Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Og "snjókorn" falla

Nei kannski ekki alveg en undanfarið hefur maður verið ásóttur af frjókornum sem svífa um allt loftið og af einhverjum orsökum virðast þau alltaf lenda upp í manni eða í nefinu á manni. Ekki mjög þægilegt verður að segjast. En maður verður víst að þola það að náttúran hafi sinn gang. Búið að vera nóg að gera undanfarið í skóla, skriftum og öðru enda ágætt að hafa nóg fyrir stafni. Á morgun er síðan von á gesti nr. 2 og virðist dagskráin hans vera farin að þéttast nokkuð. Ég er búin að plata hann með mér í fjallgöngu eða réttara sagt múrgöngu......gífurlega spennandi en ég er búin að stefna ansi lengi á þessa göngu. Á laugardaginn er svo verið að skipuleggja "surprise" afmælispartý fyrir einn bekkjarfélagann, hann Gonzo, hlakka mikið til að sjá svipinn á honum, hehehehehe......

Girls day out

Í gær ákváðum við Helga, Harpa og ég að gera okkur dagamun, plönuðum svona stelpudag. Við byrjuðum daginn á að hittast á markaði sem selur efnavöru ásamt fleiru tilheyrandi eins og tölur, rennilásar og þvíumlíkt. Reyndar komum við Harpa ca klukkutíma of seint bæði vegna þess að við lögðum of seint af stað og að leigubílstjórinn okkar rataði ekki alveg. Nú jæja við röltum um markaðinn sem var risastór og skoðuðum stranga eftir stranga af efnum. Gott að fá aðeins hugmynd um hvað hægt er að velja sér áður en maður heimsækir Toby klæðskera næst. Okkur til mikillar ánægju var einnig verið að selja á þessum markaði ýmislegt matarkyns sem verður að viðurkennast að var skemmtilegra að skoða en kaupa, ehemm....

P1020435P1020438

Eftir að hafa fengið nægju okkar af markaðinum drifum við okkur á The Bookworm þar sem við fengum okkur að borða, salat með grilluðu grænmeti og geitaosti (ég held reyndar að ég sé orðin háð þessu salati) og algjörlega dásamlega súkkulaðiköku. Eftir Bókaorminn röltum við um og kíktum í búðir þangað til að við fengum okkur kvöldmat á veitingastað sem heitir Purple Haze, og var samkvæmt manneskjunni sem valdi staðinn var þetta fyrst indverskur staður, svo víetnamískur en endaði svo á því að vera tælenskur. Skemmtilegur misskilningur í gangi þar.....Rosa góður staður sem kemur mjög sterklega til greina sem áfangastaður fljótlega aftur. Að lokum fórum við svo í hand- og fótsnyrtingu þar sem sumir létu mála heilu listaverkin á neglurnar á sér. Sum sé gasalega næs dagur í góðum félagsskap. En eins og sjá má voru það ekki bara við sem höfðum það gott þennan dag Wink

P1020434


This is my life!

Ég kíkti á nýja myndbandið með Evróvísion laginu This is my life og varð fyrir óvæntri ánægju við að sjá Draupni vin min þar í aðalhlutverki. Drengurinn er náttúrulega algjör snillingur eins og sést í þessu myndbandi. Hann að minnsta kosti hressti mig hressilega við eins og honum einum er lagið.

Matur sem slekkur eldinn innan í þér

Það er aldeilis farið að hlýna hérna, liggur við að það sé orðið of heitt inni hjá mér. Minnir á það að það styttist óðfluga í hina miklu hita sem eru hér á sumrin. Tanya kínverskukennarinn minn sagði mér að ég skyldi vera óhrædd því loftið hérna í Peking er þurrt, ekki eins rakt og er t.d. í Shanghæ en þar verður hitinn oft óbærilegur vegna rakans. Svo gaf hún mér nokkur góð ráð hvernig hægt er að kæla sig niður með mat og drykk eða að slökkva eldinn innan í þér eins og Kínverjar kalla þetta. Það er t.d. hægt að drekka kamillute sem búið er að kæla eða borða vatnsmelónu sem er líka mjög kælandi. Já þetta eru alveg ný fræði fyrir mér því þetta er nú ekki vandamál sem við Íslendingar þekkjum vel........

Dramatískt samaband

Það verður víst að viðurkennast að ég á í nokkuð dramatísku sambandi við tölvur. Það er þannig mál með vexti að ég er afskaplega hrifin af tölvum en þær virðast því miður ekki vera eins hrifnar af mér. Sem mér finnst náttúrulega frekar sorglegt. Sem dæmi má nefna að ég var í gær í mínum mestu makindum að vaska upp og hafði tekið tölvuna með mér inn í eldhús til að hlusta á tónlist. Í miðju kafi þá bara slokknaði á tölvunni og alveg sama hvað ég reyndi þá gat ég ekki kveikt á henni aftur. Ég fékk alveg fyrir hjartað og sá fyrir mér hvernig allt sem var í tölvunni væri horfið. Með hjartað í buxunum fann ég viðgerðarverkstæði fyrir apple tölvur, dreif mig í sturtu í einum grænum og hljóp út með tölvuna í fanginu og upp í næsta leigubíl. Leiðin niður í bæ tók óratíma fannst mér en loksins komast ég á leiðarenda. Á verkstæðinu tók á móti mér indælisfólk sem betur fer skildi ensku því ég var alveg óðamála að lýsa því hvernig tölvan hafði bara dáið í höndunum á mér. Þau byrjuðu að fylla út einhverja ægilega skýrslu og skrifa niður upplýsingar um tölvuna svo sem serialnúmer osfrv. Nema að svo kveikir gaurinn á tölvunni og já já það kviknaði á henni. Ég stóð þarna eins og mega lúði og það eina sem ég gat sagt var "vá hvernig fórstu að þessu, ég var sko búin að reyna miljón sinnum" Almáttugur hvað mér leið hallærislega en um leið afar létt að ekkert var að tölvunni. Jamm og jæja rosa gaman að vera algjörlega misheppnuð stundum.....En jæja ég í staðin græddi ég það að eyða yndislegum degi niðri í bæ. Mér fannst það nú alveg rökrétt að njóta veðursins, hátt í 30 stiga hiti og sól, rölta um í bænum og gera ýmislegt skemmtilegt fyrst ég var búin að borga leigubíl niður í bæ. Já miklu skemmtilegra heldur en að vera heima og læra eins og upphaflega planið var.......

Bröns með íslensku ívafi

Það var víst kominn tími til að draga uppúr frystikistunni reykta silunginn, flatkökurnar og hangikjötið sem ég kom með að heiman eftir jólafríið. Ákvað að hóa nokkrum saman í bröns í gær. Þetta var vel heppnuð stund með frábæru fólki. Leyfi annars myndunum að tala sínu máli.

IMG_0009IMG_0021IMG_0025IMG_0033IMG_0036IMG_0037IMG_0055IMG_0068IMG_0071

Aldurspælingar

Ég var á spjalli við mann um daginn sem er aðeins eldri en ég og í út af einhverju í samtalinu okkar fór hann að tala um að ég væri nú svo ung eða bara "twentysomething", mér fannst þetta frekar fyndið en lét sem ég heyrði þetta ekki. En auðvitað kítlaði þetta hégómagirndina að vera talin vera svona ungleg.....Stuttu síðar var ég að tala við vin minn sem er 23ja ára og eitthvað barst aldur í tal og ég fór að segja honum frá ofangreindu samtali og að maðurinn hafi haldið að ég væri á þrítugsaldri. Þá fór hann að segja mér að stelpa sem væri með honum í skólanum hefði haldið að hann væri 28 ára og var hann ægilega ánægður með það að hún hefði haldið að hann væri svona þroskaður og vitur. Já einmitt þetta var það sem ég staldraði við. Þessi ólíku viðbrögð okkar. Ég bara ansi ánægð með að eh héldi að ég væri ca 10 árum yngri en ég er og vinur minn svona ánægður með að vera álitinn eldri en hann er. Eru þetta týpísk viðbrögð kynjana vegna krafna frá samfélaginu. Er það frekar viðurkennt að konur séu sætar og unglegar og karlmenn þroskaðir og vitrir heldur en öfugt???

Skemmtilegar týpur

Það er skemmtilegt við ræktina sem ég fer í að þar er allskonar fólk, á öllum aldri og þótt flestir séu kínverskir eru nokkrir útlendingar þar einnig. Það er gaman að spá í liðið á meðan maður er að púla og óhætt er að segja að það eru nokkrar góðar týpur þar. Til dæmis er þar eldri herramaður sem minnir alveg ótrúlega á Maó, hann er með sömu hárblásnu hárgreiðsluna (ég er viss um að Maó hafi blásið á sér hárið, búin að stúdera þetta nokkuð hérna) og stór gleraugu sem voru í tísku fyrir einhverjum áratugum. Samt ansi fit maður sem tekur ræktina mjög alvarlega þótt hann hjóli á sniglahraða......Svo er það gullinhærði víkingurinn, já gylltur á húð og hár og mjög stæltur. Eiginlega er hann eins og stokkinn út úr ævintýrunum, vantar bara brynju, skjöld og sverð.....Þá væri hann alvöru riddari.....Já það er stuð í ræktinni!!

Eins og ég hef komið inn á áður þá er komið vor hér og til að ylja ykkur í snjókomunni þá ákvað ég að setja inn hérna myndir sem ég tók á leið minni í skólann um daginn.....

P1020432P1020431


Vangaveltur um sorp

Ég er búin að vera í smá vandræðum með heimilissorpið hjá mér en það er þannig mál með vexti að það virðast ýmsir nágrannar mínir hafa mikinn áhuga fyrir að nýta það. Það gerist iðulega þegar ég fer með ruslið út að það er alltaf eitthvað fólk við ruslatunnurnar sem vill taka ruslið úr höndunum á mér í staðinn fyrir að ég hendi því ofan í tunnurnar. Ég verð að játa það að mér finnst þetta heldur óþægilegt, kann ekki alveg við að það sé fólk að gramsa í gegnum ruslið mitt og hvað þá þegar ég þarf að afhenda þeim ruslið svo það fari nú ekkert á milli mála. Mér finnst þetta eiginlega innrás inn í einkalífið mitt, ég vil bara hafa það fyrir mig hverju ég er að henda......En þá er það hin hliðin að er það ekki alveg í stakasta lagi ef að það eru einhverjir sem geta hugsað sér að nýta sér ruslið mitt sér til hagsbóta. Fólk sem hefur það kannski ekki alveg jafn gott og ég í lífinu? Ástæðan fyrir þessum pælingum mínum er sé að í gær fór ég út með pizzakassa sem innihélt nokkrar gamlar pizzasneiðar sem höfðu orðið afgangs hjá mér og ég hafði ekki lyst á þeim lengur. Nú þegar ég kem að sorptunnunum er þar gamall maður sem réttir út hendurnar eftir kassanum en ég var í einhverju uppreisnarskapi (venjulega rétti ég nú fólkinu bara ruslið mitt þegjandi og hljóðalaust) og henti ég kassanum beint ofan í tunnu og strunsaði út í búð. Þegar ég kom til baka mætti ég auðvitað karlinum (þóttist náttúrlega ekkert taka eftir því) þar sem hann stóð og hélt á pizzakassanum fyrir aftan bak. Jamm ég vona að hann hafi verið ánægður með pizzusneiðarnar því þótt ég verði svo sem ekki mikið vör við það hérna en þá er enn veruleg fátækt í Kína. Þrátt fyrir að lífskilyrði Kínverja hafi batnað mikið undanfarin ár þá er enn langt í land með að þetta verði allsnægtaþjóðfélag eins og við eigum heima. Svo maður verður bara að þola það að gramsað sé í sorpinu hjá manni.


Orðið nokkuð bókað á hótel Kollu

Það lítur út fyrir það að ég muni hafa nægan selskap á næstunni, ekki slæmt að fá nokkra gesti að heiman verð ég að segja. Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að ég verði með gesti frá 22. apríl  til 5. júní og svo þétt eru gestakomurnar að ég á eftir að leysa úr því hvernig ég á að þvo rúmfötin á milli en ég hlýt nú að finna eh góða lausn svona þegar nær dregur. Svo kemur smá pása í ca 2 vikur þar til að stuðsystur nokkrar láta sjá sig upp úr miðjum júní. En þetta er óskaplega skemmtilegur hópur sem kemur aldeilis úr mismunandi áttum hjá mér. Það verður sem sagt hægt að ræða allt milli himins og jarðar, svo sem pólitík, lögreglumál, strákamál og fjölskyldumál, ansi góð blanda ekki satt :-) Eins og hefur komið hér fram þá var Hrabba vinkona fyrsti gesturinn frá Íslandi sem heiðraði mig með komu sinni hingað og vil ég því henni til heiðurs skella inn einni mynd af okkur ásamt Körlu vinkonu minni, Judith frá Þýskalandi og Cynthiu frá Mexíkó en þær tvær síðastnefndu voru hér í heimsókn á sama tíma. Skelltum okkur á pizzastaðinn hérna handan við hornið og fengum okkur pizzu og margarítur eins og sjá má.

the pizza place


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband