Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Ahhhhh vorið er komið

Loksins loksins er komið vor og það lítur út fyrir að það fari ekkert meira því að veðurspáin eins langt og hún nær lofar góðu veðri og hita í kringum 20 stig. Nú er alveg yndislegt að vera úti og fylgjast með hvernig gróðurinn vex og allt blómgast. Held að ég eigi eftir að heimsækja garðana hér í borg næstu vikurnar og spurning um að nota tækifærið og fara í picnic....oft.......oh ég elska vorið ;-)

Dægurmál

Það er nú bara allt rólegt að frétta héðan frá Peking. Er búin að nota síðustu daga til að koma mér almennilega í gang í nokkrum verkefnum. Skrapp með Ástu á The Bookworm í vikunni og var það hin ágætasta tilbreyting að vinna þar, fín aðstaða til að vinna í tölvu, bæði rafmagn og nettenging. Ég er alveg heilluð af þessum stað og er alls ekki verri en Súfistinn heitinn á Laugaveginum. Við fengum okkur svo kvöldmat á tælenskum stað sem heitir The Bananaleaf og var hann alveg ljómandi fínn. Rúsínan í pylsuendanum var mjög svo hreyfanleg hljómsveit sem gekk á milli borða og söng til gestanna. Ásta var nú búin að minnast á þetta áður að síðast þegar hún fór á þennan stað hefðu þeir komið á borðið hennar og sungið til hennar ástarlag og á meðan haldið í hendina á henni. Nema að auðvitað kom hljómsveitin að borðinu okkar og söng SAMA lagið sem var Hello með Lionel Richie. Þeir héldu þó ekki í hendurnar á okkur en horfðu djúpt í augun á okkur í staðinn. Frekar fyndið. Átti annars hið ágætasta spjall við hana Tönju sem er að hjálpa mér í kínverskunni. Við ræddum allt frá pólitíkinni hérna í Kína til þess hverjir eru heitustu gaurarnir hérna. Hún leiddi mig í allan sannleikann um hvaða leikarar væru flottir og einnig hvaða söngvarar væru heitastir. Mér finnst ótrúlega gaman að kynnast fleiri innfæddum hérna, heyra hvað þeim finnst og kynnast betur menningunni í gegnum þá. Tanya er mjög pólitísk og hafði sterkar skoðanir á hlutunum og langaði til að læra stjórnmálafræði en þar sem það er eitt erfiðasta fagið að komast inn í hér í landi gat hún það ekki og fór því í ensku í staðinn. Ég er þó ekki í nokkrum vafa um að það eigi eftir að gagnast henni vel því eins og hefur komið áður fram hjá mér þá tala ekki mjög margir ensku hérna. En þetta sýnir manni líka að aðgangur að menntun er ekki allsstaðar jafn auðveldur og heima. Til dæmis eru mjög margir S-Kóreubúar hérna í háskólanámi því það er svo erfitt að komast að í háskóla í S-Kóreu. Einnig get ég nefnt að þá las ég bók, "the Beijing doll" sem fjallaði um tilveru ungrar stúlku hér í Peking en hennar æðsti draumur var að komast í Pekingháskóla. Það var hins vegar mjög fjarlægur draumur.....Ekki alveg sama upplifun og hjá okkur sem finnst það nú hið minnsta mál að skrá okkur í HÍ......

Smá röfl

Brrrrr það er búið að vera svo kalt hérna um helgina. Í gær var 6 stiga hiti og engin kynding í húsinu sem þýddi bara að ég varð að kappklæða mig eða vera undir sæng. Skellti mér reyndar í ræktina um helgina sem var alveg hrikalega gott svona eftir á og hleypti smá hita í kroppinn. En það er eitt sem mér finnst frekar fyndið varðandi karlmenn og líkamsrækt, þ.e. karlmenn að lyfta lóðum. Fór inn í hið heilaga horn karlmannanna í ræktinni þar sem lausu lóðin eru geymd og notuð. Ég held að ég sé eina konan sem er þarna að æfa, amk fæ ég alltaf frekar undarleg augnaráð frá strákunum. Nema hvað þrátt fyrir að ég væri með i-podinn frekar hátt stilltan fór ekkert framhjá mér öskrin í strákunum þegar þeir voru að lyfta lóðunum sem var svo sem allt í lagi, er jú hluti af þjálfuninni. Hins vegar finnst mér alveg brjálæðislegt að þeir þurfi alltaf að henda lóðunum í gólfið svo allt leikur á reiðiskjálfi í kring. Ég meina ef þeir eru svona sterkir að geta lyft þessum lóðum þá hljóta þeir að geta lagt þau frá sér.........eða hvað??

Lust Caution

Horfði á Ang Lee myndina Lust Caution á dögunum. Mér finnst Ang Lee alveg ótrúlega góður leikstjóri, myndirnar hans eru svo raunverulegar en á sama tíma mjög dramatískar. Hann nær alveg að halda manni föstum við skjáinn og einnig eru myndirnar hans að veltast um í kollinum á manni nokkuð lengi á eftir. Lust Caution fjallar um kaldan raunveruleikann sem fólk stendur frammi fyrir þegar það er að berjast fyrir málstað og er það alls ekki alltaf svo fallegt eða auðvelt að fylgja hugsjónum sínum. Mæli með myndinni og ekki er verra að hafa hana með kínversku tali, hehehe ég skildi ca svona 1 orð af 100.....góð æfing samt.

Annars er bara allt fínt að frétta, róleg vinnuhelgi framundan enda er veðrið akkúrat núna ekki mjög spennandi. Manni dauðbrá við það að það er allt í einu farið að rigna, Þá fattaði ég að það bara rignir eiginlega aldrei hérna....merkilegt. Það er líka bara ansi kalt og þar sem búið er að taka hitann af öllu íbúðarhúsnæði hér í borg er dálítið kalt svo að sængin hefur nú mikið aðdráttarafl. Sýnist þó á veðurspám að þetta sé stutt kuldakast og við taki veður í kringum 20 stiga hita. Annars bíður Karla vinkona mín frá Mexíkó spennt eftir því að ég upplifi hitana sem verða í sumar því það er búið að fara í taugarnar á henni hvað kuldinn í vetur hefur haft lítil áhrif á mig.....það hlakkar í henni að nú styttist í sumarið og ég muni alveg bráðna niður.......


Tanya tutorinn minn

Jæja þá er ég búin að mæta í fyrsta tímann hjá einkakennaranum mínum henni Tönyu og er hún alveg einstaklega frábær. Hún er í sama skóla og ég að læra ensku og útskrifast í sumar. Ótrúlega mikill munur að hafa einhvern til að útskýra leiðir til að muna kínversku táknin sem er eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að leggja á minnið. Ég fékk samt í fyrsta skipti í dag þá tilfinningu að ég gæti kannski bara náð smá tökum á málinu. Sem er nú kannski eins gott þar sem ég þarf að taka próf í þessu seinnihlutann í apríl.......

Öðruvísi páskar

Páskarnir hérna hafa verið með nokkuð öðrum hætti en almennt heima. Það var auðvitað fyrst og fremst vegna þess að það er ekkert frí hérna enda halda Kínverjar ekki páskana hátíðlega frekar en jólin. Það var því engin miskunn með það að mæta í skólann fyrir utan að á föstudaginn var frí vegna menningarferðar á Kínamúrinn sem ég skrópaði í. Síðustu daga höfum við notað til að skoða okkur um hér í borg. Fórum í Temple of Heaven sem er ljúfur staður, falleg hof og mjög stór garður þar sem fólk kemur saman til að stunda leikfimisæfingar eða til að hittast og taka í spil eða syngja nokkur lög og spila á hljóðfæri. Mér fannst frekar magnað að sjá mann um áttrætt vera að teygja og hafði sett annan fótinn upp að tré og beygði sig þannig að andlitið náði alveg að fætinum. Ótrúlega liðugur verð ég að segja. Við skelltum okkur líka í Hou Hai garðinn þar sem við fórum á tehús og fengum te eftir öllum kúnstarinnar reglum, keyrðum í rikshaw og kíktum í litlar, skemmtilegar búðir. Laugardagurinn fór í að rölta um á Kínamúrnum í þokulegu veðri svo að umhverfið var nokkuð ævintýralegt. Í bland við skoðunarferðirnar erum við búnar að vera duglegar við að láta dekra við okkur í nuddi og öðru slíku.
Páskadagur var mjög ljúfur, byrjuðum á því að fara í brunch með Ástu, Niccolo og vinum hans á Hilton hótelið. Það var alveg hrikalega næs og gaman að gera eh hátíðlegt í tilefni dagsins. Eftir það fórum við í listahverfið 798 og röltum um í geggjuðu veðri á milli gallería. Gáfum okkur þó tíma til að setjast niður og skála í freyðivíni fyrir páskunum. Eftir röltið fannst okkur Ástu upplagt að kynna Hröbbu fyrir hinu yndislega, kínverska fótanuddi í Bodhi þar sem hún drakk nýja uppáhalds drykkinn sinn, soðið kók með engiferi út í, hljómar kannski undarlega en smakkast bara ágætlega. Enduðum svo daginn á indverskum veitingarstað. Við erum nú svosem búnar að vera duglegar að fara út að borða og höfum borðað á múslömskum, japönskum, víetnömskum, kínverskum og amerískum stað. En nú er ævintýrið á enda og í þessum skrifuðum orðum er Hrabba í flugi á leið til Köben. Hversdagsleikinn tekinn við hjá mér og er ekki hægt að segja en að nóg sé að verkefnum framundan svo að það er eins gott að láta hendur standa framúr ermum.......

Gesturinn.....

Jæja þá er ég búin að leika gestgjafa hérna í nokkra daga og óhætt er að segja að ég sé búin að vera frekar afslöppuð í því hlutverki. Eins og áður hefur komið fram beið ekki þéttskrifuð dagskrá né brjáluð vekjaraklukka eftir gestinum. Við erum nú samt búnar að hafa það voða fínt hérna, búnar að fara út að borða á sizhuan kínverskan stað, hot pot stað og í kvöld var það skemmtileg samsetning pizza og margarítur. Sú hugmynd kom nú reyndar frá mexíkönsku skvísunum Körlu og Cynthiu. Svo erum við búnar að heimsækja Skraddarann Toby og er ekki annað hægt að segja en að Hrabba og hann hafi bara bondað nokkuð vel saman amk er daman á kafi í tískublöðum til þess að fá hugmyndir fyrir nýja fataskápinn sem hún ætlar að koma með heim......Okkur veitti nú ekki af smá nuddi eftir heimsóknina til Toby og á Yashow markaðinn. Ég náttúrulega skellti mér í píningarnuddið meðan Hrabba hafði það gott og fékk huggulegt olíunudd....En á morgun hefst alvaran og verður túristadæmið tekið af mikilli alvöru.........

Ou Ke Xin

Þetta er sem sagt kínverska nafnið mitt sem ég er nú orðin nokkuð vön því ég er aldrei kölluð annað í kínverskutímunum. Það er borið fram sem Ó Köh Sín. Mér skilst að það þýði hamingja eða eitthvað slíkt. Að missa úr viku úr kínverskunni þýðir að ég verð að fá mér einkakennara til að hjálpa mér að ná upp því sem ég missti af. Það er bara of erfitt að gera það upp á eigin spýtur.

Annars er allt fínt að frétta héðan frá Peking, styttist í það að fyrsti gesturinn renni í hlaðið. Það eru mjög margir í kringum mig að fá gesti, fólk nýtir greinilega frídagana um páskana í hinum vestræna heimi til að ferðast. Það er ekkert frí framundan hjá mér þótt páskar séu á næsta leyti en það verður túristast næstu daga eins og tíminn frá lærdóminum leyfir. Ég er ekki eins og sumir vinir mínir hérna búnir að skipuleggja dvöl gestana út í ystu æsar, mér finnst alveg ágætt að leyfa hlutunum að ráðast en neita því ekki að það er ágætt að stela hugmyndum frá hinum skipulögðu eða fá að slást með í hópinn.......


Fyndið SMS

Fékk svolítið sérstakt SMS í dag en það var eitthvað á þessa leið: Mér þykir leiðinlegt að geta ekki sent þér SMS en ég er mjög upptekinn núna.......

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband