Færsluflokkur: Bloggar
11.3.2008 | 08:45
Íslenskt, sænskt & tælenskt
Var boðin ásamt öðrum Íslendingum hér í borg til sendiherra Íslands í tilefni þess að hér er hópur MBA-nema frá HÍ í námsferð. Það var gaman að eyða kvöldstund með góðum hópi fólks og fá aðeins að forvitnast hvað er að frétta að heiman. Svo er ekki verra að maturinn sem boðið er uppá er ekkert slor, sérstaklega fyrir okkur sem búum hér og fáum sjaldan lax eða súkkulaðiköku......nammi namm.
Í dag var svo IKEA ferð með Körlu og Hörpu en ég þurfti að fara versla smávegis áður en að gestirnir fara að láta sjá sig. Það er alltaf heimilislegt að koma í IKEA, ég held að þetta sé svona það næsta sem maður kemst að heimaslóðunum. Við fengum okkur náttúrulega að borða og urðu kjötbollurnar frægu fyrir valinu sem er frekar fyndið í mínu tilfelli því ég borða almennt ekki kjötbollur. En þegar maður er svona langt í burtu fær maður þörf fyrir einhverja hluti sem maður lítur ekki við heima. Þegar ég bjó í Vín þá var ég með æði fyrir steiktum pylsum með kartöflumús sem er einnig eitthvað sem ég almennt borða ekki. Frekar spes...
Annars fékk ég skemmtilegt símtal áðan frá Dr. David sem rekur hótelið á tælensku eyjunni Koh Chang þar sem ég gisti á ferðalagi mínu um Suðaustur Asíu. Hann var að spyrja mig hvenær ég ætlaði að koma aftur því hann og fjölskyldan hans væru farin að sakna mín. Ég spurði hann hvernig veðrið yrði í júlí en þá er regntími í Tælandi. Hann sagði að það væri fínt, það rignir í 2-3 tíma á dag og svo skín sólin. Já kannski að maður skelli sér bara aftur til þeirra í júlí, gæti hugsað mér margt verra.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2008 | 06:51
Speglar og völundarhús
Það var ekki auðvelt að mæta í kínverskutíma í morgun. Hvorki auðvelt að vakna kl. 6.30 né að reyna að átta á mig hvað kennarinn og samnemendurnir voru að segja en þeir voru búnir að læra MJÖG mörg ný orð á meðan ég lá heima í flensunni. Úff eins gott að vera dugleg að ná þessu upp annars verð ég eins og asni alla önnina...
Gærdagurinn var afskaplega ljúfur eitthvað. Byrjaði að fá mér góðan morgunmat og lesa bæði moggann og FBL á netinu. Síðan lagði ég af stað með Niccoló í listahverfið 798 Art Zone. Ótrúlega skemmtilegt hverfi, þetta er fyrrverandi verksmiðjuhverfi sem er búið að búa til risa stórt nýlistahverfi úr. Verksmiðjuhúsin hafa fengið að halda sér ásamt öllum skorsteinum, pípulögnum og öðru sem þeim fylgdu. Í húsunum er svo búið að innrétta fullt af galleríum, veitingastöðum og kaffihúsum. Það er mjög auðvelt að eyða heilum degi þarna enda er þetta svo stórt að maður þarf kort til að rata þarna. Við fórum á sýningu í listagalleríinu Galleria Continua sem er ítalskt og var sýning eftir listamanninn Michelangelo Pistoletto. Virkilega flott sýning sem byggðist að mestu á speglum.
Þetta völundarhús er gert úr pappa alls 2100 metrar. Gestirnir þurftu að finna leiðina að hvíta kassanum því þar inni var svo aðal trompið. Mikill speglasalur þar sem þú gast horft á þig á mörgum hæðum, bæði fyrir ofan, neðan og til hliðar við þig. Ótrúlega kúl hugmynd fannst mér.
En það voru smá vankantar á þessu verki, aðallega fyrir konur eins og mig og Valentínu samstarfskonu Niccoló sem ákváðum að vera í pilsum akkúrat þennan daginn. Ekki mjög sniðugt eins og þið getið ímyndað ykkur við að horfa á myndina hér fyrir ofan....En eins og ég sagði hér áður þá er ekki mikið mál að eyða heilum degi við að rölta milli sýninga og setjast niður á kaffihús inn á milli til að fá sér eitthvað að borða og hvíla sig aðeins. Við eyddum þarna 3 tímum við að skoða nokkrar sýningar sem allar voru mjög áhugaverðar, hver á sinn hátt.
Eftir að hafa sinnt andanum var kominn tími á líkamann þ.e. mexíkanska matinn hennar Körlu sem hún kom með frá Mexíkó eftir annarfríið. Svakalega góður matur, m.a. voru heimabakaðar tortillur, hvorki meira né minna. Eftir matinn með bekkjarfélögunum var ég stússast alltof langt frameftir kvöldi og kórónaði það með því að fá þá frábæru hugmynd að fá Jóhönnu Hreiðars vinkonu til að hanna fyrir mig nýtt útlit á bloggið mitt en hún er soddan tölvu- og hönnunarsnillingur!! Enn og aftur TAKK fyrir Jóhanna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2008 | 17:23
Aftur á meðal fólks
Jæja þá er einangrun minni vegna flensunnar lokið. Skrapp í bæinn með Ástu sem er komin aftur til Peking eftir nokkuð langa dvöl heima á klakanum. Mjög svo ánægjulegt að hitta hana aftur. Áttum virkilega ljúfan dekurdag. Fórum og fengum okkur að borða á ítölskum veitingastað og í þetta skiptið varð túnfiskur fyrir valinu og var hann bara nokkuð góður. Missti mig aðeins í að versla bíómyndir og held að ég sé komin með ágætan skammt fyrir næstu mánuði. Margar spennandi myndir voru verslaðar og ég held að ég sé næstum því komin með allar myndirnar sem höfðu eitthvað með óskarsverðlaunin að gera. Að lokum skelltum við okkur í kínverskt nudd og í þetta skiptið voru það karlmenn sem nudduðu okkur og það voru sko engin vettlingatök.....Maður var sveigður og beygður í stellingar sem maður er vægast sagt ekki vanur að vera í og enn og aftur er ég lurkum lamin eftir herlegheitin (þetta kínverska nudd er ekkert grín en á að vera voða gott fyrir heilsuna). Ekki nóg með það heldur kom annar nuddarinn með svo einlægt komment að við fengum hláturskast sem entist okkur alla leiðina heim......
Morgundagurinn var svo planaður í lærdóm en eftir að Niccóló hafði rökrætt við mig í ca 1 mínútu að ég ætti frekar að fara með honum á listasýningu og sjá m.a. völundarhús úr pappa hrundu öll góðu plönin mín. Já það ætlar að verða svolítið erfitt með sjálfsstjórnina....eeeeen stundum nauðsynlegt að rækta andann, sérstaklega eftir svona einangrun eins og ég er búin að vera í undanfarið. Svo ég ætla með Niccóló á þessa sýningu og í leiðinni að hitta samstarfsfélaga hans sem vinna hjá ítalska "verslunarráðinu" hér í borg. Síðan er ég boðin í mat hjá Körlu, mexíkönsku mærinni, sem ætlar að elda handa okkur ekta mexíkanskan mat en ekkert tex mex kjaftæði eins og hún segir. Hlakka mikið til því síðast bar hún fram alveg æðislegan mat. En svo eftir matinn verður bara lært fram á kvöld.......já ég meina það!!!!
Annars vil ég þakka góðar kveðjur í kommentakerfinu og láta vita að það er MJÖG skemmtilegt að sjá hverjir kíkja við á bloggið!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2008 | 08:33
Krúttleg umhyggja
Jæja þetta er þriðji dagurinn sem ég er hér heima með þessa flensu, vægast sagt ekki mjög skemmtileg örlög. En ég held að þetta fari nú allt að koma. Ég hef því ekkert getað mætt í kínversku þessa viku og hef ekki látið neinn vita nema hana Sung Ae sem situr við hliðina á mér í tímum. En áðan fékk ég fyndið símtal frá einum af þremur kínverskukennurunum mínum sem var að athuga með mig þar sem ég hef ekkert mætt þessa vikuna. Mér fannst þetta nú frekar sætt svona þegar ég fékk hana til að hætta að tala kínversku við mig því ég skil svo takmarkað amk enn sem komið er. Svei mér þá en ég held að svona umhyggju hjá kennurum hef ég ekki orðið var við síðan í barnaskóla og er nú orðið ansi langt síðan....ósköp huggulegt :-) Því maður var orðinn því algjörlega vanur að kennarar láti það alveg afskiptalaust hvort maður mætir í tíma eða ekki, þetta svokallaða akademíska frelsi....
Annars er komið hér vor í loftið, hitinn hækkar dag frá degi og sýnist mér á veðurspám að það verði komið um 20 stiga hiti um helgina og yfir það í næstu viku. Nú er skemmtilegur tími framundan þegar gróðurinn fer að vakna til lífsins. Ég er nú með metnaðarfull plön að vera dugleg að skoða skemmtilega staði hér í borg og helst að komast út í náttúruna í nágrenni borgarinnar í göngutúra svona svo ég geti notað almennilega bókina sem ég keypti eh tímann fyrir jól, "Hiking around Beijing"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.3.2008 | 18:51
Flensa og almenn geðvonska
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2008 | 06:31
Danska galaballið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2008 | 02:15
Annríki og afslöppun
Búið að vera ansi mikið að gera þessa vikuna, bæði í skóla og félagslífi. í gær tók ég bara einn algjöran afslöppunardag eftir kínverskuna. Var bara að dunda mér að lesa og horfa á bíómyndir. Horfði á tvær mjög góðar myndir, Rendition með Reese Witherspoon og Jake Gyllenhaal en hún fjallar um "extreme" yfirheyrsluaðferðir sem BNA beita vegna gruns um hryðjuverk eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september. Mjög áhugaverð. Hin myndin sem ég horfði á var Atonement með Keiru Knightley og James McAvoy, virkilega flott mynd í alla staði og skemmtileg saga sem hún sagði frá. Ég verð að vera sammála því sem ég las eh staðar og græni kjóllinn sem Keira er í er einn af flottustu kjólum kvikmyndasögunnar ;-)
Annars hefur vikan einkennst af skólasókn, baráttu við lærdóm, sérstaklega við að skrifa kínversk tákn og hádegisverðum og kvöldverðum með mismunandi hópum af fólki. Hélt matarboð á miðvikudagskvöldið fyrir Gonzo, Niccoló og Körlu þar sem meðal annars var boðið uppá grjónagraut og svo var kíkt á heimildarmyndina um Sigurrós, heima. Þetta var matarboð sem ég var búin að lofa Gonzo í hvert skipti sem hann gerði mér greiða, ábyggilega að minnsta kosti 20 sinnum svo þetta var farið að vera vandræðalegt.....En jæja á fimmtudagskvöldið var hádegismatur með krökkum úr BLCU en Sandy vinkona mín úr Pekingháskóla vildi endilega kynna mig fyrir vinkonu sinni sem er lögfræðingur frá Malasíu og stundar nú nám í kínversku við BLCU. Gaman að geta spjallað aðeins um lögfræði annað slagið!! Fórum á frábæran stað í BLCU sem er með kínverskan, múslimskan mat, mjög flottur staður og frábær matur á hlægilegu verði. Um kvöldið fór ég svo út að borða með Íslendingafélaginu. Fórum að mjög svo kúl stað, aðal liturinn var svartur og þurfti maður að fá aðstoð frá starfsmönnunum til að detta ekki um tröppur á leiðinni að borðinu út af myrkrinu og toppurinn var að fara í klósettið en maður þurfti að taka vasaljós með sér.
Dagurinn í dag fer svo í bankastúss og skriftaræfingar í kínversku en í kvöld stendur mikið til en þá er liggur leið mín á ægilega fínt danskt galaball þar sem þemað er 1001 nótt. Hlakka mikið til, fer með henni Helgu sem er á kúrsus í sendiráðinu og munum við sitja til borðs með Dönum sem ég treysti á að séu alveg hrikalega skemmtilegir.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2008 | 15:52
Fyrsti kínverskutíminn að baki
Ég var mætt í kínverskutima kl. 8 í morgun og var til 12, mest allan tímann í hljóðæfingum, ba, fa, ma, pa, bo, fo, mo, po með 4 mismunandi tónum á sérhljóðunum sem koma sjaldnast rétt út úr manni. Brjálað stuð!! Kennarinn talar bara kínversku við okkur svo ég skil ekki helminginn af því sem þeir segja og ég er í byrjendatímum. Það er ekkert verið að gera manni þetta auðvelt fyrir en vonandi þýðir þetta að ég verð orðin altalandi í sumar, hahahaha, bara að grínast. Mér var nú eiginlega allri lokið þegar ég fékk heimaverkefnið að skrifa kínversk tákn, það helltist yfir mig vonleysistilfinning að geta nokkurn tíma lagt þessi tákn á minnið......úff úff.
Sit við hliðina á rosa fínni stelpu sem flutti hingað til Peking í síðustu viku. Hún er frá Suður-Kóreu og er að koma hingað út af því að maðurinn hennar fékk starf hérna. Hún starfaði sjálf sem handritshöfundur fyrir sjónvarpsþætti í Seol og var að skrifa þætti í anda CSI og Law and Order. Fórum og fengum okkur hádegismat og spjölluðum saman um heima og geima og er ég komin með heimboð til hennar í kóreskan heimilismat. Hlakka mikið til, hef aldrei prufað það áður.
Talandi um mat þá fórum við gengið hérna í Komplexnum á veitingastaðinn okkar hérna í hliðargötunni í gærkvöldi og vá hvað það var góður matur sem við fengum. Þetta voru reyndar réttir sem við höfum margoft borðað áður en ég held að flest okkar hafi ekki borðað kínverskan mat í næstum því 2 mánuði og við vorum alveg agndofa yfir því hvað allt var gott. Svona kann maður að meta hlutina uppá nýtt eftir smá pásu. Annars verður þessi veitingastaður fyrsti staðurinn sem ég ætla með alla gestina mína á sem von er á næstu mánuði......allir verða að byrja á því að fá ekta kínverskan mat eins og innfæddir borða!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2008 | 15:03
Barátta fyrir réttlæti eða bara hrein þrætugirni
Stundum á ég svolítið erfitt með að greina skilin hjá sjálfri mér hvenær ég er að berjast fyrir réttlæti eða er bara að þræta þrætunnar vegna. Þessar aðstæður komu upp í dag þegar ég tók annað brjálæðis/þrætukastið í nýja fína háskólanum mínum. Ég fór sem sagt í dag til þess að fá skólaskírteini og stundatöflu. Ég var ekki fyrr búin að sækja um skólaskírteinið þegar mér var tjáð að ég gæti ekki fengið skólaskírteini þar sem ég væri með skólaskírteini í Pekingháskóla og gæti notað það hjá þeim. Nú jæja mér var svo sem sama og fór á næstu skrifstofu til að fá stundatöflu og framvísaði Pekingháskólaskírteininu mínu eins og mér hafði verið sagt og uppskar í staðinn furðusvip frá starfsmanninum sem vildi fá að sjá BLCU-skírteinið mitt. Þá þykknaði nú í minni og þrammaði ég aftur á skólaskírteinaskrifstofuna staðráðin í því að réttlætinu skyldi verða fullnægt með því að ég fengi skólaskírteini eins og allir hinir nemendurnir. Þetta var ekkert annað en helber mismunun gagnvart mér þar sem ég hafði greitt skólagjöldin eins og allir hinir og þetta var mín sönnun á því að ég væri nemandi í þessum skóla. Ég hóf baráttu mína fyrir skólaskírteininu og heimtaði að fá eh almennileg svör fyrir höfnuninni ekki bara "af því bara svar" Ég var send fram og til baka milli skrifstofa en málið stóð algjörlega fast þeir vildu ekki láta mig fá skírteini og ég vildi ekki gefa mig. Að lokum var mér boðið að fá endurgreidd skólagjöldin. Þá vissi ég að ég var komin að endastöð í málinu því ég hafði lesið á kvittuninni minni fyrir skólagjöldunum að þau væru með öllu óendurkræf hvort sem ég veiktist alvarlega eða eh alvarlegt kæmi uppá í heimalandi mínu. Að lokum sættist ég á að fá skrifaða staðfestingu á því að ég væri nemandi í skólanum og gsm-númerið hjá yfirmanninum á skólaskírteinaskrifstofunni með þeim orðum að ég gæti hringt í hann hvenær sem er ef ég lenti í eh vandræðum með staðfestinguna mína.......Hitti reyndar mjög hressar stelpur á skólaskírteinaskrifstofunni, held að þær hafi bara verið nokkuð hrifnar af æsingnum í mér og voru duglegar að gefa mér ýmis ráð í baráttunni. Önnur var frá Indónesíu og hin frá Hong Kong en er að læra lögfræði í London. Ætla hitta þær aftur við tækifæri til að sýna þeim að ég hef aðrar skemmtilegri hliðar en þrætuhliðarnar.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2008 | 13:24
Velheppnuð kvöldstund
Afmælið hans Ryans heppnaðist bara ægilega vel. Við vorum að hittast í fyrsta skipti flest bekkjarsystkinin á þessari önn og voru það fagnaðarfundir. Þessi önn verður þó öðruvísi að því leyti að við munum ekki verða öll saman í tímum þar sem við dreifumst í mismunandi fög og það er ekkert skyldufag þar sem allir eru saman. Svo nú verður mikilvægara að halda hópinn í félagslífinu. Flestir komu með eh matarkyns og kenndi þar ýmissa grasa, Momo og Haolan bjuggu til dumplings eða soðkökur, svo var sushi, ýmsir kjötréttir, einn sem var eins og candyfloss úr svínakjöti, bara nokkuð góður. Eftir að hafa gert veitingunum góð skil skelltu nokkrir sér í póker en mér sýnist á fréttunum heima að það sé með heitari umræðuefnum þessi dægrin. Eftir pókerspilið var kominn tími til að drífa sig í klúbbinn "World of Suzie Wong". Það var mjög gaman þar, góð tónlist, góð blanda af fólki og flottur staður. Ég á pottþétt eftir að fara þangað aftur.
Hér á eftir koma nokkrar myndir frá kvöldinu birtar með góðfúslegu leyfi höfundarins Körlu en ég var ekki í neinu myndartökustuði í gær. Ég leyfi svo bara myndunum að tala sínu máli.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)