Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Róleg helgi

Það fylgir lærdómstörnum að það hægist á öðru hjá manni. Til þess að brjóta þetta mynstur upp fór ég með krökkunum út að borða í gærkvöldi. Fyrir valinu var indverskur staður sem er ekki svo langt frá okkur. Mjög fínn staður og enn betri félagsskapur. Eftir kvöldmatinn fórum við heim að horfa á videó. Það er náttúrulega engin bíóstemming hérna þar sem það dettur engum í hug að fara í bíó og borga slatta pening fyrir þegar hægt er að kaupa allar myndir og jafnvel þær sem er verið að sýna í bíó fyrir smá pening. Ég sakna þess reyndar að fara aldrei í bíó hérna þar sem ég er svoldill bíófíkill en það venst ágætlega að vera bara með heimabíó og úrval eins og gerist í meðal stórri vídeóleigu til að velja úr. Dagskráin í dag er svo að gera aðra tilraun til þess að borga blessaðan símareikninginn. Frekar brjálæðislegt að þurfa að berjast við kerfið til þess að fá að borga peninga.......

Það er nú svo

Eftir að hafa verið nokkuð dugleg í að nota mér leigubílaþjónustu hér í borg hef ég komist að einu. Kvenbílstjórar eru miklu betri leigubílstjórar en karlarnir. Því miður er ekki mikið af þeim svo í hvert skipti þegar maður sest inn í bíl hjá konu er eins og maður hafi fundið gull. Þær eru bara miklu betri að keyra, miklu almennilegri og mun snyrtilegri á allan hátt en ætla ekkert að lýsa því neitt nánar, ehemm. Og það er ekki eins og umferðin sé eitthvað sérstaklega auðveld hérna svo að ég held að þetta sé sönnun á hinu gagnstæða en á því sem hefur verið haldið lengi fram, almennt af karlmönnum, að þeir séu betri bílstjórar.

Lífið og tilveran

Snýst að mestu um vinnu í verkefnum fyrir skólann þessa dagana. Var að klára fyrirlestur um innflytjendur í Suðaustur Asíu sem eru af kínversku bergi brotnir. Næst á dagskrá er að bregða sér í líki aðstoðarutanríkisráðherra Kína, Wu Da Wei og skrifa minnisblað fyrir utanríkisráðherrann fyrir næsta fund hinna sex ríkja sem fjalla um kjarnorkumál Norður-Kóreu. Þá er ég að fara í rannsóknarferð í íslenska sendiráðið til að kynna mér samningaviðræður Íslands og Kína um fríverslunarsamning. Það verður gaman því það er sérstaklega vel valið fólkið sem ræður ríkjum í sendiráðinu. Annars bara lítið að frétta, lífið gengur sinn vanagang hér í Kína, tíminn fljótur að líða og mér finnst alltaf vera að koma helgi.

Krókur á móti bragði

Ég þurfti að skreppa í uppáhalds tölvubúðina mína í dag. Þessa þar sem ég keypti prentarann um daginn, þar sem er stöðugt æpt á mann að kaupa þessa tölvuna eða hina eða eh annað. En í dag mætti ég undirbúin!! Um leið og ég gekk inn var ég búin að hækka í i-podinum mínum og hlustaði bara á Abba ;-) Alveg sama hvað þeir hrópuðu ég þóttist ekki heyra í þeim og greyin vissu náttúrulega ekkert hvort ég heyrði í þeim eða ekki. Mikið var þetta góð tilfinning og ég gat ekki annað en hlegið inni í mér við að þykjast ekki heyra í þeim né taka eftir þeim og þeir gátu ekkert gert, hahahahhahahaha. Mér fannst ég frekar góð!!!

Háskaför dagsins

Ég og Judith fórum í víetnamíska sendiráðið í morgun til þess að sækja um visa fyrir ferðina okkar í janúar. Erindið gekk að óskum og vonandi fáum við áritun í vegabréfið okkar á næstu dögum. Við tókum taxa til baka og vorum í djúpum samræðum um hitt og þetta sem er að gerast í lífi okkar þessa dagana. Í gegnum samræðurnar kom þó upp pæling í hugann, vegna aksturslags bílstjórans. Við vorum að keyra á hraðbraut og einhvern veginn var aksturslagið hökktandi. Við fórum að veita bílstjóranum meiri athygli og tókum eftir því að hann virtist vera eh syfjaður, eiginlega MJÖG syfjaður. Hann hafði opnað gluggann og nuddað á sér augun og svo kom að því að ég tók eftir því þar sem ég fylgdist með honum í speglinum að augnlokin voru farin að síga ansi mikið niður og reyndar virtist hann bara loka augunum. Hann var við það að sofna, hann gat ekki fylgst með umferðinni í kring vegna þreytu og okkur var meira en lítið hætt að standa á sama þarna í aftursætinu. Að lokum þegar hann virtist vera alveg sofnaður klappaði ég saman höndunum og æpti á hann og bað hann vinsamlegast að keyra út af hraðbrautinni og hleypa okkur út. Þetta var ekkert fyndið lengur við vorum farnar að sjá fyrir okkur endalokin......fórum eftir þessa lífsreynslu á kaffihús og skáluðum í kaffi latte yfir að við vorum enn á lífi en ég held í alvörunni að hann hefði sofnað þarna á næstu mínútum!!!

Nágranninn minn

Ég hitti manninn sem býr við hliðina á mér í annað skiptið í dag, við vorum samferða í lyftunni og fórum að spjalla. Kom í ljós að þessi nágranni minn, Peter, er alveg ótrúlega áhugaverður maður. Hann er frá London en hefur búið hér í Peking fyrst í fyrra og svo aftur núna, er að læra kínversku. Hann er doktor í stærðfræði og lögfræðingur. Vann í City í London sem bankalögfræðingur þangað til að hann hætti að vinna 44 ára, fannst hann hafa þénað nóg. Síðan þá í 10 ár hefur hann búið víðsvegar um heiminn og stúderað það sem hugurinn hefur girnst. Hann talar frönsku, þýsku, rússnesku, spænsku og er að læra kínversku núna eins og áður sagði. Hefur líka búið á mörgum stöðum eins og áður sagði, meðal annars í Malasíu, New York og Moskvu. Við stóðum frammi á gangi og spjölluðum saman í um klukkutíma um heima og geima, pólitík, tungumál, sögu og samfélagsleg vandamál hér í Kína og í Evrópu. Alveg rosa gaman að spjalla við hann og hugsa ég mér gott til glóðarinnar að rekast á hann oftar og spjalla um eh áhugavert.......

Sitt lítið af hverju

Ég dreif mig í bankann í morgun, er búin að uppgvöta það að það er skársti dagurinn til að eiga bankaviðskipti hér í borg. Á venjulegum degi geta verið 400 manns á undan þér í röðinni, ekki mjög kræsilegt, svo að ca 30 manns var bara vel sloppið. Þegar kom að mér ætlaði ég bara að borga nokkra einfalda reikninga, fyrir vatn, gas og síma. En nei nei ekki alveg svo auðvelt, málið er að mér var sagt að ég þyrfti bara að fara með símanúmerið í bankann til að borga símreikninginn og gerði ég það síðast þegar ég fór. En í dag var það ekki svo einfalt, gjaldkerinn heimtaði að fá nafn þess sem er skráður fyrir símanum og auðvitað var ég ekki með nafn leigusalans á kínversku á mér sí svona. Svo að ég fór að æsa mig á ensku og hún á móti á kínversku. Ekki mjög skilvirk samskipti. Endaði náttúrulega með því að ég varð að játa mig sigraða af bjúrókratíunni í Bank of China. Strunsaði út án þess að þakka fyrir, líklega setti ég upp "svipinn" minn sem er víst ekki mjög huggulegur að sögn vina minna. Rauk í ræktina til að þræla geðvonskunni úr mér. Það virkaði bara nokkuð vel, eiginlega svo vel að ég var næstum því búin að kaupa míni kanínu og míni skjaldböku þar til að ég rankaði við mér að ég er ekki þessi gæludýratýpa, get ekki einu sinni átt stofublóm hvað þá annað, og jafnframt að ég er að koma heim um jólin og því yrði enginn til að hugsa um þessi grey. Já mér sýnist að allt sé að verða klappað og klárt að ég legg af stað héðan 21. desember og verð komin heim 22. desember. Þurfti meira að segja að frekjast smá í bekknum og síðasta prófið er 20. desember allt út af frekjunni í mér....en væntanlega næ ég í staðinn að rölta Laugaveginn á Þorláksmessu :-)

Annars verð ég að segja að þessi þjóðaríþrótt Kínverja að skyrpa í tíma og ótíma er ekki að venjast neitt sérstaklega vel. Ég er eiginlega orðin ansi klígjugjörn út af þessu, bæði út af óhljóðunum og einnig að passa að vera ekki að stíga endalaust ofan í eh hrákaklessur. Ekki batnaði það þegar ég er farin að heyra þetta inn til mín, ég meina af 16. hæð. Þurfti að opna gluggann því hin miðstýrða hitun er komin á og þú getur ekkert stillt hitann eftir þínum smekk svo eina ráðið er að opna glugga og þurfa þá í þokkabót að hlusta á þessu miður geðslegu hrákahljóð í liðinu......ughhhhhhh


Undirbúningur fyrirlesturs og tvöfalt afmæli

Hluta af gærdeginum fór í að undirbúa fyrirlestur sem ég á að flytja í næstu viku. Fyrirlesturinn mun fjalla um stöðu kínverskra innflytjenda í Suðaustur Asíu og hvernig stjórnvöld hafa tekið á móti þeim í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að Kínverjar hafi verið valdamiklir í viðskiptaheimi þessara landa hafa þeir einnig verið ofsóttir í mörgum sömu löndunum. Þeir hafa verið drepnir eða ráðist á þá, konum nauðgað og kveikt í heimilum þeirra. Virðast að mörgu leyti hafa verið í sömu stöðu og Gyðingar en kannski ekki orðið fyrir jafn alvarlegum og umfangsmiklum ofsóknum.

Kvöldinu var svo eytt í að fagna með tveimur bekkjarsystrum afmæli þeirra. Það voru þær Nam frá Tælandi og BNA og Enrica frá Ítalíu. Við fórum á ítalskan stað í Sanlitun og fengum alveg ágætis mat. Flestir úr bekknum mættu og var bara nokkuð mikið stuð í fólki en maður finnur líka fyrir því að það er farið að styttast í annan endan á önninni. Það fer að koma að því að maður þarf að fara að skipuleggja seinnihluta námsins hérna.

P1000692

P1000695P1000708P1000709P1000702

Uppgvötun gærdagsins

Við litla fjölskyldan að Lin Ye Da Xue Bei Lu 18 fórum út að borða í gærkvöldi sem er svo sem ekkert nýtt enda borðum við venjulega úti á litlu kínversku veitingastöðunum hérna í kring. Í gær hins vegar rákumst við inn á lítinn pizzastað sem er með eldbakaðar pizzur og annan vestrænan skyndibitamat. Pizzurnar voru bara nokkuð ágætar og það sem meira er að með þeim fylgir frír bjór eða gos eins og þú vilt í þig láta og pizzan kostar ca 500 kr. Ekki nóg með það heldur kostar skot undir 50 kr. og GT undir 100 kr. og þessi staður er hérna við hliðana á okkur. Ég held að við séum búin að finna staðinn annars vegar þegar maður þarf að fá smá frí frá kínverska matnum eða þegar okkur langar að djamma og það ódýrt, held að barinn sé sá ódýrasta sem ég hef rekist á hérna. Jamm bara nokkuð skemmtileg uppgvötun sem efalaust á eftir að koma sér vel, jafnvel fyrir tilvonandi gesti mína ;-)

Flugmiðarnir komnir í hús

map_southeast_asiaÞað er ekki frá því að spenningur hríslist um mig því að ég var að fá í hendurnar flugmiðana mína vegna ferðalags míns til Suðaustur Asíu frá 18. janúar - 18. febrúar næstkomandi. Þótt ég eigi eftir að gera alveg ógeðslega mikið áður en að ég fer þá er ég farin að hlakka nokkuð til. Kannski sérstaklega að vera í hita og sól á þessum tíma þegar maður er venjulega að fríka út á veðrinu heima. Ég hlakka líka til að heimsækja þessi lönd en ferðaáætlunin gerir ráð fyrir að það séu Víetnam, Laos, Kambútsea, Tæland og Hongkong. Ég er búin að vera í tímum um stjórnmál og utanríkisstefnu Suðaustur Asíu svo að það verður áhugavert að koma til þessara landa og stúdera þau svoldið nánar. Líklega munum við fá leiðsögn um Tæland með heimamönnum því það eru 2 stelpur með mér í bekk sem eru frá Tælandi og hafa lofað að sýna okkur allt það mest spennandi og einnig fáfarnar fallegar eyjur. Svo er náttúrulega það fyndnasta við þetta ferðalag að við ætlum bara að ferðast með bakpoka, ég er nú ekki beint þekkt fyrir að ferðast með lítinn farangur, er strax farin að hugsa hvort ég geti ekki verið með fleiri en einn bakpoka.........

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband