Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Múrinn magnaði

Ég og Haffi drifum okkur eftir áður gerðum plönum á Kínamúrinn, þ.e. hluta af honum sem kallaður er Simatai og var áætlunin okkar sú að ganga að öðrum hluta múrsins sem heitir Jinshanling. Það á að vera ca 10 KM ganga á múrnum sjálfum. Þetta er hluti af múrnum sem er nokkuð afskekktur og oft kallaður vilti hluti múrsins, jafnframt er hann að mestu í upprunalegu horfi. Við höfðum leigt bíl og átti hann að sækja okkur heim að dyrum kl. 9. Við mættum á slaginu 9 út tilbúin í slaginn. Við fundum nú ekki bílinn strax og vorum eitthvað að vandræðast út á plani að skima eftir bílnum. Ekki var að spyrja að því að um leið dreif að "einkareknir" leigubílstjórar sem endilega vildu bjóða fram þjónustu sína. Við vorum nú ekki alveg tilbúin í það. Einnig var einn vörðurinn ægilega spenntur fyrir myndavélinni minni og vildi líka endilega taka mynd af okkur á símann sinn. Eitthvað sem við vildum gjarna endurgjalda í sömu mynt.

IMG_0157

Að lokum eftir nokkur símtöl og hjálp frá vini okkar hér að ofan náðum við saman með bílstjóranum okkar. Ég get ekki sagt að við höfum verið mjög upprifin yfir kagganum sem við fengum. Ekki skánaði álit okkar þegar hann fór af stað en án nokkurra ýkja þá hökkti hann hreinlega í gegnum Peking. Okkur leist nú ekki alveg á blikuna en á sama tíma fannst okkur þetta frekar fyndið. Þegar við vorum búin að keyra í ca klst. komum við að vegatollahliði og þá kárnaði nú gamanið fyrir alvöru því að bílstjórinn kom ekki bílnum aftur í gír hvernig sem hann reyndi. Hann tók á það ráð að fá vegatollsstarfsmennina til að ýta bílnum út í kant á planinu (nb. með okkur inni í honum) og fór hann að hringja út í allar áttir.

IMG_0162

Ekkert gekk og þótt einhverjir menn hafi komið og hjálpað honum að ýta bílnum og Haffi reyndi líka sitt besta til að koma bílnum í gír gekk þetta ekki neitt. Að lokum var ákveðið að senda annan bíl af stað til að taka við. Hjá okkur tók við bið sem við máttum illa við vegna annarra plana sem við áttum í Peking seinni part dagsins. En það var ekkert hægt annað í stöðunni heldur en að bíða.......

IMG_0160

Að lokum kom hinn bíllinn eftir næstum því 2ja tíma bið. Þegar í þann bílinn var komið fengum við eiginlega annað hláturskast því að bílstjórinn spilaði einhverja brjálaða kínverska techno-tónlist og datt líklega ekki annað í hug heldur en að við værum líka algjörir aðdáendur. Að lokum tók nú ferðin enda eins og gerist nú yfirleitt. Við skelltum bakpokunum á okkur og hófum ferðina. Múrinn á þessum slóðum er ansi hátt uppi svo við tókum kláf áleiðis upp fjallið.

IMG_0167IMG_0168

Vorum alveg guðslifandi fegin að hafa ekki lent í vagni númer 13 enda búin að fá meira en nóg af óheppni þennan daginn. Gangan upp á múrinn var ansi brött og á leiðinni rákumst við á stórann hóp af Kínverjum sem ég hélt að væri bara í picnic og var því afskaplega vingjarnleg þegar ég gekk framhjá þeim og heilsaði þeim með virktum og stóru brosi. Kolla klára því að í staðinn sátum við uppi með tvær afar uppáþrengjandi kerlur sem ætluðu sér aldeilis stóra hluti við að hafa af okkur peninga. Þær sem sagt viku varla frá okkur. Þrátt fyrir það og puðið við að labba upp nutum við þess út í ystu æsar að vera þarna í náttúrunni og fuglasöng.

IMG_0169IMG_0178IMG_0182

Vegna tafarinnar út af bíldruslunni gátum við ekki gengið alla leiðina sem við vildum vegna tímarammans þennan daginn og gengum því bara hluta af múrnum. En þetta var hreint út sagt stórkostleg upplifun. Það var svo ótrúlega magnað að vera á þessum sögulega stað í frábæru veðri og varla nokkur ferðamaður á stjá. Við áttum staðinn að mestu út af fyrir okkur (fyrir utan kerlurnar náttúrulega) og einstaka eðlu sem skaust um eða skokkandi íkorna. Ég alveg endurnærðist á að komast svona út í náttúruna.

IMG_0199

IMG_0181

 Eftir þessa stórkostlegu upplifun lá leiðin aftur til Peking og verð ég að segja að ég var nokkuð stressuð yfir að komast lifandi til baka því bílstjórinn okkar var bara glanni. Það var amk 2var sinnum sem ekki mátti muna miklu að við hefðum skollið á bíla sem voru að koma úr gagnstæðri átt. Þegar við vorum búin að sinna erindunum í borginni hittum við nokkra vini í Pekinga-andarveislu. Frábær endir á frábærum degi. Og það er engin spurning um að ég á eftir að fara þarna aftur því að ég ÆTLA mér að ganga þessa leið sem því miður tókst ekki í þetta skiptið.

IMG_0217

IMG_0223

 

 

 


Ævintýri síðustu daga

Það er óhætt að segja að síðustu dagar séu búnir að vera viðburðaríkir og eiginlega er ég meira og minna búin að vera í hláturskasti undanfarna daga. Þetta hófst með því að Hafsteinn fyrrverandi vinnufélagi minn mætti hérna á svæðið í heimsókn. Það er búið að ganga á ýmsu hjá honum síðan og ætla ég nú svo sem ekkert að fara mikið nánar út í þá sálma. Rétt að stikla á stóru þar sem við lentum í nokkrum fyndnum atvikum. Það hefur margt skemmtilegt verið gert undanfarna daga. Við mættum í "surprise" partýið sem haldið var til heiðurs Gonzo vini mínum á laugardagskvöldið og komum við klyfjuð íslenskum osti, nammi og góðri Tópasskotflösku sem Hrabba vinkona var svo elskuleg að skilja hérna eftir. Ekki er hægt að segja annað en hið íslenska góðgæti hafi slegið í gegn og er enn verið að tala um þennan görótta drykk frá Íslandi.

IMG_0095

Reyndar beiluðum við stuðboltarnir á frekara djamm og enduðum á því að stela restinu af íslenska namminu og yfirgáfum partýið. Gláptum svo bara á bíómyndir og fengum okkur popp og kók. Segir kannski eitthvað til um aldurinn, ehemm.......

Það sem við gerðum svo m.a. annars var að fara í listahverfið 798, svo kíktum við á Silkimarkaðinn þar sem enn er hægt að gera góð kaup þótt maður finni fyrir því að verðið er farið að hækka enda styttist óðum í ólympíuleikana. Við fjárfestum bæði í forlátum silkisloppum sem við vorum búin að reyna að prútta lengi niður í einum sölubásnum en sölumennirnir voru ansi tregir svo við færðum okkur um set. Þar gekk okkur mun betur að ná góðu verði og ákváðum við að labba framhjá hinum sölubásnum til að sýna hvað þeir höfðu misst af góðum kaupum. Eitthvað æptu þau á okkur sem ég var nú ekkert að hlusta mikið á. Haffi hins vegar fór eitthvað að tala um að kannski væru þetta nú sloppar úr pólýester. Ég hélt nú ekki. Svo þegar við komum heim og tókum hróðug upp pakkana kom í ljós að við sátum uppi með pólýester sloppa. Ég átti nú bara ekki til orð yfir að hafa verið plötuð svona herfilega og móðgaðist mjög. Við ákváðum að fá Tönju tutor með okkur í lið og fórum aftur daginn eftir. Á leiðinni niður í bæ var ég að æsa sjálfa mig upp til að vera tilbúin í slaginn en Tanja sagði að best væri að fara nota þá aðferð að láta sem þau hefðu gert mistök svo að sölumennirnir gætu haldið andliti sem er afar mikilvægt hér á landi. Það plan gekk svona ljómandi vel upp og fengum við réttu sloppana, þurftum reyndar að borga aðeins meira, og gátu allir verið ánægðir með sitt.....

IMG_0113

Eftir silkimarkaðsævintýrið fórum við á "The Bookworm" og þar á eftir á tónleika sem Tanja bauð okkur Haffa með sér á. Tónleikarnir voru með einni að Idolstjörnum Kínverja, ein af svokölluðum "The Supergirls". Þetta var mjög skemmtileg upplifun og mikið stuð. Læt myndirnar hér að neðan lýsa þessu nánar. 

 IMG_0121IMG_0129IMG_0134


Og "snjókorn" falla

Nei kannski ekki alveg en undanfarið hefur maður verið ásóttur af frjókornum sem svífa um allt loftið og af einhverjum orsökum virðast þau alltaf lenda upp í manni eða í nefinu á manni. Ekki mjög þægilegt verður að segjast. En maður verður víst að þola það að náttúran hafi sinn gang. Búið að vera nóg að gera undanfarið í skóla, skriftum og öðru enda ágætt að hafa nóg fyrir stafni. Á morgun er síðan von á gesti nr. 2 og virðist dagskráin hans vera farin að þéttast nokkuð. Ég er búin að plata hann með mér í fjallgöngu eða réttara sagt múrgöngu......gífurlega spennandi en ég er búin að stefna ansi lengi á þessa göngu. Á laugardaginn er svo verið að skipuleggja "surprise" afmælispartý fyrir einn bekkjarfélagann, hann Gonzo, hlakka mikið til að sjá svipinn á honum, hehehehehe......

Girls day out

Í gær ákváðum við Helga, Harpa og ég að gera okkur dagamun, plönuðum svona stelpudag. Við byrjuðum daginn á að hittast á markaði sem selur efnavöru ásamt fleiru tilheyrandi eins og tölur, rennilásar og þvíumlíkt. Reyndar komum við Harpa ca klukkutíma of seint bæði vegna þess að við lögðum of seint af stað og að leigubílstjórinn okkar rataði ekki alveg. Nú jæja við röltum um markaðinn sem var risastór og skoðuðum stranga eftir stranga af efnum. Gott að fá aðeins hugmynd um hvað hægt er að velja sér áður en maður heimsækir Toby klæðskera næst. Okkur til mikillar ánægju var einnig verið að selja á þessum markaði ýmislegt matarkyns sem verður að viðurkennast að var skemmtilegra að skoða en kaupa, ehemm....

P1020435P1020438

Eftir að hafa fengið nægju okkar af markaðinum drifum við okkur á The Bookworm þar sem við fengum okkur að borða, salat með grilluðu grænmeti og geitaosti (ég held reyndar að ég sé orðin háð þessu salati) og algjörlega dásamlega súkkulaðiköku. Eftir Bókaorminn röltum við um og kíktum í búðir þangað til að við fengum okkur kvöldmat á veitingastað sem heitir Purple Haze, og var samkvæmt manneskjunni sem valdi staðinn var þetta fyrst indverskur staður, svo víetnamískur en endaði svo á því að vera tælenskur. Skemmtilegur misskilningur í gangi þar.....Rosa góður staður sem kemur mjög sterklega til greina sem áfangastaður fljótlega aftur. Að lokum fórum við svo í hand- og fótsnyrtingu þar sem sumir létu mála heilu listaverkin á neglurnar á sér. Sum sé gasalega næs dagur í góðum félagsskap. En eins og sjá má voru það ekki bara við sem höfðum það gott þennan dag Wink

P1020434


This is my life!

Ég kíkti á nýja myndbandið með Evróvísion laginu This is my life og varð fyrir óvæntri ánægju við að sjá Draupni vin min þar í aðalhlutverki. Drengurinn er náttúrulega algjör snillingur eins og sést í þessu myndbandi. Hann að minnsta kosti hressti mig hressilega við eins og honum einum er lagið.

Matur sem slekkur eldinn innan í þér

Það er aldeilis farið að hlýna hérna, liggur við að það sé orðið of heitt inni hjá mér. Minnir á það að það styttist óðfluga í hina miklu hita sem eru hér á sumrin. Tanya kínverskukennarinn minn sagði mér að ég skyldi vera óhrædd því loftið hérna í Peking er þurrt, ekki eins rakt og er t.d. í Shanghæ en þar verður hitinn oft óbærilegur vegna rakans. Svo gaf hún mér nokkur góð ráð hvernig hægt er að kæla sig niður með mat og drykk eða að slökkva eldinn innan í þér eins og Kínverjar kalla þetta. Það er t.d. hægt að drekka kamillute sem búið er að kæla eða borða vatnsmelónu sem er líka mjög kælandi. Já þetta eru alveg ný fræði fyrir mér því þetta er nú ekki vandamál sem við Íslendingar þekkjum vel........

Dramatískt samaband

Það verður víst að viðurkennast að ég á í nokkuð dramatísku sambandi við tölvur. Það er þannig mál með vexti að ég er afskaplega hrifin af tölvum en þær virðast því miður ekki vera eins hrifnar af mér. Sem mér finnst náttúrulega frekar sorglegt. Sem dæmi má nefna að ég var í gær í mínum mestu makindum að vaska upp og hafði tekið tölvuna með mér inn í eldhús til að hlusta á tónlist. Í miðju kafi þá bara slokknaði á tölvunni og alveg sama hvað ég reyndi þá gat ég ekki kveikt á henni aftur. Ég fékk alveg fyrir hjartað og sá fyrir mér hvernig allt sem var í tölvunni væri horfið. Með hjartað í buxunum fann ég viðgerðarverkstæði fyrir apple tölvur, dreif mig í sturtu í einum grænum og hljóp út með tölvuna í fanginu og upp í næsta leigubíl. Leiðin niður í bæ tók óratíma fannst mér en loksins komast ég á leiðarenda. Á verkstæðinu tók á móti mér indælisfólk sem betur fer skildi ensku því ég var alveg óðamála að lýsa því hvernig tölvan hafði bara dáið í höndunum á mér. Þau byrjuðu að fylla út einhverja ægilega skýrslu og skrifa niður upplýsingar um tölvuna svo sem serialnúmer osfrv. Nema að svo kveikir gaurinn á tölvunni og já já það kviknaði á henni. Ég stóð þarna eins og mega lúði og það eina sem ég gat sagt var "vá hvernig fórstu að þessu, ég var sko búin að reyna miljón sinnum" Almáttugur hvað mér leið hallærislega en um leið afar létt að ekkert var að tölvunni. Jamm og jæja rosa gaman að vera algjörlega misheppnuð stundum.....En jæja ég í staðin græddi ég það að eyða yndislegum degi niðri í bæ. Mér fannst það nú alveg rökrétt að njóta veðursins, hátt í 30 stiga hiti og sól, rölta um í bænum og gera ýmislegt skemmtilegt fyrst ég var búin að borga leigubíl niður í bæ. Já miklu skemmtilegra heldur en að vera heima og læra eins og upphaflega planið var.......

Bröns með íslensku ívafi

Það var víst kominn tími til að draga uppúr frystikistunni reykta silunginn, flatkökurnar og hangikjötið sem ég kom með að heiman eftir jólafríið. Ákvað að hóa nokkrum saman í bröns í gær. Þetta var vel heppnuð stund með frábæru fólki. Leyfi annars myndunum að tala sínu máli.

IMG_0009IMG_0021IMG_0025IMG_0033IMG_0036IMG_0037IMG_0055IMG_0068IMG_0071

Aldurspælingar

Ég var á spjalli við mann um daginn sem er aðeins eldri en ég og í út af einhverju í samtalinu okkar fór hann að tala um að ég væri nú svo ung eða bara "twentysomething", mér fannst þetta frekar fyndið en lét sem ég heyrði þetta ekki. En auðvitað kítlaði þetta hégómagirndina að vera talin vera svona ungleg.....Stuttu síðar var ég að tala við vin minn sem er 23ja ára og eitthvað barst aldur í tal og ég fór að segja honum frá ofangreindu samtali og að maðurinn hafi haldið að ég væri á þrítugsaldri. Þá fór hann að segja mér að stelpa sem væri með honum í skólanum hefði haldið að hann væri 28 ára og var hann ægilega ánægður með það að hún hefði haldið að hann væri svona þroskaður og vitur. Já einmitt þetta var það sem ég staldraði við. Þessi ólíku viðbrögð okkar. Ég bara ansi ánægð með að eh héldi að ég væri ca 10 árum yngri en ég er og vinur minn svona ánægður með að vera álitinn eldri en hann er. Eru þetta týpísk viðbrögð kynjana vegna krafna frá samfélaginu. Er það frekar viðurkennt að konur séu sætar og unglegar og karlmenn þroskaðir og vitrir heldur en öfugt???

Skemmtilegar týpur

Það er skemmtilegt við ræktina sem ég fer í að þar er allskonar fólk, á öllum aldri og þótt flestir séu kínverskir eru nokkrir útlendingar þar einnig. Það er gaman að spá í liðið á meðan maður er að púla og óhætt er að segja að það eru nokkrar góðar týpur þar. Til dæmis er þar eldri herramaður sem minnir alveg ótrúlega á Maó, hann er með sömu hárblásnu hárgreiðsluna (ég er viss um að Maó hafi blásið á sér hárið, búin að stúdera þetta nokkuð hérna) og stór gleraugu sem voru í tísku fyrir einhverjum áratugum. Samt ansi fit maður sem tekur ræktina mjög alvarlega þótt hann hjóli á sniglahraða......Svo er það gullinhærði víkingurinn, já gylltur á húð og hár og mjög stæltur. Eiginlega er hann eins og stokkinn út úr ævintýrunum, vantar bara brynju, skjöld og sverð.....Þá væri hann alvöru riddari.....Já það er stuð í ræktinni!!

Eins og ég hef komið inn á áður þá er komið vor hér og til að ylja ykkur í snjókomunni þá ákvað ég að setja inn hérna myndir sem ég tók á leið minni í skólann um daginn.....

P1020432P1020431


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband