nokkuð merkilegt að hér er mjög algengt að stúlkur haldist í hendur, það er ekkert merki um að þær séu samkynhneigðar heldur bara merki um vinskap. Eiginlega sé ég mikið oftar stelpur haldast í hendur eða utan um hvor aðra heldur en pör. Hins vegar tekur maður eftir því varðandi pör er að helsta merki þess að strákur og stelpa séu í sambandi er að strákurinn heldur á handtösku stelpunnar. Ég hef reyndar líka tekið eftir því að karlmenn halda oft utan um hvorn annan, t.d. þegar ég fór og fylgdist á torg hins himneska friðar á þjóðhátíðardag þeirra sá ég mikið af karlmönnum, tveir og tveir halda utan um hvorn annan meðan beðið var eftir því að kínverski fáninn væri dreginn að húni. Já það er margt öðruvísi hér en þeim finnst t.d. skrýtið að kyssast á kinnar þegar fólk heilsast eins og okkur finnst hið eðlilegasta mál.....

The Tudors

tudorsAlveg týpískt fyrir mig að verða húkkt á einhverju sjónvarpsefni akkúrat þegar ég ætlaði að vera svo dugleg að læra. Ég fjárfesti í fyrstu seríunni af the Tudors í gær og þrátt fyrir að yfirbragð þáttanna sé heldur í miklum sápuóperustíl þá hef ég endalaust gaman af þessu tímabili í sögunni. Hinrik áttundi var ansi litríkur konungur og auðvitað ekki síður afkomendur hans. Ég sit alveg stjörf yfir þessu, sigrunum, plottunum, svikunum og annarri huggulegri pólitíkHalo. Hlutirnir hafa svo sem ekki mikið breyst jú kannski fyrir utan það að nú um stundir eru keppinautarnir í pólitík teknir af lífi í fjölmiðlum en ekki hálshöggvnir af böðlum. Einnig merkilegt hvað það virðist oft drífa pólitíkusa áfram þráin eftir því að verða ódauðlegur en samkvæmt þessum þáttum virðist það hafa verið aðal málið hjá þessum fræga konungi Englands. Tískan frá þessum tíma hefur líka sinn sjarma, karlmenn í sokkabuxum eða brynjum og konur hlaðnar skartgripum í þessum þungbúna og dökka miðaldastíl heillar mig.Smile Já svo eiginlega hef ég ekkert rosalega mikinn tíma til að blogga, Hinrik og kó þurfa að hafa athygli mína óskipta........

Kínverskur veruleiki

P1000497Eins og hefur nú komið áður fram hjá mér þá finnst mér það frábært tækifæri að dvelja hér í Kína og læra meðal annars kínverska sögu og pólitík. En það sem er einna skemmtilegast er að heyra persónulegar reynslusögur heimamanna. Í morgun var tími í kínverskri stjórnmálafræði og kennarinn okkar Pan Wei sagði okkur ansi áhugaverða sögu af sjálfum sér. Þegar hann var ungur kennari við háskólann í Peking fór hann í sendiför á vegum utanríkisráðuneytisins til Singapore. Þetta var á níunda áratugnum og í fyrsta skipti sem hann fór í flugvél. Hann dvaldi þarna ásamt sendinefnd frá félagsvísindadeild háskólans. Á meðan á dvölinni stóð fékk hann 70$ á dag í vasapeninga en gestgjafar borguðu fyrir hann matinn og gistingu svo að hann gat lagt peningana að mestu fyrir. Þegar hann kom heim til Peking aftur var hann forríkur maður og gat keypt sér bæði litasjónvarp og myndavél. Hann hafði haft upp úr krafsinu það sem hefði annars tekið hann 25 ár að vinna sér inn því mánaðarlaunin hans voru 70 yuan sem er að verðgildi í dag tæpar 700 kr. Þessi litla saga sýnir manni hvað mikið hefur breytst hérna síðustu 20 árin og þessar kynslóðir sem stjórna Kína í dag hafa aldeilis séð tímana tvenna í heimalandi sínu. Mikið hefur breyst síðan að þessi maður réði hér ríkjum.

Jólastemming

snjokorn Í gær og dag hafa jólin einhvern veginn minnt á sig, enda styttist svo sem óðum í þau.Smile Í gær var ég á Starbucks, já maður fær stundum löngun í eitthvað vestrænt hérna skal ég segja ykkur, en hvað um það, ég fékk mér kaffi og þegar ég sáldraði smá kanel á lattið mitt þá allt í einu fékk ég þessa jólatilfinningu. Svo í dag er ég búin að vera heima í rólegheitum að læra og fékk mér mandarínu og þá kom aftur yfir mig þessi tilfinning. Það er ekki eins og það sé eitthvað sem minnir hér á jólin annars enda ekki haldið upp á þau hér. Kínverjar eru til dæmis með jólaskraut allan ársins hring, amk á veitingastöðum er ekki óalgengt að loftin séu skreytt með marglitu jólaskrauti. Ég veit ekki hvort það gildi það sama um kínversk heimili enda lítið komið inn á þau enn sem komið er. 

Hraðar breytingar

P1000555Ég stóðst ekki mátið að setja inn þessa mynd sem ég tók í dag í götunni fyrir framan heimili mitt.  Það er svo magnað að sjá hvernig gamli og nýji tíminn hér togast á. Á götunum eru hestavagnar og svo taka framúr þeim glæsikerrur svo sem BMW eða AUDI. Það sýnir manni hvað Kína er að breytast hratt og hvað það er stutt síðan að gamli heimurinn réði hér ríkjum. 

Í trássi við lögguna

Ég skellti mér í ræktina í morgun, um leið og ég kom út sá ég að það var ekki alveg allt með felldu, öll umferð var stopp. Þegar ég kom að stóru gatnamótunum sem eru hérna nálægt sá ég hvað var um að vera, það var verið að hlaupa maraþon. Í dag var ábyggilega alveg ágætt að hlaupa, bjart og fallegt veður og nokkuð frískleg gola en hvernig þetta verður í ágúst á næsta ári fyrir íþróttamennina sem keppa á ólympíuleikunum verður áhugavert að vita, þegar hitinn er miklu meiri og mengunin erfiðari fyrir vikið. Þeir eiga ábyggilega allir eftir að keppa með andlitsgrímur. En jæja ég rölti að næstu gatnamótum en þar er ræktin mín staðsett og þá vandaðist nú málið. Það var ekki hægt að fara yfir gatnamótin því enginn mátti trufla hlauparana. Löggan stjórnaði þarna harðri hendi uppstríluð í sparibúninguum með hvíta hanska og rak alla öfuga í burtu sem dirfðust að ætla yfir gatnamótin. Og aldrei þessu vant þá hlýddu allir skipununum annað heldur en venjulega í umferðinni þegar ökumenn keyra yfir á rauðu eins og ekkert sé. Ég hafði nú ekki alveg húmor fyrir þessu, komin í leikfimisgírinn svo að ég þessi löghlýðna manneskja sem vann við það í mörg ár að passa upp á að fólki væri refsað ef það fór ekki eftir lögunum, bara skellti skollaeyrum við þessu banni löggunnarPolice. Ég laumaði mér á milli bílanna, labbaði svolítinn spotta eftir götunni og hljóp yfir hinn heilaga helming götunnar þar sem hlaupið fór fram. Ég er ekki frá því að ég hafi lagt mig extra mikið fram í leikfiminni þar sem ég hætti svo miklu fyrir að komast þangað! Segið svo að maður taki ekki heilsuræktina alvarlega......

Þjóðarátak Kínverja í mannasiðum

Pistill birtur í fréttablaðinu 20. október 2007

P1000441Að búa í landi eins og Kína sem hefur að geyma jafn ólíka menningu frá því sem ég þekki heima á Íslandi hefur ýmisleg áhrif á mann. Það sem fólki hér finnst vera hinn eðlilegasti hlutur getur manni þótt hinn argasti dónaskapur. Það verður að játast að margt hefur komið mér hér spánskt fyrir sjónir og ég hef oft orðið undrandi, móðguð eða sprungið úr hlátri varðandi hegðan fólks hérna. Það eru þó nokkur atriði sem standa upp úr. Fyrst er að nefna hina miklu áráttu þeirra að hrækja út um allt og hvenær sem er. Þeir hrækja vægast sagt ekki á penan hátt heldur er það gert með miklum tilþrifum og hljóðum. Þú heyrir hvernig þeir byrja á að ræskja sig alla leið neðan úr maga, vel hreinsað alla leiðina upp og síðan er hrækt út úr sér mjög svo huggulegum slummum. Þetta gera allir hérna og ég hef jafnvel heyrt lýsingar á því hvernig þeir hrækja í lyftum og í eldhúsum á veitingastöðum. En ég ætla nú ekki að selja það dýrara en ég keypti og hef ekki haft geð í mér til að kanna það sjálf. En sem sagt það eru ekki aðeins gamlir karlar í bæjarferð úr sveitinni sem gera þetta heldur einnig hinar huggulegustu dömur, jafnvel uppáklæddar í kjóla og háhælaða skó sem víla ekki fyrir sér að hrækja beint á götuna eða hvar sem þær eru staddar. Þá er það hvernig Pekingbúar troðast bara áfram án þess að taka nokkurt tillit til annarra og fyrirbæri eins og biðraðir eða sá sem fyrstur kemur fyrstur fær er vægast sagt ekki í hávegum haft. Ósjaldan hefur maður orðið illa fyrir barðinu á þessari venju þar sem fólk treðst fram fyrir mann án þess að blikna. Til þess að lifa svona af verður maður bara að troðast líka annars gæti maður bara staðið í sömu sporunum heilan dag án vandkvæða. Hinar miklu reykingar hér í borg geta líka reynt á taugarnar en þeir reykja mjög mikið og taka almennt ekkert tillit til þess hvort um reyklaust svæði er að ræða eða ekki. Hvað þá að þeir séu eitthvað sérstaklega að spá í hvar þeir henda stubbunum. Borðsiðirnir eru líka ansi ólíkir því sem maður á að venjast svo sem eins og að spýta út úr sér kjúklinga- eða fiskibeinum beint á matarborðið. Eftir máltíðarnar liggja svo bein og annað eins og hráviði út um allt borð. Nokkur umræða hefur verið í kínversku samfélagi um mannasiði þegnanna og hefur hún verið sérstaklega áberandi eftir að Kínverjar fóru að undirbúa Ólympíuleikana að fullum krafti. Þeir vilja auðvitað sýna sitt besta andlit og eru því að reyna að kenna þegnum sínum betri mannasiði. Ýmislegt hefur verið gert til þess svo sem að 11. dagur hvers mánaðar er dagur biðraða og ég er ekki frá því að það hafi skilað árangri því ekki fyrir svo löngu síðan beið ég í fallegri og beinni biðröð ásamt dágóðum hópi af eldri borgurum eftir að banki opnaði einn morguninn. Jafnframt er nú bannað að reykja í leigubílum og verið er að kenna krökkum í skólum landsins mannasiði. Þá hafa ýmsar auglýsingaherferðir verið haldnar til að leggja áherslu á að Kínverjar hagi sér betur. Kommúnistaflokkurinn hefur einnig útnefnt pestirnar fjórar, sem áður voru flugur, moskítóflugur, rottur og flær en eru núna að hrækja, troðast í biðröðum, að reykja og að bölva. En þar sem ég skil kínversku ekki það vel hefur það síðasta alveg farið framhjá mér. Það verður áhugavert að sjá hvort almenningur muni fara eftir boðum yfirvalda og sýna betri mannasiði þegar Ólympíuleikarnir hefjast í ágúst á næsta ári.


Frekar fyndið!

Í elle blaðinu sem ég keypti leyndist þetta!!

 

P1000548P1000549

 

 

 

 

 

 

 

P1000553P1000554P1000552


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband