Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Chinese Body Massage

Eftir skólann í dag skellti ég mér í nudd, ákvað að prufa nú kínverskt nudd. Bókaði tíma í klukkustund. Það er alveg einstaklega næs að koma þarna, algjör rólegheit, indæl sítrónulykt, kósý og hlýtt, manni líður eins og í austrænum ævintýraheimii. Ég skellti mér í nuddgallann og beið svo spennt eftir að nuddarinn byrjaði. Það var nuddari nr. 61 sem nuddaði mig og eftir ca 1 mínútu sagði hann, hvað bókaðir þú langan tíma, ha ég, 60 mín. Já það dugir ekki sagði nuddarinn, bakið á þér er í rúst, mæli með 120 mín. Já já ég geri það þá. Guð minn almáttugur, þetta var ekki gott, þarna kvaldist ég á bekknum í 2 klukkutíma, gat engan veginn notið huggulegheitanna, eina sem komst að hjá mér var sársaukinn við þessar pyntingar. Ég var kramin, toguð og teygð, eyrun á mér voru meira að segja nudduð. Jamm ég hélt þetta út í þeirri trú að ég verði ný og betri manneskja. Eftir að ég kom heim hefur mér liðið eins og bakið á mér sé allt marið og blátt, enn sjást nú reyndar engir marblettir, marið verður kannski komið út á morgun....En ég er strax búin að bóka annan tíma.....

Hinn dásamlegi Pan Wei

EjQq7pld6T8Tx7Hz57Jg1fZdQPEAZ1mmPrófessor Pan Wei hefur verið að kenna okkur um kínverskt samfélag og kínverska pólitík. Hann hefur vægast sagt verið umdeildur innan bekksins fyrir skoðanir sínar og eru það ófá skiptin sem við höfum rætt um prófessor Pan. Hann stúderaði í Bandaríkjunum og eh í Evrópu líka. Hann er ótrúlega ögrandi og setur fram skoðanir sínar án þess kannski að rökstyðja þær eh sérstaklega vel. Það er nú það sem hefur verið mest pirrandi við hann. Mér hefur að mestu leyti líkað vel við hann því ég hef haft gaman að því hvernig hann hefur ögrað okkur og rakkað vestrið niður ansi vel á stundum. Bandaríkjamennirnir hafa átt ansi erfitt og hafa stundum verið næstum því froðufellandi af ergelsi. Í dag var síðasti tíminn hjá honum og eh hafði hann misreiknað tímann sinn og þurfti því að fara yfir 2 umfjöllunarefni í einum tíma, sem sagt á tvöföldum hraða. Umfjöllunin var um Kína í nútímanum og framtíðinni. Ekki mjög einfalt en þá má segja að hin frostkalda skólastofa okkar hafi skyndilega hitnað all mikið í umræðunum í dag. Já þegar Pan Wei hélt því fram að aðgangur að upplýsingum væri alveg ásættanlegur hér í Kína.Það væri hægt að fá upplýsingar um allt, bara ef þú VIRKILEGA vildir það.....Já einmitt, kannski fyrir velþekktan prófessor sem ferðast um allan heiminn, hittir fullt af spennandi fræðimönnum og tekur þátt í alls kyns ráðstefnum og heldur fyrirlestra. En hvað um meðalmanninn, hinn kínverska "Jón"?? Nei hann hefur ekki aðgang að þeim upplýsingum sem hann vill, langt frá því. Maður kemst ekki einu sinni inn á Wikepedia hvað þá annað. Eftir að hitastigið í tímanum var komið á hættulegt stig varð prófessor Pan að viðurkenna að jú kannski mætti nú bæta aðgengið að upplýsingunum......Þarna gekk hann heldur langt, gott að halda á lofti skoðunum um ágæti Kína og gagnrýna vestrið en að vera í afneitun um staðreyndir sem blasa við þér í þínu samfélagi gengur nú ekki alveg, sérstaklega ekki hjá háskólaprófessor.....Mig langar samt svoldið að skrifa mastersritgerðina mína hjá honum.....veit ekki, þarf að hugsa það betur.

Bætt starfsumhverfi kínverskra verjenda

Ný samþykktar breytingar á lögum um lögmenn hér í landi sem kveða á um réttarbætur til handa verjendum taka gildi í júní 2008. Í þessum breytingum felast meðal annars heimildir fyrir verjendur að hitta sakborninga eftir yfirheyrslur en nú um stundir er það algjörlega undir lögreglunni komið hvort verjendur geti hitt skjólstæðinga sína eður ei. Þá verður bannað að hlera samtöl verjenda og skjólstæðinga þeirra. Jafnframt eiga verjendur rétt á aðgangi að öllum gögnum er varða málið, geta aflað gagna sjálfir eða farið fram á að lögregla og ákærendur geri slíkt. Þessar nýju reglur munu breyta starfsumhverfi verjenda svo um munar en hingað til hafa lögmenn hikað við að taka að sér sakamál vegna þess hve erfitt hefur verið að vinna að málinu þar sem aðgangur að sakborningi og gögnum hefur verið erfiður og háður geðþótta yfirvalda. Það hefur valdið því að þeir hafa átt í mestu erfiðleikum með að vinna vinnuna sína þ.e. að verja málstað skjólstæðinga sinna. Þá hafa lögmenn einnig hikað við að taka að sér sakamál vegna hættunnar við að lenda upp á kant við yfirvöld en í nýju lögunum eru einnig ákvæði sem tryggja að það að ekki er hægt að ákæra verjendur fyrir skoðanir eða athugasemdir sem fram koma í réttarhöldum nema að um sé að ræða ógn gegn þjóðaröryggi eða ærumeiðingar.

Fallegt veður

P1000570Mengunin sem hékk hér yfir borginni í fyrradag var hreinsuð í burtu með stæl í gærkvöldi. Það komu þvílíkar þrumur og eldingar og auðvitað fylgdi grenjandi rigning eins og vera ber. Eiginlega elska ég þrumur og eldingar þar að segja þegar ég er innan húss. Mér finnst krafturinn sem náttúran sýnir með þessum hætti alveg mögnuð. Afleiðingar veðursins komu svo fram í morgun mjög bjart og fallegt veður svo að útsýnið var alveg sérstaklega gott. Ég tók mynd af útsýninu úr herbergisglugganum í dag og eins og sjá má er ekki langt í náttúruna.

Litið ofan í matarkistu Pekingbúa

Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 27. október 2007

P1000535Peking er mjög alþjóðleg þegar kemur að framboði af veitingastöðum enda er giskað á að meira en 60.000 veitingastaðir séu hérna. Það er liðin tíð að þú getir ekki fengið magafylli þína nema að borða hvítkál eða hrísgrjón með prjónum. Mikill fjöldi veitingastaða býður upp á mat frá öllum heimshornum. Sem dæmi má nefna ítalska staði, ameríska, franska, japanska, arabíska, víetnamska, þýska, kóreska, taívanska og fleiri mætti upp telja. Gróskan er mikil og vikulega heyrist af nýjum stöðum opna en af öðrum sem eru að loka eða færa sig um set. Margir af þessum stöðum eru mjög hipp og kúl og standast algjörlega samanburð við flotta veitingastaði í öðrum stórborgum. Þessir staðir bjóða almennt upp á matseðla á ensku en það sama verður ekki sagt um kínversku veitingastaðina. Hér er auðvitað engin vöntun á veitingastöðum sem bjóða upp á heimamat frá mismunandi héruðum Kína og jafnframt er mismunandi mikið lagt í matinn og útlit staðanna. Eins og áður sagði eru matseðlarnir sjaldnast á ensku en ef þú ert heppin(n) eru myndir af réttunum á matseðlunum. Það getur því verið erfitt að panta sér mat ef hvorki eru myndir af réttunum né starfsfólk sem skilur ensku en þá er bara að benda á girnilegan rétt á næsta borði eða treysta á lukkuna. Kínverjar fara mikið út að borða og er mikið af látlausum stöðum sem bjóða uppá heimilislegan mat eins og soðkökur. Ekki er hægt að ræða um mat í Peking án þess að minnast á pekingönd. Það eru margir staðir sem bjóða upp á þennan sérrétt Pekingborgar. Stökk að utan en mjúk að innan er öndin borin fram með pönnukökum og plómusósu. Á fínni veitingastöðum er gæðavottorð borið fram með öndinni þar sem númer hennar kemur fram. Í Peking er mikil götumatarmenning. Á morgnana er vinsælast að fá sér stökkar pönnukökur með steiktu eggi, lauk og kryddi og er þessu skolað niður með sojamjólk. Annars er götumaturinn árstíðabundinn og nú að haustlagi er algengast að sjá bakaðar sætar kartöflur, soðinn maís, ristaðar kastaníuhnetur, sykurhúðuð ber og mandarínur á spjótum. Að versla hérna í matinn er ævintýri en það getur tekið virkilega á. Það er varla nokkur hlutur sem er merktur á ensku, hvað þá að upplýsingarnar um matvörurnar séu skiljanlegar. Hilla eftir hillu fullar af sojasósu hjálpar manni ekki að velja sojasósu þegar þú skilur ekki hver munurinn á þeim á að vera. Einnig er erfitt að finna pakkningar af hrísgrjónum sem eru minni en 5 kílóa. Þá er óendanlega mikið af vörum sem líta skringilega út, merktar á kínversku svo maður getur staðið heillengi yfir þeim og reynt að ímynda sér hvað þetta getur eiginlega verið og hvernig eigi að nota þær í matargerð. En svo leynast kunnuglegar vörur inni á milli eins og 2 tegundir af súkkulaði, Snickers og Kit Kat. En þess má geta að vestrænar matvörur eru hér glæpsamlega dýrar, sem dæmi má nefna að pakki af hrökkbrauði kostar allt að 250 kr. Allir stórir matvörumarkaðir sem ég hef komið hér inn í hafa að geyma fiskabúr full af sprelllifandi matfiskum, en það gerist nú ekki mikið ferskara en það. Einnig hef ég orðið vör við þetta á veitingahúsum og hef ég upplifað það að fá reidda fram á borðið mitt rækju á spjóti enn hreyfandi alla anga. Ekki er hægt að skrifa um mat í Peking án þess að minnast á ýmsan furðulegan mat sem hér er á boðstólum. Hægt er að gæða sér á grilluðum sporðdrekum og snákum, skjaldbökukássum og auðvitað hundakjöti. Ég rakst einnig á svokallaðan "hotpot" veitingastað sem er með á matseðli sínum getnaðarlimi apa og dádýra. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og matgæðingar verða ekki fyrir vonbrigðum hér.


Tími fyrir te

P1000567Það eru akkúrat 2 mánuðir síðan ég kom hingað til Peking og tími til kominn að skoða þá menningu sem Kína er einna þekktast fyrir, te menninguna. Ég fór í dag og fjárfesti í fallegu tesetti úr handmáluðu postulíni. Maður verður nú að taka þetta alvarlega ekki satt. Eftir að hafa stúderað svolítið þær tegundir af tei sem til eru ákvað ég að skella mér á Wulong te oft einnig kallað oolong te. Þetta te á rætur sínar að rekja í Fujian héraðið hér í Kína og á sér langa sögu. Framleiðsluferlið er nokkuð langt og flókið, það þarf að tína telaufin á heiðskýrum degi, margar mismunandi tegundir laufa, síðan eru þau sett inn í hús og hálfgerjuð þannig að 30% laufanna eru rauð en 70% græn. Þá eru þau nudduð til að fá fram bragð og lykt og að lokum eru laufin þurrkuð á kolum. Þegar framleiðslan er tilbúin þarf svokallaður te meistari að meta gæði tesins en til að mynda eru aðeins 20 slíkir te meistarar í Fujian héraði. Ekki nóg með að þetta sé mjög bragðgott te heldur er þetta hollasta teið samkvæmt margvíslegum rannsóknum sem hafa verið gerðar. Með því að drekka nokkra bolla af Wulong tei á dag er þér lofað eilífri æsku, grönnum líkama, betri húð-og tannheilsu og ekki síst á teið að vera kröftugt andoxunarefni sem ver þig fyrir helstu lífstílssjúkdómum númtímans. Sem sagt alls ekki slæmt að gera tedrykkju að daglegum sið.

Miðstýrður hiti

Það er nú svo hér á bæ að það verður ekki settur neinn hiti á húsið sem ég bý í fyrr en 15. nóvember næstkomandi. Fer ekkert eftir því hvenær kólnar hérna, nei nei, ef það verður kalt áður þá verður mér bara að vera kalt. Og í dag er búið að vera kalt úti svo að það er búið að vera kalt í íbúðinni í allan dag sem hefur þýtt að ég hef þurft að fara undir sæng reglulega með Mao´s China and after. Jamm maður getur bjargað sér hér heima en það er ekki alveg hægt að segja það sama um skólann. Er ekki viss um að kennararnir hefðu húmor fyrir því ef ég mætti með sængina mína í tíma. Reyndar verður skrúfað frá hitanum viku fyrr þar en ástandið er orðið frekar slæmt í skólastofunni minni. Húsið er byggt úr steini, það skín engin sól inn í skólastofuna svo eiginlega erum við alltaf að frjósa úr kulda þarna inni, í raun er miklu kaldara inni en úti. Og afleiðingarnar láta ekki á sér standa, svona ca helmingurinn af bekknum er alltaf að drepast úr kvefi. Veðrið hefur nefnilega verið svoldið snúið, kalt á morgnana en svo fínn hiti yfir daginn svo maður verður að klæða sig í mörg lög af fötum.

Tilfinning fyrir rými

Það má nú aldeilis segja það að fólk hér um slóðir hafi öðruvísi tilfinningu fyrir rými og líkamlegri snertingu en maður á að venjast. Þegar einhver rekst hér utan í þig er aldrei sagt "afsakið" ég eiginlega efast um að fólk taki almennt eftir slíku. Ég hef áður rætt um troðninginn í strætó, en Ariele vinkona mín reyndi trikkið þeirra hérna um daginn, þ.e. að láta loka hurðinni á afturendann á sér en ekki fór betur en að þeir lokuðu á fótinn á henni og hún æpti upp af sársauka en enginn þóttist taka eftir neinu.
Síðan er nokkuð merkilegt að hér er mjög algengt að stúlkur haldist í hendur, það er ekkert merki um að þær séu samkynhneigðar heldur bara merki um vinskap. Eiginlega sé ég mikið oftar stelpur haldast í hendur eða utan um hvor aðra heldur en pör. Hins vegar tekur maður eftir því varðandi pör er að helsta merki þess að strákur og stelpa séu í sambandi er að strákurinn heldur á handtösku stelpunnar. Ég hef reyndar líka tekið eftir því að karlmenn halda oft utan um hvorn annan, t.d. þegar ég fór og fylgdist á torg hins himneska friðar á þjóðhátíðardag þeirra sá ég mikið af karlmönnum, tveir og tveir halda utan um hvorn annan meðan beðið var eftir því að kínverski fáninn væri dreginn að húni. Já það er margt öðruvísi hér en þeim finnst t.d. skrýtið að kyssast á kinnar þegar fólk heilsast eins og okkur finnst hið eðlilegasta mál.....

The Tudors

tudorsAlveg týpískt fyrir mig að verða húkkt á einhverju sjónvarpsefni akkúrat þegar ég ætlaði að vera svo dugleg að læra. Ég fjárfesti í fyrstu seríunni af the Tudors í gær og þrátt fyrir að yfirbragð þáttanna sé heldur í miklum sápuóperustíl þá hef ég endalaust gaman af þessu tímabili í sögunni. Hinrik áttundi var ansi litríkur konungur og auðvitað ekki síður afkomendur hans. Ég sit alveg stjörf yfir þessu, sigrunum, plottunum, svikunum og annarri huggulegri pólitíkHalo. Hlutirnir hafa svo sem ekki mikið breyst jú kannski fyrir utan það að nú um stundir eru keppinautarnir í pólitík teknir af lífi í fjölmiðlum en ekki hálshöggvnir af böðlum. Einnig merkilegt hvað það virðist oft drífa pólitíkusa áfram þráin eftir því að verða ódauðlegur en samkvæmt þessum þáttum virðist það hafa verið aðal málið hjá þessum fræga konungi Englands. Tískan frá þessum tíma hefur líka sinn sjarma, karlmenn í sokkabuxum eða brynjum og konur hlaðnar skartgripum í þessum þungbúna og dökka miðaldastíl heillar mig.Smile Já svo eiginlega hef ég ekkert rosalega mikinn tíma til að blogga, Hinrik og kó þurfa að hafa athygli mína óskipta........

Kínverskur veruleiki

P1000497Eins og hefur nú komið áður fram hjá mér þá finnst mér það frábært tækifæri að dvelja hér í Kína og læra meðal annars kínverska sögu og pólitík. En það sem er einna skemmtilegast er að heyra persónulegar reynslusögur heimamanna. Í morgun var tími í kínverskri stjórnmálafræði og kennarinn okkar Pan Wei sagði okkur ansi áhugaverða sögu af sjálfum sér. Þegar hann var ungur kennari við háskólann í Peking fór hann í sendiför á vegum utanríkisráðuneytisins til Singapore. Þetta var á níunda áratugnum og í fyrsta skipti sem hann fór í flugvél. Hann dvaldi þarna ásamt sendinefnd frá félagsvísindadeild háskólans. Á meðan á dvölinni stóð fékk hann 70$ á dag í vasapeninga en gestgjafar borguðu fyrir hann matinn og gistingu svo að hann gat lagt peningana að mestu fyrir. Þegar hann kom heim til Peking aftur var hann forríkur maður og gat keypt sér bæði litasjónvarp og myndavél. Hann hafði haft upp úr krafsinu það sem hefði annars tekið hann 25 ár að vinna sér inn því mánaðarlaunin hans voru 70 yuan sem er að verðgildi í dag tæpar 700 kr. Þessi litla saga sýnir manni hvað mikið hefur breytst hérna síðustu 20 árin og þessar kynslóðir sem stjórna Kína í dag hafa aldeilis séð tímana tvenna í heimalandi sínu. Mikið hefur breyst síðan að þessi maður réði hér ríkjum.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband