Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 29. september 2007

Gullfiskur í búri

Mér finnst afskaplega spennandi að kynnast alveg nýjum menningarheimi, heimi sem ég hafði áður aðeins upplifað í gegnum bækur eða kvikmyndir.
Ég var ekki búin að dvelja í Kína lengi þegar ég áttaði mig á því að ég var Kínverjunum jafnvel enn meira framandi en þeir voru mér. Hér í Kína eru vesturlandabúar vægast sagt öðruvísi og heimamenn eru ekkert að fela að þeim finnist það. Í hverfinu sem ég bý í er lítið um hvítt fólk og þar er stöðugt glápt á mig. Í lyftunni, í verslununum, á götunum, hvert sem ég fer mæti ég fólki með störu. Það bætir ekki úr skák að ég er alveg sérstaklega hvít á hörund (Það þykir þó frekar smart hér á bæ en er umræða í annan pistil). Ég held að það sé óhætt að segja það að ég hef aldrei áður fengið aðra eins athygli. Ég er farin að skilja fullkomlega hvernig gullfiski í búri líður eða frægu fólki. En auðvitað er það ekkert skrýtið, því fyrstu dagana sem ég dvaldi hérna krossbrá mér sjálfri ef ég sá aðra hvíta manneskju svo sjaldgæft var það. Þá verður maður einnig fyrir ótrúlegri athygli þegar maður fer að versla.
Fyrst ber að nefna Silkimarkaðinn, sem er frægur fyrir að selja eftirlíkingar af þekktum merkjavörum. Þar kalla sölumenn og konur til manns á mjög frambærilegri ensku og hvetja mann til að koma og skoða í básinn þeirra og ef það dugar ekki til þá grípa þeir í handlegginn á manni og leiða mann svo í viðkomandi bás. Þetta er allt partur af stemningunni því á markaðnum er prútt í hávegum haft. Hins vegar þurfti ég að fara í nokkur skipti í verslanir sem selja tölvur, myndavélar, síma og aðrar tæknivörur. Þar kom mér á óvart hversu aðgangsharðir sölumennirnir eru.
Þetta eru ekkert öðruvísi verslanir en BT, Sony eða Apple eru heima. Ég gekk þarna um eina hæðina þar sem voru yfir hundrað básar og hver einasti sölumaður hrópaði á mig og jafnvel togaði í mig til að reyna að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél eða GSM-síma. Ég tók eftir því að ég var eina manneskjan þarna inni sem fékk þessa meðferð, væntanlega vegna þess að ég leit öðruvísi út. Mig langaði mest til þess að hrópa á móti hvernig þeim dytti eiginlega í hug að það væri nóg að æpa á mig og toga í mig til að fá mig til að kaupa tölvu, myndavél eða GSM-síma. Ég væri eins og annað fólk og keypti slíkt aðeins ef ég þyrfti þess með. En það er verulega holl reynsla að átta sig á því að hinn vestræni maður er ekki nafli alheimsins og til er fullt af fólki í heiminum sem finnst maður stórfurðulegt fyrirbæri.


Bækur

Ég elska bækur og fæ bara aldrei nóg af þeim. Hef oft keypt miklu fleiri bækur en ég kemst yfir að lesa og hef ósjaldan fengið mis penar athugasemdir frá vinum um að maður eigi nú líka að lesa bækurnar sem maður kaupir. En ég bara ræð ekki við þetta, mér finnast þessir fróðleiksbrunnar í pappírsformi algjörlega ómótstæðilegir.

Í dag fór ég í "The English Bookstore" sem er niðri í bæ að kaupa bækur til að komast betur inn í hið kínverska samfélag með einum eða öðrum hætti. Ég keypti kínverska matreiðslubók sem kennir að elda venjulegan heimilismat og er ég að vonast til að það hjálpi mér að átta mig á matarúrvalinu hérna og hvernig ég að setja saman matartegundir sem ég hef ekkert vit á. Svo keypti ég bók um kínverska stjórnskipan og þá hvernig hún er byggð í kringum kommúnistaflokkinn. Ég stóðst heldur ekki freistinguna að kaupa bók um kínverskt einkamálaréttarfar og af einhverjum orsökum koma mér í hug nöfn á 2 vinum mínum, sjálfum laganördunum Stefáni Boga og Finni Þór. Ég er nokkuð viss um að þeir hefðu áhuga á að glugga í hana með mér :-) Þá keypti ég enn eina bókina um hvernig ég get sparað peninga, tíma og fleira sniðugt hér í Peking, en bókin heitir "Streetwise guide Beijing" Svo ég ætti nú að vera orðin ansi góð þegar þið sem ætlið að koma í heimsókn látið sjá ykkur! Nú ég splæsti einnig í bók sem fjallar um sögu Kína frá upphafi fram að menningarbyltingunni eða síðustu 50 aldirnar, já Kína á sér ansi langa sögu. Það var sem sagt frekar kát kona sem kom heim með bækurnar sínar í dag og er ég þegar farin að glugga í allan þennan fróðleik.

Kvöldinu var svo eytt í félagsskap bekkjarfélaganna en við skelltum okkur á veitingastað og fengum okkur pekingönd eftir öllum kúnstarinnar reglum. Það er sko allt nýtt svo að meðal annars var boðið upp á andarinnyfli, andafitur, andarhaus með heila og alles og svo þetta klassíska, andarkjöt með pönnukökkum og meðlæti. Til þess að við gætum nú verið örugg með gæðin fengum við kort þar sem vottað var að við borðuðum önd nr. 043114. Okkur leið náttúrulega mikið betur að vita þetta!! En maturinn smakkaðist bara mjög vel og var gaman að hitta alla krakkana, sérstaklega þau kínversku því þau koma ekkert mjög oft með okkur út á lífið.


Grjónagrautur

Í kvöld var sameinuð matarmenning Kína og Íslands og eldaður grjónagrautur. Það hefur nú reyndar krafist ákveðins undirbúnings að geta eldað þennan einfalda rétt. Það þurfti að finna rúsinur og kanil en ég hef eingöngu séð þann varninginn til sölu í matvöruverslunum sem eru með vestrænt horn hjá sér. Nú þegar ég hafði keypt rúsínur og kanil var komið að því að finna réttu hrísgrjónin í þessu grjónalandi. Það var nú í fyrsta lagi erfitt að finna minni pakkningu en ca 5 kílóa eða stærri. Kannski heldur mikið fyrir heimili einnar manneskju þótt ég myndi borða hrísgrjón á hverjum degi. Talandi um hrísgrjón þá er greinilega aðal heimilstækið hérna hrísgrjónasuðupottur. Ég held að maður sé voðalega lummó að eiga ekki einn slíkan. En ofar á óskalistanum mínum er nú reyndar bakaraofn en slíkt heimilistæki tíðkast ekki í kínverskum eldhúsum. En já grjónagrauturinn sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ég man eftir mér smakkaðist alveg ljómandi vel og var kærkomið bragð að heiman. Ég hef reyndar ákveðið að grjónagrautur verði það sem ég elda fyrir vinahópinn hér því ég er komin í skuld með að bjóða upp á rétt frá heimalandinu.

Annars hefur dagurinn bara liðið í rólegheitum, kínverskutími í morgun og svo hef ég verið að lesa fyrir fagið í kínverskri stjórnmálafræði bók þar sem er verið að færa rök fyrir því að Kína eigi ekki að taka upp lýðræði heldur að halda sig við einn stjórnmálaflokk og herða í staðinn reglur um spillingu og annað sem hrjáir samfélagið hér. Virkilega áhugaverð lesning og gaman að nálgast þetta viðfangsefni frá öðru sjónarhorni en ég er vön úr vestrinu.


Frí

Ég er komin í frí frá skólanum þar til 9. október næstkomandi. Þetta er frí sem Kínverjar nota til að ferðast um landið sitt svo að það verður troðið alls staðar á öllum ferðamannastöðum hér í landi næstu vikuna. Ég ákvað eftir nokkra umhugsun að vera bara hér í Peking, nota tækifærið og skoða borgina betur. Það er víst nóg af stöðum sem ég á eftir að skoða og ýmislegt sem ég á eftir að gera eins og t.d. að fara á klassíkt tehús og fá te eftir öllum kúnstarinnar reglum sem Kínverjar hafa sett um þessa iðju sína. Ég hlakka mikið til að fara í smá túristaleik hérna og njóta bara lífsins í þessari borg sem hefur upp á svo margt spennandi að bjóða. Og ekki er það verra sem ég hef heyrt að umferðin sé með léttari móti þessa frídaga þegar Pekingbúar eru roknir út um allar trissur hér í Kína.


08.08.08 kl. 08

Það er óhætt að segja það að maður sé farinn að finna fyrir þessari dagsetningu en þá verða ólympíuleikarnir settir. Hvarvetna eru nú til sölu minjagripir um ólympíuleikana, hægt að kaupa dúkkurnar sem voru hannaðar sérstaklega fyrir leikana, drykkjarkönnur, boli með lógóinu o.s.frv. Svo eru það mannvirkin sem hafa verið byggð fyrir leikana en bara að sjá þau utanfrá er nokkuð magnað. Það styttist óðum í að miðar verða settir á sölu en mér skilst að það byrji í október svo maður verður að fara að ákveða hvað manni langar helst að fylgjast með. Ég held að það sé útséð með opnunarhátíðina en miðar á hana kosta um 50.000 kr. og ég held að mig langi nú ekki svo mikið á þennan atburð. En ég hlakka bara til að vera viðstödd hér í ágúst á næsta ári. Það er hinn frægi leikstjóri Kínverja hann Yimou Zhang sem t.d. leikstýrði myndinni House of flying daggers sem mun hanna opnunaratriðin. Miðað við myndir hans ætti hann ekki að valda okkur vonbrigðum.


Dekurdagur

Dagurinn hófst á fyrirlestri hjá prófessor Pan Wei um að Kína væri stéttlaust þjóðfélag. Fór misvel í bekkinn og ekki voru allir sammála honum. Þá sagði hann okkur líka að hið skrifaða mál í Kína hefur svo lítið breyst síðustu 5.000 árin að fólk getur enn lesið það sem var ritað fyrir 5.000 árum. Geri aðrir betur! Eftir skólann hófst hið ljúfa líf hjá minni. Ég skellti mér í SanLiTun í fótanudd, það eru heilar 80 mínútur og ekki eru fæturnir aðeins nuddaðir heldur axlir, bak, handleggir og fótleggir. Þvílík nautn, þetta var algjört æði, ég var alveg endurnærð á eftir. En ekki dugði þetta til því strax á eftir skellti ég mér í fótsnyrtingu, ekki vanþörf á skal ég segja ykkur eftir allt labbið hérna í hita og sól. Þegar ég var búin að láta dekra við mig í ca 3 klukkutíma skellti ég mér á Bókaorminn (Súfistann í Peking) þar sem ég lærði fyrir morgundaginn og drakk dásemdar kaffi. Lærdómur dagsins var uppgangurinn í viðskiptalífinu hérna í Kína. Meðal annars voru þar staðreyndir á borð við að í borg sem heitir Senzhen sem er nálægt HongKong eru fluttir út 40 miljónir gáma á ári, það gerir einn gám á sekúndu, allan sólarhringinn, 365 daga ársins. Starfsfólkið sem vinnur í verksmiðjunum vinnur á 12 tíma vöktum, 6 eða 7 daga vikunnar, borðar í mötuneyti verksmiðjunnar og sefur í svefnskálum sem eru byggðir við verksmiðjurnar. Stærsta verksmiðjan lætur slátra 3.000 svínum daglega fyrir starfsmenn sína, en aðeins milli 200. og 300.000 manns vinna þar eða cirka jafn margir og búa á Íslandi. Frekar magnaðar tölur sem sýna gríðarlega stærð þessarar þjóðar.

Eftir að skólalærdóminum lauk var kominn tími til að hitta Íslendingafélagsmenn. Það var ákveðið að hittast á veitingastað sem heitir Hot Loft og er með svokallaðan "HotPot" mat. Þessi matur er borinn fram hrár og hver fær sinn pott með soði í til að elda matinn sinn. Við fengum ýmislegt góðgæti til að sjóða okkur svo sem nautakjöt, lambakjöt, grænmeti, núðlur og kartöflur. Hápunkturinn voru samt rækjurnar, sem komu framreiddar í skelinni, þræddar upp á prik og enn LIFANDI. Ég gat bara ekki hugsað mér að stinga þeim lifandi ofan í sjóðandi pottinn svo ég lét mér bara duga að horfa á þær hreyfa alla anga, ég reyndar tók það upp á videó svo nú er ég með sannanir fyrir þessum huggulegheitum. Borðfélagar mínir áttu ekki til orð yfir hversu góðar rækjurnar brögðuðust en ég ákvað að bíða með að smakka, meikaði það bara ekki.

Þetta var hrikalega næs dagur í alla staði og frábær félagsskapurinn í Íslendingafélaginu. Ætlunin er að hittast einu sinni í mánuði og hlakka ég virkilega til þess.


Afmælisveisla

Gærkvöldið fór í að fagna með Niccolo Manzini, bekkjarfélaga okkar, 22. ára afmælisdeginum hans. Hann á reyndar afmæli í dag svo veislan heldur áfram nú í hádeginu. í gærkveldi fórum við í Hou Hai garðinn, fengum okkur að borða og kíktum á nokkra bari. Þessi garður er svo sannarlega sveipaður ævintýraljóma á kvöldin, kveikt er á fullt af ljósum í öllum regnbogans litum, litlar götur eru í kringum stórt vatnið og meðfram þeim eru svo veitingastaðir og barir. Við fórum meðal annars á stað sem heitir Lotus Blue og sátum upp á 3ju hæðinni. Við sátum í eh bás undir berum himni með lágum rauðum sófum og allt í kring héngu rauðir kínverskir lampar. Útsýnið var beint út á vatnið og á ljósadýrðina í kringum það. Æðislegt umhverfi, manni leið eins og maður væri í eh kínversku ævintýri. Eftir að hafa fagnað vel og lengi og notið þess að vera í skóla og frelsinu sem því fylgir var ákveðið að drífa sig heim því þrátt fyrir allt þurftum við að mæta í kínversku í morgun kl. 9. Áður en við fórum heim var ákveðið að kaupa rauðan kínverskan lampa sem kveikt er upp í eins og loftbelg og hann svífur upp í loftið uppljómaður. Að lokum þó þá hrapar hann niður og brennur upp. Skemmtilegur siður sem minnir svolítið á gamlárskvöld.

Þjóðleg stemming

Boðið hjá sendiherra Íslands hér í Kína til heiðurs Hamrahlíðarkórnum var mjög skemmtilegt. Það var afskaplega þjóðlegt því allur kórinn, um 60 manns, var klæddur í þjóðbúninga. Að mestu voru Íslendingar í boðinu fyrir utan um 10 Kínverjar sem höfðu haft veg og vanda af skipulagningu kórsins hér í Peking. Kórinn á eftir að fara á fleiri staði innan Kína en kvöldið í gær var síðasta kvöldið hérna í borginni. Boðið var upp á mjög góðan mat, meðal annars reyktan lax, gott að fá smá bragð að heiman. Kórinn var duglegur að syngja í boðinu og var lagavalið kannski heldur dramatískt, eiginlega svo dramatískt að nokkrar stúlkurnar úr kórnum fóru að gráta. Það var kannski ekkert skrýtið því miðað við það sem maður heyrði á þeim hafði verið stíf keyrsla á dagskrá þeirra frá því að þau komu hingað. En kórinn var alveg frábær og söng afskaplega fallega og ég verð að segja að ég fékk smá gæsahúð þegar þau sungu "Sofðu unga ástin mín" sem er eitt af mínum uppáhaldslögum. Eftir að Kínverjarnir og kórinn kvöddu settumst við nokkur niður og spjölluðum saman í rólegheitum um lífið í Peking, stjórnmál og ýmislegt annað skemmtilegt. Ég og Ásta ákváðum svo að skella okkur í SanLiTun og kíkja á nokkra krakka úr bekknum mínum sem voru þar á næturklúbbi sem heitir Vicks. Þrátt fyrir að hafa skellt í okkur mojito á methraða til að komast í stemminguna sem ríkti þarna gekk það ekki alveg upp. Of troðið og ekki nógu skemmtileg tónlist fyrir okkar smekk. Drifum okkur bara heim á leið og bara ansi ánægðar með kvöldið.

Pistill birtur í Fréttablaðinu laugardaginn 22. september 2007

Eitt af því fyrsta sem maður verður áþreifanlega var við í Peking er umferðin í borginni. Við öðru er svo sem ekki að búast í 16 milljóna manna borg.
Eitt af því fyrsta sem maður verður áþreifanlega var við í Peking er umferðin í borginni. Við öðru er svo sem ekki að búast í 16 milljóna manna borg. Mikið er af stórum og breiðum umferðargötum með margar akreinar í báðar áttir. Einn helsti ferðamátinn í borginni eru hjólreiðar og liggja hjólreiðagötur meðfram flestum akbrautunum. Umferðin er með magnaðra móti, því hér ægir öllu saman, gangandi vegfarendum, hjólreiðamönnum, bílum og strætóum. Það virðist eins og hér haldist gamli og nýi tíminn í hendur enda hefur þróunin verið hröð undanfarin ár og allt verið byggt upp með ógnarhraða. Þetta setur hins vegar sinn sjarma á borgarlífið, að horfa á nýtísku sportbíl sem er ekið af afar kúl ungum manni með nýjustu pönkhárgreiðsluna við hliðina á gömlum manni á ryðguðu hjóli með bögglabera hlaðinn varningi svo að hjólið lítur út eins og lítill vörubíll.

Lífsbaráttan hér í þessu milljóna manna samfélagi er hörð og samkeppnin mikil og það sem gildir í umferðinni er frumskógarlögmálið. Maður er ekki búinn að vera lengi í Peking þegar maður áttar sig á því að að hika er sama og að tapa. Þú verður að troða þér áfram, nota hverja einustu glufu sem skapast til að koma þér áfram, því ef þú gefur eftir ertu bara skilinn eftir og einhver annar tekur plássið þitt.

Svo er það flautið, í umferðinni er stöðugt flautað, til þess að vara gangandi eða hjólandi vegfarendur við að bíll sé að aka framhjá þeim. Eða þegar umferðin er komin í algjöran hnút, þá er eins og sumir ökumenn haldi að ef þeir flauti nógu mikið þá gufi bílarnir fyrir fram þá upp. En flautan glymur allan daginn og eftir smá tíma hættir maður að taka jafn mikið eftir því.

Þar sem fjarlægðir eru miklar í Peking eru leigubílar mikið þarfaþing. Almennt er nóg af þeim og ekki eru þeir dýrir á íslenskan mælikvarða. En frá því að ég kom hingað hefur það ekki alltaf verið einfalt að taka leigubíl og komast á áfangastað. Í fyrsta lagi þá tala ég ekki neina kínversku og varla nokkur leigubílstjóri sem ég hef rekist á talar ensku. Þetta þýðir að maður verður að reiða sig á táknmálið alþjóðlega til þess að koma sínu á framfæri. Einnig hef ég gripið til þess ráðs að hafa öll heimilisföng skrifuð á kínversku en það hefur ekki heldur dugað til þar sem sumir leigubílstjóranna virðast ekki geta lesið þau. Þá hef ég verið með símanúmerið á áfangastaðnum og beðið bílstjórann vinsamlegast um að hringja þangað til að fá leiðbeiningar um hvernig hann komist á umræddan stað. Ég verð að viðurkenna að þegar ég kom hingað varð ég fyrir ákveðnu sjokki yfir því hversu fáir hérna tala ensku. En þegar maður veltir því aðeins betur fyrir sér að fyrir einhvern sem talar tungumál sem 1.300 milljónir manna skilja þá er það kannski ekkert skrýtið. En þrátt fyrir að þeir tali ekki stakt orð í ensku er ekki óalgengt að þeir kveðji mann með orðunum: "okay bye bye take care".

Eins og áður sagði gengur það yfirleitt vel fyrir sig að finna leigubíla hér í borg, yfirleitt er alveg nóg að veifa hendi og það er kominn bíll um leið. Hins vegar komst ég að því að þegar ég ætlaði að mæta í tíma kl. 9 var langt frá því að vera auðvelt að finna leigubíl þegar flestir Pekingbúar eru á leið til vinnu eða skóla. Ég og bekkjarfélagar mínir sem búa hér á sama stað hlupum fram og til baka eftir endilangri götunni og veifuðum út öllum öngum sem bar engan árangur. Eftir að hafa reynt í næstum því klukkustund og orðin alltof sein í skólann náði félagi okkar að stoppa einn venjulegan borgara og telja hann á að keyra okkur í skólann fyrir borgun. Eftir nokkur skipti í morgunsárið áttaði ég mig á því hvar vænlegast er að ná í leigubíl. Ég er ekki frá því að það hríslist um mig sama tilfinning og við veiðar, þegar maður var búinn að uppgötva besta staðinn þar sem alltaf er bitið á.

En þrátt fyrir að maður hafi orðið svolítið skelfingu lostinn yfir umferðarmenningunni hér og reyndar fundist þetta bara vera helber ómenning hef ég enn ekki orðið vitni að einu einasta óhappi í umferðinni. Jafnframt hafa kínverskir skólafélagar mínir, sem eru aldir upp hérna í Peking, sagt mér að það sé alls ekki erfitt að keyra í umferðinni hérna. Enn sem komið er held ég að ég taki bara orð þeirra trúanleg og sé ekkert að reyna að sannreyna það.


Drykkur dagsins

Drykkur dagsins er engifer í soðnu vatni bragðbætt með hunangi, amk enn sem komið er. Ég hef sagt kvefinu stríð á hendur og mér finnst að með aðstoð engifersoðsins sé þetta allt að koma. Það sem er af degi hefur verið eytt í ýmislegt stúss eins og að þvo þvotta og taka til. Eftirmiðdagurinn er hins vegar helgaður Íslandi. Sendiherra Íslands hér í Kína, Gunnar Snorri Gunnarsson, hefur boðið til móttöku í tilefni þess að Hamrahlíðarkórinn er hér í söngreisu. Móttakan er haldin heima hjá sendiherranum og hefst kl. 18. Mér skilst að til þess að vera komin þangað á réttum tíma verði ég að leggja af stað ekki síðar en um 16.30. Jamm maður verður að vera þolinmóður og stilla sig inn á aðeins annað hugarfar en heima þar sem maður verður pirraður að þurfa að keyra í korter á áfangastað. Hver veit nema drykkur dagsins breytist í eitthvað sterkara í kvöld og maður kíki á djammið með söngfuglunum frá Íslandi......

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband